Tillögur stjórnar HRFÍ til að fjölga félagsmönnum

Þórhildur Bjartmarz:

Úr fundargerð stjórnar HRFÍ 22. júní 2015

Í fundargerð frá fyrsta fundi nýrrar stjórnar koma fram tillögur um fjölgun félagsmanna. Önnur þeirra er hljóðar svo:

Þá var ákveðið að kanna hvort Reykjavíkurborg myndi skoða að veita afslátt af hundaleyfisgjaldi ef hundaeigandi er félagsmaður í HRFÍ.

Er þetta ekki vanhugsað? Gefur þetta ekki borginni ástæðu til þess að hækka hundaleyfisgjöldin svo hægt sé að veita þessum stóra hópi félagsmanna HRFÍ afslátt? Og hvað með önnur sveitafélög ef Reykjavíkurborg er til í tuskið, ætlar þá stjórn HRFÍ að semja við öll sveitafélög landsins?  Ef sum sveitafélög segja já og önnur nei er þá ekki verið að mismuna félagsmönnum og valda leiðindum?

HRFÍ heitir fullu nafni Hundaræktarfélag Íslands en ekki HRFR Hundaræktarfélag Reykjavíkur. Það á að vera verkefni stjórnar félagsins að finna leið til þess að endurskoða skráningu allra hunda í öllu landinu. Og er það sanngjarnt að við Íslendingar borgum árlegt eftirlitsgjald/leyfisgjald?  Er ekki nóg að hafa skráningargjald? Með því að vinna að úrbótum fyrir alla hundaeigendur á landinu eru meiri líkur á að hin almenni hundaeigandi sjái sér hag í því að vera félagsmaður í HRFÍ og taka þátt í uppbyggingu á hundvænna samfélagi.

Hin tillagan er svona:

Var ákveðið til að byrja með að kanna kostnað við að gefa nýjum hvolpaeigendum félagsgjald fyrsta árið. Framkvæmdastjóra falið að gera útekt/áætlun.

Hvernig ætlar félagið að útfæra þessa hugmynd? Ef ég er félagsmaður í HRFÍ og á 10 ára gamlan hund og fæ mér hvolp, er ég þá ekki nýr hvolpaeigandi og fæ sömu kjör og sá sem er að kaupa sér hvolp í fyrsta sinn, eða hvað? Ef ég fæ mér hvolp núna í ágúst þarf ég þá ekki að borga félagsgjald fyrr en í ágúst á næsta ári og þá 1/2 gjald fyrir 2016?

Við lestur tillagnanna vakna enn fleiri spurningar:

  • Eiga félagsmenn HRFÍ að sækja um afslátt ár hvert eða ætlar HRFÍ að afhenda félagatalið, fari svo að Reykjavíkurborg samþykki tilmælin? Hvað ef maður borgar ekki félagsgjaldið á réttum tíma í janúar er þá ekki hægt að sækja um afslátt af leyfisgjöldum það árið?
  • Mun ekki Félag ábyrgra hundaeigenda, FÁH, og fleiri félög krefjast sömu afsláttarkjara? Það er ekkert félagsgjald í FÁH því væri það væri hagkvæmara fyrir hundaeigendur að skrá sig í það félag og fá afsláttinn. Þannig að hundaeigendur myndu varla ganga í HRFÍ og greiða fyrir það 7.500 krónur til að fá einhvern afslátt af eftirlitsgjöldum. Það er líklegara að félögum í FÁH myndi fjölga talsvert en óvíst um hvaða áhrif þetta hefði á félagatal HRFÍ.

Sjá fundargerðina: http://www.hrfi.is/uploads/2/2/3/3/22333014/fundagerd_1_2015.pdf

Bókunin: Fjölgun félagsmanna: Stjórn vill vinna að því að fjölga félagsmönnum. Margar hugmyndir komu fram um mögulegar leiðir. Var ákveðið til að byrja með að kanna kostnað við að gefa nýjum hvolpaeigendum félagsgjald fyrsta árið. Framkvæmdastjóra falið að gera útekt/áætlun.

Þá var ákveðið að kanna hvort Reykjavíkurborg myndi skoða að veita afslátt af hundaleyfisgjaldi ef hundaeigandi er félagsmaður í HRFÍ.

 

Sjá greinar á Hundalífspóstinum sem tengjast þessu efni:

http://hundalifspostur.is/2015/04/21/felagsgjald-hrfi/

http://hundalifspostur.is/2015/05/08/hvernig-vaeri-ad-gera-bara-eins-og-sviar/

http://hundalifspostur.is/2015/05/06/hvad-hindrar-edlilegt-hundahald-a-islandi/

http://hundalifspostur.is/2015/05/04/eru-hundaleyfisgjoldin-timaskekkja/