Eru hundaleyfisgjöldin tímaskekkja?

Freyja Kristinsdóttir dýralæknir og hundaþjálfari skrifar:

Hundaleyfi og hundaleyfisgjald… hver fann eiginlega upp á því?

Erlendir hundaeigendur reka upp stór augu og eyru og jafnvel hlæja þegar maður segir þeim að íslendingar þurfi að sækja um leyfi til að fá að eiga hund og greiða árlegt hundaleyfisgjald.

Skoðum þetta aðeins nánar.

Samþykkt um hundahald í Reykjavík hefst á þessum orðum: „Hundahald er heimilað í Reykjavík að fengnu leyfi og uppfylltum þeim skilyrðum, sem sett eru í samþykkt þessari.

Þetta leyfi til hundahalds kostar reykvískan hundaeiganda 18.900 kr á hverju ári – per hund! Gjaldið er svipað en oftast örlítið lægra í öðrum sveitarfélögum; einnig er hægt að sækja um 50% afslátt að loknu viðurkenndu hlýðninámskeiði.

Hvernig er þessum málum háttað í nágrannalöndunum?

Í Danmörku kallast það ekki að „sækja um leyfi til þess að eiga hund“, en þú þarft að skrá hundinn áður en hann verður 8 vikna gamall. Þetta kostar 125 DKK eða um 2500 krónur íslenskar í eitt skipti. Það er ekkert sem heitir árlegt hundaleyfisgjald eða árlegt eftirlitsgjald. Skráningin er ekki hjá sveitarfélagi, heldur í örmerkjagagnagrunn þar sem öllum hundaskráningum er haldið til haga. Peningurinn fer sem sagt í að halda þessum gagnagrunni uppi, og dýralæknar og hundaathvörf hafa aðgang að þessum gagnagrunni.

Ég hef leitað eftir upplýsingum um hundaskráningargjöld í ýmsum vestrænum löndum, og það er ýmist engin skráningarskylda eða gjöldin svo lág að það er engan vegin sambærilegt við Ísland.

Jón Jónsson sem á tvo hunda sem lifa í 15 ár, gæti þannig þurft að greiða 567.000 kr í hundaleyfisgjöld. Lars Larsen í Danmörku sem á tvo hunda sem lifa í 15 ár þarf aðeins að greiða 5.000 kr. Þarna munar hálfri milljón.

Nú hljóta margir að hugsa að aðstaðan til hundahalds hljóti þá að vera til fyrirmyndar á Íslandi fyrst það eru svona miklir fjármunir í þessum málaflokki! Á höfuðborgarsvæðinu eru um 5.600 hundar skráðir (http://www.spyr.is/grein/opinber/8181) og hundaeigendur greiða hátt í 70 milljónir króna árlega í hundaleyfisgjöld. 70 MILLJÓNIR…… Á ÁRI!!! Það hljóta að vera hundagerði með hundaleiktækjum í öllum almenningsgörðum, fjölmörg lausagöngusvæði með fallegum gróðri og göngustígum og gullhúðaðir hundavatnshanar og skítapokastandar á hverju götuhorni???

Nei aldeilis ekki. Þessir peningar fara í að greiða laun hundaeftirlitsmanna, kostnað við að prenta leyfisskírteini og hundamerki, kostnað við bannskilti (hundar bannaðir og hundar í taumi), kostnað við að ýta á eftir því að fleiri skrái hundana sína og svo ábyrgðartryggingu sem er í flestum tilfellum algjörlega ónothæf því sjálfsábyrgðin er svo há.

Hvers vegna láta íslenskir hundaeigendur bjóða sér þetta? Hundaleyfi og hundaleyfisgjald – er þetta ekki tímaskekkja og löngu orðið úrelt? Færum Ísland inn í nútímann og afnemum þennan skatt sem lagður er á hundaeigendur.

Netfang mitt er: freyjakris@gmail.com ef þú vilt koma athugasemdum á framfæri.