Bjargvættur íslenska fjárhundsins Mark Watson

Þórhildur Bjartmarz:

Verður fæðingadagur Watson 18. júlí dagur íslenska fjárhundsins?

Um 1950 var íslenska fjárhundakynið nær útdautt. Eftir aldamót 1900 hófu margir tilraunir til að kynbæta íslenska fjárhunda með því að blanda border collie við kynið. Markmiðið var að fá betri fjárhunda og í framhaldi af þessari blöndun urðu skosk-íslenskir fjárhundar mest áberandi hundar í sveitum landsins.

Það var erlendur hundaræktandi sem kom oft til Íslands vegna áhuga síns á íslenskum menningararfi sem gerði sér grein fyrir því sem var að gerast með íslenska fjárhundinn. Í fyrstu ferð hans 1937 sá hann íslenska fjárhunda og hreifst af kyninu. Eftir því sem hann kom oftar fækkuðu hundunum sem báru útlit íslenska fjárhundsins.

Þessi hundamaður var breski heiðursmaðurinn Mark Watson. Og hann ákvað að gera allt sem hann gæti til þess að bjarga þessu einstaka hundakyni. Hans úrræði var að safna saman íslenskum fjárhundum á afskkektum stöðum um allt land. Hundunum var komið fyrir á Keldum þar sem þeir biðu útflutnings til Kaliforníu. Um leið vakti hann athygli ráðamanna á því að íslenski fjárhundurinn var nærri útdautt hundakyn og það yrði að grípa til aðgerða til að bjarga þeim örfáu hundum sem enn voru til í landinu.

Mark Watson hvatti til stofnunar Hundaræktarfélags Íslands 1969. Aðalmarkmið með stofnun félagsins var að varðveita og stuðla að ræktun íslenska fjárhundsins. Mark Watson var gerður að heiðurstofnfélaga Hundaræktarfélags Íslands.

Mark Watson var merkilegur maður sem lagði mikið af mörkum til hundamála hér á landi. Þetta er stutt ágrip af merkilegri sögu en ég mun skrifa ítarlegri grein um Mark Watson næsta haust en set þennan pistil inn nú, þvi í dag, 18. júlí, er fæðingardagur Mark Watson. Ég hef gert tillögu minni og borið fram á aðalfundi deildar íslenska fjárhundsins að 18. júlí verði gerður að sérstökum degi íslenska fjárhundsins.

Ég hef fengið góðar undirtektir en ekkert hefur þó enn gerst en vonandi höldum við hátíðlegan dag íslenska fjárhundsins 18. júlí um ókomin ár. Ekki bara hér á Íslandi heldur einnig í þeim löndum sem eru í alþjóðlegri samvinnu um verndun íslenska fjárhundsins.