HVAÐ HINDRAR EÐLILEGT HUNDAHALD Á Íslandi

Jórunn Sörensen

Hundaeigendur á Íslandi sem bera saman aðstæður til hundahalds hér á landi og í nágrannalöndum okkar, furða sig á því hvað þær eru gífurlega ólíkar?

  • Af hverju þurfum við að biðja yfirvöld sveitarfélaga um leyfi ef okkur langar að fá okkur hund en ekki þeir sem búa annars staðar í Evrópu?
  • Af hverju þurfa þeir ekki að borga sérstakan skatt árlega eins og við til þess að halda leyfinu til þess að eiga hundinn okkar áfram?
  • Af hverju geta hundaeigendur í útlandinu farið með hundana sína í almenningsfarartæki, verslanir, kaffihús og hótel – en ekki við?

Spurningin er: Hvað þurfum við Íslendingar að gera svo hundahald í þéttbýli á Íslandi verði með sama hætti og í nágrannalöndum okkar?

Svörin sem ég hef fengið við þessari spurningu frá sumum hundaeigendur og/eða forsvarsmönnum félaga um hunda, eru flest á sömu bókina lærð. Fyrst og fremst að hundaeigendur þurfi að hirða upp hundaskítinn. Síðan þurfa þeir að kenna hundinum sínum að ganga í taumi og mæta fólki og öðrum hundum án þess að skipta sér af þeim. Og það nýjasta er að til þess að hundur geti farið í strætó þurfi eigandi hans að fara með hann á strætónámskeið þar sem hundurinn verður útskrifaður með strætókort. En trúa þeir sem halda þessu fram, því raunverulega að ef við, hundaeigendur í þéttbýli á Íslandi, verðum gallalaus þá muni yfirvöld koma færandi hendi með allt sem þykir sjálfsagt í borgum Evrópu og rétti okkur það á silfurfati. Ég leyfi mér að efast.

Til þess að kippa hundahaldi hér á landi í liðinn og gera það þannig að það verði eins og best gerist í nágrannalöndum okkar þarf að gera tvennt. Í fyrsta lagi að breyta tveimur greinum í reglugerð um hollustuhætti nr. 941/2002. Önnur er 19. gr. en þar segir: „Ekki má hleypa hundum, köttum eða öðrum dýrum inn í húsrými eða á lóðir sem fjallað er um í fylgiskjali 3.“ Í umræddu fylgiskjali eru síðan taldir upp 16 tegundir af stöðum sem dýrum er bannaður aðgangur að. Þar á meðal eru veitinga- og gististaðir. Hin greinin er sú 55. sem bannar að dýr séu flutt í „almennum farþegarýmum samgöngutækja“.

Í öðru lagi þarf að breyta viðhorfi sveitarfélaga til hundahalds en í lögum um hollustuhætti nr. 7/1998 er kafli sem ber titilinn: Samþykktir sveitarfélaganna. Þar er hverju sveitarfélagi veitt heimild að setja „sér eigin samþykktir um atriði sem ekki er fjallað um í reglugerðum.“ Eitt af þessum atriðum er: „Bann eða takmörk gæludýrhalds og húsdýrahalds.“ Og eins og við öll, hundaeigendur í þéttbýli á Íslandi, vitum þá notfæra sveitarfélögin sér þetta ákvæði til hins ítrasta og setja strangar reglur um að hver sá sem vill eiga hund verður að sækja um leyfi og endurnýja síðan þetta leyfi árlega.

Í þessum tveimur atriðum liggur hundurinn grafinn. Í fyrsta lagi í reglugerð um hollustuhætti sem bannar okkur að vera með hundinn okkar í eðlilegu samfélagi annarra manna – þótt við höfum náðarsamlegast fengið leyfi til þess að eiga hund og greiðum árlega skatt vegna þess. Og hins vegar í þeirri óþolandi yfirgangssemi sveitarfélaga að krefjast þess að sá sem vill eiga hund þurfi að sækja um leyfi til þess.

En svo undarlegt sem það nú er þá heyrist ekkert frá félögum hundaeigenda að verið sé að berjast fyrir því að fá reglugerð um hollustuhætti breytt og að sveitarfélag hætti að taka sér það vald veita leyfi til hundahalds. Heldur krefjist þau þess að hundahald hér verði með eðlilegum hætti – hundar verðir skráðir í örmerkjaskrá og þörfum hundaeigenda og hunda þeirra sinnt eins og best gerist í öðrum borgum.

Ef ákvæði sem banna að hundur fari með eiganda sínum á kaffihús, hótel og aðra staði sem almenningur hefur óheftan aðgang að, hverfa úr reglugerð fær eigandi hvolps eðlilegt svigrúm til þess umhverfisþjálfa hann frá þriggja mánaða aldri í öllum venjulegum aðstæðum í samfélaginu. Þá verður hinn fullorðni hundur rólegur og yfirvegaður í þessum sömu aðstæðum. Við þurfum ekki að vera stressuð yfir því að hvolpur kunni ekki alveg að haga sér – hann lærir það með tímanum í venjulegum aðstæðum með rólegum og yfirveguðum eiganda sínum. Í útlandinu sýnir fólk hvolpi umburðarlyndi. Hví skyldum við ekki geta lært það líka?

Af hverju berjast hundaeigendur og félög hundaeiganda ekki fyrir þessum breytingum? Af hverju snýst allt um hundaskít og námskeið? Ég er búin að velta þessu mikið fyrir mér og tel ástæðurnar vera í meginatriðum tvær. Í fyrsta lagi erum við, hundaeigendur, svo skemmd af neikvæðu viðhorfi yfirvalda til hundahalds í áratugi að okkur finnst að sökin hljóti að liggja hjá okkur. Við erum ekki nógu góðir hundaeigendur. Ef við verðum fullkomin verður allt gott og yfirvöld leyfa okkur að fara á kaffihús og í strætó með hundinn.

Í öðru lagi er það mjög þægilegt að skella skuldinni á slæma hundaeigendur. Það er þeim að kenna að hundahald hér er ekki eins og í öðrum löndum. Ég passa minn hund – það vita allir – en það eru þessi hinir sem eru með geltandi og óstýriláta hunda sem skíta út um allt sem skemma hundahaldið. Það þarf bara að ala þessa hundaeigendur upp þá verður þetta allt í lagi. Með þessu viðhorfi komumst við ekkert áfram og erum sjálfum okkur verst.

Ég á þá ósk að hundaeigendur um allt land standi saman í því að breyta viðhorfi yfirvalda til hundahalds í stað þess að skammast út í okkur sjálf. Að barist sé fyrir því að tekin verði út þau ákvæði gildandi reglugerðar um hollustuhætti sem banna að hundur geti fylgt eiganda sínum í hinum ýmsu aðstæðum bæjarsamfélagsins og að koma yfirvöldum sveitarfélaga í skilning um að það er ekki þeirra að ákveða hvort ég má eiga hund eða ekki.

Netfangið mitt er vorverk@simnet.is fyrir þá sem vilja koma athugasemd á framfæri