Hvernig væri að gera bara eins og Svíar?

Jórunn Sörensen

Þegar banni við hundahaldi í höfuðborg Íslands var aflétt 2012 var það auðsjáanlega gert með mikilli tregðu því hundaeigendum voru settar mjög strangar reglur. Í lögum um hollustuhætti nr. 7/1998 stendur reyndar m.a. í XV. kafla: „Þeir sem halda gæludýr í mannvirkjum á íbúðarlóðum í þéttbýli eða á heimilum sínum þurfa ekki að sækja um heimild til heilbrigðisnefndar eða sveitarstjórnar nema ákvæði samþykkta viðkomandi sveitarfélags kveði á um annað.“ Valdið til þess að leyfa eða leyfa ekki fólki að fá sér hund er þannig alfarið lagt í hendur heilbrigðisnefnda/sveitarstjórna. Og það vald hafa yfirvöld hvers bæjarfélags sannarlega tekið sér og sett misstrangar reglur um leyfisveitingar til handa fólki sem vill eiga hund. En það er ekki nóg með að sá sem vill eiga hund þurfi að sækja um leyfi til þess heldur þarf að endurnýja þetta leyfi árlega, þannig að í raun er sá sem bætir hundi við fjölskyldu sína skattlagður umfram aðra þegna. Banninu hefur því raun ekki aflétt að fullu því engum er enn frjálst að fá sér hund án þess að sækja um leyfi til þess til yfirvalda.

Segjum nú samt svo að þú, lesandi góður, viljir endilega fá þér hund, sækir um leyfi og fáir leyfi þá eru hindranir þínar með hundinn ekki að baki því umræddum lögum er fylgt eftir með reglugerð um hollustuhætti 941/2002. „Hreinlæti og dýr“ er heiti á 19. gr. og hefst þannig: „Ekki má hleypa hundum, köttum eða öðrum dýrum inn í húsrými eða á lóðir sem fjallað er um í fylgiskjali 3 og þar er eftirfarandi upptalning: Heilbrigðis- og meðferðarstofnanir; Skólar; Lækna- og tannlæknastofur; Sjúkrahús og aðgerðarstofur; Vistarverur handtekinna manna; Heilsuræktarstöðvar; Íþróttastöðvar og íþróttahús; Gæsluvellir; Snyrtistofur; Nuddstofur og sjúkraþjálfun; Sólbaðsstofur; Húðflúrstofur; Samkomuhús s.s. kirkjur, leikhús, hljómleikasalir, söfn og kvikmyndahús; Gististaðir; Veitingastaðir; Sumarbúðir fyrir börn. Þetta er fyrir utan fyrirtæki sem framleiða og dreifa matvælum sem fjallað er um í sérstakri reglugerð. Undanþágu hafa hjálparhundar með eiganda sínum.

Ekki er allt búið enn. Í XIV. kafla um almenn samgöngutæki stendur m.a. „Dýr má ekki flytja í almennum farþegarýmum samgöngufarartækja“. Undanþágu hafa hjálparhundar með eiganda sínum. Fyrir utan ofangreind bönn samkvæmt reglugerð eru í viðbót alls konar bönn hingað og þangað í samfélaginu þar sem stór skilti sem sýna yfirstrikaðan hund, blasa við. Það er því þannig hér á landi að sá sem býr í þéttbýli og á hund getur ekki verið eðlilegur og sjálfsagður hluti af samfélaginu.

Ég vil að við breytum þessu og geri að tillögu minni að við gerum eins og Svíar. Í Svíþjóð er skilt að merkja og skrá alla hunda innan fjögurra mánaða aldurs. Helmingsafsláttur er af skráningargjaldinu ef skráð er á netinu. Síðan eru eigendaskipti skráð endurgjaldslaust. Taktu eftir lesandi góður – það á  aðeins að skrá hundinn en yfirvöld taka sér ekki það vald yfir þínum persónulegu málum að þú verðir að sækja um leyfi til þeirra til þess að fá að eiga hund. Ef þú býrð í Svíþjóð og langar að fá þér hund er það þitt mál en ekki yfirvalda.

Jordbrugsverket (Landbúnaðarráðuneytið) heldur utan um skráninguna og á síðum þess eru leiðbeiningar um allt mögulegt sem gott er að vita fyrir þann sem ætlar að fá sér hund. Eins og til dæmis hvað hann þarf að vita ef hann ætlar að ferðast með hundinn sinn? Allt yfirbragð á reglum og leiðbeiningum er vinsamlegt og jákvætt í garð hunds og eiganda og miðar fyrst og fremst að velferð hundsins.

Síðan skipta sænsk yfirvöld sér ekkert meira af hundahaldi fólks – ef það gætir að velferð dýrsins sem það hefur nú tekið ábyrgð á. Hægt er að ferðast í öllum almenningsfarartækjum – hvort sem það er í lest, strætisvagni eða flugvél. Fara inn inn á veitingastað með hundinn er velkomið af hálfu yfirvalda – en skilti við dyrnar segir til um hvort eigandi veitingastaðarins vill fá hunda inn eða ekki. Sama er að segja um verslanir og hótel.

Yfirvöld í Svíþjóð gera sér grein fyrir því að þau bera ákveðna ábyrgð á að hundaeigendur geti látið hundinum sínum líða sem best í borginni. Því eru víða hundagerði og í þeim bekkir fyrir eigendur hundanna. Hundagerðin eru gerð eftir viðurkenndum stöðlum og um þau gilda ákveðnar reglur.

Hvernig lýst þér á þetta ágæti lesandi? Eigum við ekki bara að hafa hundahaldið einfalt og þægilegt – eins og Svíar?

Netfangið mitt er: vorverk@simnet.is ef þú vilt koma athugasemd á framfæri.

http://www.jordbruksverket.se/amnesomraden/djur/olikaslagsdjur/hundarochkatter.4.207049b811dd8a513dc8000413.html