Eiga gæludýraeigendur sér enga málsvara?

Jórunn Sörensen

Eiga gæludýraeigendur á Íslandi sér enga málsvara?

Það er með ólíkindum hvernig við, Íslendingar, förum með fólk sem vill eiga gæludýr – ekki síst ef það býr í fjölbýli, þarf að leigja eða stendur höllum fæti vegna örorku og/eða fátæktar. Félagsbústaðir í Reykjavík sem eru einhvers konar „opinbert einkahlutafélag“ – hvað sem það nú merkir – bannar leigjendum sínum alfarið að eiga gæludýr. Sama má segja um Brynju hússjóð Öryrkjabandalags Íslands sem gefur nú leigendum sínum frest til þess að losa sig við dýrin sín. „Losa sig við dýrin“ – dýr eru ekki rusl. Dýr sem fólk heldur á heimili sínu eru hluti fjölskyldu fólks. Það er og vísindaleg staðreynd að gæludýr, hundar og kettir, gegna gífurlega mikilvægu hlutverki til þess að bægja frá einmanaleika og bæta einnig bæði líkamlega og andlega heilsu fólks.

Í Morgunblaðinu laugardaginn 25. apríl 2015 er þess getið á forsíðu að aflífa hafi þurft sex hunda á síðasta ári. Einnig er tekið fram að hundaeigendur „hafi verið kærðir vegna ofbeldis og hótana þegar sækja þurfti (leturbreyting mín) hunda sem ekki var samþykki fyrir í fjölbýli.

Forsíðufréttinni er síðan fylgt eftir á síðu 28 inni í b.laðinu og þar er m.a. haft eftir Óskari Björgvinssyni hundaeftirlitsmanni:

„Ég er með eitt mál þar sem íbúð var keypt með þeim fyrirvara að hundahald væri leyft. En þegar upp var staðið kom í ljós að svo var ekki. Farið var í það að ná hundinum úr húsi en tilfinningar eru oft svo miklar í þessm málum. Fólk er farið að manngera hundana og flytur frekar en að losa sig við hundinn (leturbreyting mín).“

Og áfram er haft eftir Óskari að þegar fólk velur að flytja ekki sé lögreglan er kölluð til til þess að fjarlægja hundinn samkvæmt dómsúrskurði og þá lendi menn í því að eigandi hunds lemur frá sér og hefur uppi hótanir.

Þessi grein er lýsandi fyrir það virðingarleysi sem ríkir gagnvart fólki sem á og vill eiga dýr á heimili sínu. Orð Óskars lýsa einnig takmarkalausu skilningsleysi á því hvers virði það er fyrir fólk að eiga hund en hann talar um að „manngera“ dýrin og virðist bæði undrandi og hneykslaður á því að fólk verður viti sínu fjær af reiði og örvæntingu þegar lögreglan er mætt með dómsúrskurð upp á arminn til þess að rífa hundinn af eigendum. Búum við í lögregluríki, ég bara spyr?

Í mínum huga er þetta ástand fullkomlega óviðunandi og óásættanlegt og það sem verra er að hunda- og kattaeigendur og dýrin þeirra virðast ekki eiga sér neinn málsvara.

Greinin var birt í Mbl. 7. maí 2015