Sameiginlegt lögmál manna og annara dýra

Þórhildur Bjartmarz:

Þvílíkir dásemdar- og dýrðardagar. Nú er þjóðin búin að gleyma hundaskít út um allt en talar í staðinn um mannaskít. Það er mannaskítur hér! hrópar fólk hvert um annað þvert og við hundaeigendur glottum.

Það er ekki nóg að selja ferðamönnum mat og drykk það þarf að útvega fólki aðstöðu til að losa sig við það sem það lætur ofan í sig – sem er sameiginlegt lögmál manna og annara dýra.

“Þingvallagestir hægja sér í rjóðri við þjóðargrafreitinn” stendur á forsíðu Fréttblaðsins í dag. Það er ekki draumur ferðamanna um frí á Íslandi að þurfa að skíta á bak við kirkju. Þvílíkt gerir fólk einungis í neyð. Draumurinn um að sjá Þingvelli verður kannski líkari martröð fyrir ferðamann sem þurfti að bregða sér þeirra erinda á bak við kirkju á björtum degi eða nóttu.

En hvað um það, þurfum við nokkuð að fjalla um smá hundaskít eða væntanlegan hundaskít hér og þar þegar sjálfur þjóðargrafteiturinn er orðinn eins og stór útikamar? Það verður skítaverk fyrir þá sem þurfa að þrífa þetta og þeir eru ekki öfundsverðir.

þingvellir

Kannski meinfýsið að hugsa svona en mér er eiginlegt svolítið skemmt yfir þessu. Hundaskítur er bara smámál miðað við þetta stóra vandamál.