Reglur um umgengni í kirkjugörðum

Reglur um umgengni í kirkjugörðum Reykjavíkurprófastsdæma nr. 810/2000.
1. gr.Reglur þessar taka til umgengni í öllum kirkjugörðum Reykjavíkurprófastsdæma. Kirkjugarðarnir eru friðhelgir. Í kirkjugörðum er sérhver hávaði eða ys bannaður. Öllum er frjáls för um kirkjugarðana með þeim takmörkunum sem af þessum reglum leiðir.
2. gr.Börn yngri en 12 ára mega eigi hafast þar við, nema í fylgd með fullorðnum, sem þá bera ábyrgð á hegðun þeirra.
3. gr.Í kirkjugörðum er bannað að fara um með hesta, hunda eða önnur dýr.

Í greininni  “Hundum haldið frá hinstu kveðju” kemur fram að aðstandendum var neitað um undanþágu frá 3. grein frá Reglum um umgengni í kirkjugörðum. Í þessari 3. grein kemur fram að hestar séu líka bannaðir en allir vita að það hafa verið hestar sem standa heiðursvörð við greftrun. Af hverju er hægt að gera undanþágu fyrir hesta en ekki hunda? Eru hestar virðulegri? Heilagri? Hegða þeir sér betur? Er ekki líka til fólk sem er hrætt við hross og með ofnæmi. Ég bara skil þetta alls ekki. Er ekki besta mál að fólk gangi um kirkjugarðana með hund í bandi? Er verið að rjúfa einhverja ímyndaða friðhelgi með því að ganga með hundinn sinn sér við hlið.

Í annari grein kemur fram að Jón Gnarr gengur oft með hundinn sinn í Hólavallakirkjugarði. Vonandi að garðurinn sé jafn friðhelgur sem áður. Þeir sem koma í þann garð sjá oft útigangsfólk hafast þar við og líklega er ekkert við því að gera. En þar mætir maður oft fólki þar sem fær mann til að hugsa “af hverju er schaffer hundurinn minn heima”. Hólavallakirkjugarðurinn er einfaldlega þannig staður að maður vill gjarnan hafa hundinn sinn með í för.

Í kirkjugarðinn á Garðaholti, Garðabæ má hafa með sér dýr. Nýtt skilti var sett upp fyrir einhverjum árum síðan. Á gamla skiltinu var merki sem bannaði hunda í garðinum. Nú stendur einfaldlega “öll lausaganga dýra stranglega bönnuð” sem er sjálfsagt og sanngjarnt. Fyrir vikið kem ég oftar í garðinn nú en áður. Það passar mér að fara með hundinn í hjólatúr eða göngutúr út á Garðaholt og koma við í kirkjugarðinum og stoppa við leiði mikillar hundakonu.

Eru þessar reglur ekki alveg óþarfar? Er ekki tími til komin að breyta? Vonandi getur HRFÍ nefndin sem hefur samskipti við opinber yfirvöld haft þau áhrif að þessi 3ja regla verði felld niður.

 

Þórhildur Bjartmarz