Hunda-Alzheimer

Fréttablaðið:

„Þetta er að verða sífellt algengara því hundar lifa mun lengur en áður. Við verðum meira vör við þetta enda er þetta sjúkdómur sem kemur frekar fram á efri árum,“ segir Hanna Arnórsdóttir dýralæknir. Sá hluti dýralækninga sem er hvað ört vaxandi miðar að því að vinna bug á öldrunarsjúkdómum gæludýra. Einn þessara sjúkdóma, sem hefur verið nefndur hunda-Alzheimer greinist nú æ oftar vegna lengri lífaldurs hunda.

Eins og hjá mannfólki hefur sjúkdómurinn í för með sér minnisglöp. Einkenni sjúkdómsins eru þau að hundurinn virðist ekki kannast við sig, til dæmis heima hjá sér, hann vakir og vælir á næturnar en sefur á daginn og fer að missa saur og þvag innandyra. „Við greinum hundana með útilokunargreiningu. Heilinn fer að hrörna, boðefni breytast og blóðflæði minnkar jafnvel til heilans,“ segir Hanna. En það er ekki ósvipað því sem gerist þegar menn fá Alzheimer-sjúkdóminn.

Á síðustu árum hafa dýralæknar byrjað að gefa hundum með elliglöp Alzheimer-lyfið selegiline en það er almennt notað til að bregðast við Alzheimer í mönnum. Samkvæmt rannsóknum hefur lyfið virkað mjög vel.Hanna segir mikilvægt fyrir hunda sem glíma við sjúkdóminn að þeir fái góða hreyfingu og örvun. Mikilvægt sé að fæðan sé rétt, þannig að þeir fái allt sem til þarf, svo að þeir viðhaldi góðri blóðrás og heilastarfsemin líði engan skort.

Ekki liggur fyrir hvort Alzheimer-sjúkdómurinn finnist frekar hjá einhverjum sérstökum hundategundum en öðrum. „Miðað við hvað það eru til margar tegundir hunda og hversu breytilegir þeir eru í stærð og vinnu þá er ekki ólíklegt að þetta liggi frekar í ákveðnum línum,“ segir Hanna.

Hanna segir að sjúkdómurinn sé ekki greindur í einni heimsókn heldur að um framsækin einkenni sé að ræða sem aukast á meðan hundinum versnar. Hún telur að sjúkdómurinn láti bera á sér fyrst við tólf til þrettán ára hundum. – þh

http://vefblod.visir.is/index.php?s=10370&p=221311