Íslenskt samfélag er mun gæludýravænna en áður

Sunna Karen Sigurþórsdóttir – Birt á VISIR.IS  

 

Íslenskt samfélag er mun gæludýravænna en áður en á þó enn töluvert í land. Íslendingar sýna sífellt meiri skilning á því hvaða hlutverki dýrin gegna í lífi manna en mikilvægt er að halda umræðunni áfram.

Þetta sagði Hallgerður Hauksdóttir, formaður Dýraverndarsamtaka Íslands, í samtali við Reykjavík síðdegis í dag, í ljósi frétta um hundinn Emblu sem fékk ekki að fylgja eiganda sínum til grafar í fyrradag.

„Við vorum ákaflega gæludýrafjandsamlegt samfélag. Hér áður var bannað að halda hunda og fólk var að stelast til þess og því voru það lögbrjótar sem héldu hunda. En margt hefur breyst en samfélagið hefur ekki farið jafn duglega í það og fólkið í samfélaginu. Það eru reglugerðir og viðmið sem við höfum sett sem eru miklu strangari en veruleikinn er í dag,“ sagði Hallgerður og bætti við að ríkisvaldið þurfi að endurskoða reglur er snúa að dýrahaldi.

Vítahringur gæludýraeigenda
Hallgerður sagði hunda á Íslandi illa umhverfisvanda vegna þessara reglna. „Þeir eru minna siðmenntaðir, þeir kunna sig minna og þetta er vítahringur vegna þess að ef hundar mega hvergi far þá læra þeir heldur ekki að umgangast ýmsar aðstæður, þannig að við erum svolítið á því stigi líka,“ sagði hún. Því þurfi heilbrigða skynsemi í þessum reglugerðum og að líta ætti til annarra þjóða.

„Þetta fer skánandi en það er furðulegt hvað við erum aftarlega. Sérstaklega fyrir þá sem hafa búið utan og þekkja þetta þar sem þetta er eðlilegra.“