Guðbjörg Guðmundsdóttir svarar spurningum Hundalífspóstsins:
Hvað heitir hundurinn þinn/hundarnir þínir/teg og aldur?
Ég á í dag fjóra hunda, sá elsti er Golden Retriever sem heitir ISShCh Ísgull Askur “Askur” og verður 12 ára í sumar, síðan á ég Svarthöfða Javier Frosta “Frosti” sem verður 8 ára í desember og er hvítur Dverg Schnauzer. Virgill eða Great North Golden Arcticwolf sem er líka Golden Retriever verður 6 ára á árinu og loks er Svarthöfða Jon Bon Jovi “Nóri” 2.ára hvítur Dverg Schnauzer. Ég ásamt vini mínum er síðan búin að festa mér hvolp í Hollandi af tegundinni Bracco Italiano, hvolpaskottið kemur frá virtri ræktun á tegundinni sem hefur lagt mikla áherslu á bæði vinnueiginleika tegundarinnar og að útlitið sé rétt samkvæmt staðli. Hvolpurinn heitir í ættbók Guzzi da Dama di Ala D’Oro og kemur til landsins í september.
Af hverju valdir þú þetta kyn?
Upprunanlega valdi ég Golden þar sem ég hafði átt óættbókarfærðan Golden áður. Þetta kyn er yfirleitt afskaplega þægilegt sem gæludýr og hlýðið. Askur hins vegar átti eftir að sanna að hver einstaklingur er sérstakur og jafnvel þótt hann sé afskaplega þægilegur heima fyrir, skapgóður og blíður þá fer hann alveg sínar leiðir þegar kemur að hlýðni. Askur er í raun ástæða þess að ég endanlega fór”í hundana”. Ég skráði okkur á hvolpanámskeið hjá HRFÍ og lenti þar í góðum höndum Alberts Steingrímssonar hundaþjálfara, ég komst síðan fljótlega að því að það var ekki nóg fyrir mig og Ask. Hann er afskaplega þrjóskur og sjálfstæður og ég þurfti klárlega á meiri hjálp að halda. Þegar Askur var rúmlega eins árs var alveg ljóst að ég þurfti aðstoð til að geta hreinlega átt Ask og ég leitaði þá aftur til Alberts sem hafði þá stofnað hundaskólann Hundalíf í samvinnu við Þórhildi Bjartmarz.
Fyrstu ár okkar Asks saman var ég áskrifandi að öllum þeim námskeiðum sem okkur stóðu til boða, við fórum á ótal hlýðninámskeið hjá erlendum hundaþjálfurum sem Hundalíf stóð fyrir, við fórum á sporanámskeið og veiðinámskeið. Við meira að segja reyndum fyrir okkur á sleðahundanámskeiði en alltaf var í huganum að efla tengslin milli okkar Asks.
Við Askur tókum líka þátt í hlýðniprófum og sporaprófum með ekkert alltof góðum árangri en við skemmtum okkur alltaf vel. Í dag erum við Askur bara vinir og höfum það notalegt saman. En á einhverju þessarra námskeiða var með okkur dvergschnauzer, og ég dáðist endalaust að því hvað hann var húsbóndahollur og þæginlegur og því varð Frosti mitt næsta val á hundi. Við Frosti höfum brallað ýmislegt saman, hann varð t.d. fyrsti dvergschnauzer til að klára sporapróf með fyrstu einkunn.
Mig langaði samt alltaf í Golden sem ég gæti unnið með og því þegar Virgill stóð mér til boða fékk ég hann. Hann er mun meðfærilegri hundur en Askur, og hann er í dag notaður í Vinum Vigdísar (lesið fyrir hund) og virkar mjög vel þar. Við æfum hlýðni og spor og ég komst að því síðasta sumar að hann hefur mjög gaman að hundafimi og ég mun taka þátt í því með hann fljótlega.
Nóri er svo síðasta viðbótin, hann er algjör grallari sem er kvikur og hraður og við erum smám saman að ná að vinna saman bæði í hlýðni og spori. Ég hlakka svo til að fá Braccoinn í haust því fyrir tveimur arum fékk ég skotvopnaleyfi og uppgötvaði hversu gaman er að veiða með hundi. Ég mun þjálfa hann í hlýðni og spori og síðan að sjálfsögðu á fjalli við veiðar.
Hersu lengi hefur þú átt hund/hunda?
Faðir minn eignaðist Labrador/Golden Retriever blöndu þegar ég var 13 ára, sem var notaður við veiðar. Hann var að sjálfsögðu heimilishundur líka, þannig að ég eiginlega ólst upp með hundi frá 13 ára aldri. Ég eignaðist minn fyrsta hund sjálf 1992 og hefur heimilið aldrei verið hundlaust síðan.
Hvernig lýsir þú samskiptum þínum/fjölskyldunnar og hundsins?
Allir hundar heimilisins hafa verið og eru hluti af fjölskyldunni. Fjölskylda mín eru öll hundafólk og það er hreinlega krafa frá þeim þegar haldin eru fjölskylduboð að ég mæti alla vega með einn eða fleiri hunda til að hægt sé að knúsa.
Er lífið betra með hundum?
Klárlega, og mínar bestu stundir eru þegar ég mæti með Virgil eða Frosta til að leyfa börnum að lesa fyrir þá en þeir hafa báðir verið í því verkefni. Mér finnast það forréttindi að geta leyft öðrum að njóta minna hunda og að þeir geri öðrum gagn.