Hundurinn minn

Auður Sif Sigurgeirsdóttir svarar spurningum Hundalífspóstsins:

Hvað heitir hundurinn þinn/hundarnir þínir/tegund og aldur?

Hundarnir mínir eru fjórir talsins, tvær tíkur af tegundinni afghan hound og tveir schäfer-rakkar. Það er skemmtilegt að segja frá því að tíkurnar eru mæðgur og rakkarnir feðgar! Þær heita Chelsea og Díva en þeir heita Xen og Ian. Chelsea er 11 ára, Díva 8 ára, Xen 9 ára og Ian 4 ára.

Ég verð líka að minnast á hunda foreldra minna, sem mér finnst ég alltaf eiga í, en þau eiga og rækta tíbet spaniel-hunda.

406223_10151444136140912_1743085302_n

Af hverju valdir þú þetta kyn?

Árið 2004 fór ég til Finnlands ásamt vinkonu minni að vinna fyrir ræktanda sem ræktar afghan hound og poodle. Ég hafði alltaf verið mjög hrifin af afghaninum en átti eftir að kynnast honum almennilega. Frá fyrsta degi í Finnlandi var ég gjörsamlega kolfallin fyrir tegundinni og ákvað að ég skyldi flytja inn tík við fyrsta tækifæri. Árið 2005 fæddist svo Chelsea mín og kom til Íslands sumarið 2005 en hún er fyrsta afghan-tíkin á Íslandi. Afghan hound er mjög sérstök og skemmtileg tegund. Þeir eru mjög sjálfstæðir og fólk sem á ketti hefur oft líkt lundarfari þeirra við ketti. Einnig hefur tegundin gríðarlega öflugt veiðieðli og er fátt skemmtilegra en að fara með þær í beituhlaup. Tíkurnar mínar eru yndislegar á allan hátt og sérstaklega ljúfar og barngóðar.

Ég kynntist schäfer þegar ég kynntist manninum mínum en hann átti yndislegan schäfer-rakka, sem kallaður var Fowler, þegar við byrjuðum að vera saman. Mér hafði alltaf fundist schäfer virkilega fallegur hundur en hafði ekki hugsað mér að eiga slíkan hund. Það breyttist allt þegar ég kynntist Fowler og eftir það varð ekki aftur snúið. Í dag er ég forfallinn aðdáandi tegundarinnar en þess má geta að hún er ein þeirra tegunda sem ég er að læra á í sýningadómaranáminu mínu. Ég hef gríðarlega mikinn áhuga á hvers konar vinnu með hundum og finnst virkilega skemmtilegt að þjálfa schäferinn.

Hversu lengi hefur þú átt hund/hunda?

Ég var svo heppin að fá að alast upp með hundum en fyrsta hundinn fékk fjölskyldan þegar ég var 5 ára en það var labrador retriever-tíkin, Sara Klara. Sara Klara var einstök á allan hátt og hef ég aldrei hitt hund sem líkist henni á nokkurn hátt enda grínuðumst við stundum með að hún væri eins og manneskja í hegðun. Stuttu eftir að við fengum Söru Klöru fengum við aðra labrador-tík sem bar nafnið Lilja Rós. Nokkru seinna fluttum við inn tík af tegundinni tíbet spaniel sem hét Fjóla og í gegnum árin hafa svo bæst við nokkrir labradorar og tíbet spaniel-hundar við flóruna á heimili foreldra minna.

auður sif 2

 

Hvernig lýsir þú samskiptum þínum/fjölskyldunnar og hundsins?

Samskipti okkar við hundana eru mjög góð og byggjast á gagnkvæmu trausti. Okkur finnst fátt skemmtilegra en að hreyfa hundana og vinna með þá. Ég hef alltaf reynt að umhverfisþjálfa hundana mína eins vel og mögulegt er svo þeir séu öllu og öllum vanir. Okkur finnst mjög gaman að ferðast og höfum lagt ríka áherslu á að hundarnir geti verið hjá öðrum en okkur og það hefur gengið mjög vel. Við gætum þess að hafa það alltaf í huga að hundarnir eigi að venjast okkar lífsstíl en ekki öfugt og þar af leiðandi er þeirra líf vanalega í takt við okkar. Með þessu þá meina ég að göngutúrarnir eru ekki alltaf á sama tíma, þeir vakna ekki alltaf á sama tíma og svo framvegis. Þetta hefur gefist mjög vel og það er yndislegt að lifa lífinu með þessum tryggu fjórfætlingum.

Er lífið betra með hundum?

Já, ekki spurning! Nánast allt mitt líf utan vinnu snýst um hunda og eitthvað tengt þeim. Flestir af mínum bestu vinum eiga hunda og það er fátt skemmtilegra en að hittast í góðra vina hópi með hundana eða bara til að ræða hunda! Ég hef mikinn áhuga á hreyfingu og hreyfi mig mikið og finnst mjög skrýtin tilhugsun að fara í göngu- eða hjólatúr án þess að vera með hund með mér!

Það hefur sýnt sig og sannað að hundar auðga líf okkar mannanna og má í þessu samhengi nefna þjónustuhunda, verkefni Rauða krossins, börn sem lesa fyrir hunda og svo mætti lengi telja. Það er einlæg ósk mín að hundar verði leyfðir alls staðar í framtíðinni hér á Íslandi líkt og tíðkast í öllum nágrannalöndum okkar.

auður sif 1       auður sif 4