Hundurinn minn

Damian Davíð Krawczuk svarar spurningum Hundalífspóstsins:

Hvað heitir hundurinn þinn/hundarnir þínir/teg og aldur?

Af hverju valdir þú þetta kyn?

Hersu lengi hefur þú átt hund/hunda?

Hvernig lýsir þú samskiptum þínum/fjölskyldunnar og hundsins?

Er lífið betra með hundum?

 

Ég hef alltaf átt hund en fyrsta hundinn minn keypti ég þegar ég var 14 ára. Hundarnir mínir eru alltaf hluti af fjölskyldunni því lífið er betra með hundum. Miklu betra! Við erum dýravinir. Nú á ég Amy – Blossom Queen Forussi, papillon, átta mánaða. Ég hef haft mikinn áhuga á þessari tegund, alveg frá því ég var krakki.

Amy er fædd 16. júlí 2015. Hún er undan rosa flottum foreldrum sem hafa gert tegundina mjög stolta. Hún er með mjög ”spes”grímu, finnst mörgum, en mér finnst gríman hennar flott og ég valdi hana þess vegna. Ég valdi Amy þegar hún var að verða þriggja mánaða gömul og hef fengið að fylgjast  vel með henni, ræktandinn er hrikalega skemmtileg, ábyrg og góð kona sem hún veit hvað hún er að gera.

Ég fór út til Póllands 29. febrúar í vetur að sækja Amy. Amy og ræktandinn lentu í smá óhappi á leiðinni til mín Það var mikil rigning þennan dag og þegar þær voru hálfnaðar á leiðinni í Gdansk, þar sem ég var staddur, bilaði rúðuþurrkumótorinn í bílnum hennar. Bílinn varð að komast á verkstæði og var hann dreginn inn í borgina, eitthvað um 130km. Við áttum að hittast upp á hóteli um hádegi, en þær komu ekki fyrr en um 17:00. Amy var hress þegar hún kom út úr búrinu og var ánægð að þetta ferðalag var loksins búið.

Næsta dag, miðvikudaginn 1. mars, áttum við flug heim, við flugum frá Póllandi til Kaupmannahafnar, þar skilaði ég Amy frá mér í búrinu sínu því Icelandair leyfir ekki hunda í farþegarými. Þegar við lentum á Íslandi fór ég upp í Cargohúsið til að skila inn tollskýrslu og forvitnast um það hvernig Amy hefði það. Ég fékk þau svör að hún hefði það gott og væri hress, og að dýralæknir myndi skoða hana eftir nokkrar stundir.

Ég fór þá heim, og seinna um kvöldið fékk ég hringingu frá Jóni í Einangrunarstöðinni. Amy var komin til þeirra og væri hress og kát og að allir pappírar í lagi. Sama kvöldið spjallaði ég við dóttur hans, Önnu, sem staðfesti það að allt væri í lagi með Amy. Hún borðaði og pissaði og væri hin ánægðasta. Næsta dag, á fimmtudeginum, talaði ég aftur við Önnu það var sama sagan, Amy var hress og kát, hafði matarlyst og nagaði bein.

Á föstudagsmorgni fæ ég skilaboð frá Önnu, þar sem hún spyr mig ”Hvað kom fyrir löppina hennar úti?” Ég varð mjög hissa og kannaðist ekki við neitt. Anna sagði þau hafa fengið hringingu, þar sem sá sem hringdi kynnti sig ekki en lét vita að það var eitthvað að löpp á einum hundi sem væri hjá þeim, en þetta væri líklega einhver misskilningur. Ég var á næturvakt þessa nótt og fór að sofa um morguninn með þann skilning á málinu að þetta væri misskilningur.

Þegar ég vaknaði seinna um daginn, sá ég að ég var með missed call bæði frá MAST og frá Einangrunarstöðinni. Ég hringdi strax til baka og fékk að vita að það væri grunur um að Amy væri fótbrotin, líklega gamalt brot sem hefði tekið sig upp aftur. Ég hringdi í Konráð Konráðsson hjá MAST til þess að fá að vita meira en það vissi enginn neitt því að það var ekki búið að mynda tíkina. Það var ákveðið að setja Amy í ”spelku” eða bara umbúðir. Ég hringdi sama kvöldið í  Björgvin dýralækni Einangrunarstöðvarinnar og krafðist þess að tíkin yrði mynduð sem fyrst. Hann neitaði og sagði að hann væri ekki með tæki til að mynda hana núna og við yrðum að bíða fram á þriðjudag, miðvikudag því þá væri hann búinn að fá nýju flottu græjurnar sínar.

Samkvæmt Jóni var Björgvin látinn vita af þvi að tíkin haltraði samdægurs og hún hafi komið til þeirra, MAST var látið vita á fimmtudeginum en ég, eigandi tíkarinnar var ekki látinn vita fyrr en á föstudeginum. Að Jón hafi látið Björgvin dýralækni vita að Amy haltraði strax á miðvikudeginum þegar tíkin kom til þerra passar reyndar alls ekki við það sem ég heyrði bæði frá Jóni og Önnu. En Jón hringdi á miðvikudagskvöldið og þá var allt í lagi með Amy. Og ég talaði við Önnu á fimmtudeginum og var sagt að allt væri í lagi með tíkina.

Helgin leið án þess að nokkuð væri gert. Á mánudagsmorgni ákvað ég að tala við dýralækni sem ég treysti og hringdi í Kötlu á Dýralæknastofu Reykjavikur. Hún var ekki ánægð að heyra um þessi vinnubrögð. Katla hringdi í Tim sem vinnur hjá MAST. Eftir það það, gerðist ”kraftaverk” því þegar leið að deginum, var Björgvin allt í einu á leiðinni með græjurnar í Einangrunarstöðina. Þá, loksins, voru teknar röntgenmyndir af löppinni á Amy.

Á þriðjudagsmorgun fékk ég hringingu frá Konráð þar sem hann segir mér að Amy sé tvíbrotin og að tvennt sé í boði. Að senda hana úr landi í aðgerð eða að ég gæti haft samband við einhvern sérfræðing í sambandi við svona brot og kanna hvort það sé í lagi að tíkin sé brotin í spelku uppi Einangrunarstöðinni þar til hún myndi losna eftir 28 daga. Ég sagðist ætla hugsa málið og láta hann vita.

Ég vissi ekki hvað ég átti að gera, þannig að ég ákvað að fara til vinkonu minnar, Brynju Tomer. Heima hjá henni ræðum við málin, höfum samband við Herdísi Hallmarsdóttur, formann HRFÍ. Við hringdum einnig í Hallgerði Hauksdóttur formann Dýraverndarsambands Íslands. Allar þessar konur hjálpuð mér mikið og ég er þeim mjög þakklátur. Ef þessar þrjár yndislegu konur hefði ekki verið, þá væri Amy kannski farin aftur úr eða væri þá núna nýbúin í aðgerð.

Um hádegisbil hringdi Konráð í mig og bað mig um að koma á fund með sér. Ég bað Hallgerði að koma með mér. Á fundinum fóru fram hörð skoðanaskipti sem enduðu þannig að haft var samband við Katrínu Harðardóttur dýralækni á Dýraspítalanum í Víðidal til þess að gera aðgerðina á Amy og var hún boðuð á fund hjá MAST. Þar var henni sagt að hún yrði að taka eins lítið af verkfærum með sér og mögulegt væri og skilja síðan megnið af þeim eftir á Einangrunarstöðinni.

Ég fékk að vita að þetta yrði mjög kostnaðarsöm aðgerð allt að 250-300 þúsund. Ég samþykkti það, þótt að ég hefði ekki efni á því. Það var ákveðið þá að aðgerðin yrði gerð næsta dag en þá var Amy litla búin að vera fótbrotin í viku. Ég bjó til söfnunarreikning á Facebook fyrir aðgerðinni á Amy og þar söfnuðust 230 þúsund krónur. Ég veit ekki hvernig ég get þakkað alla þessa hjálp – bæði andlegan og fjárhagslegan stuðning.

Eftir að aðgerðinni lauk, fékk ég símtal frá Katrínu dýralækni og fékk að vita að aðgerðin hefði heppnast. Hún hefði verið erfið þar sem beinin í svona litlum hundi eru rosalega smá. Það hefði verið erfitt að skrúfa í beinin þar sem þau molnuðu í sundur. En þegar Amy vaknaði leið henni bara vel og það skipti mestu máli. Eftir aðgerðina og þar til ég gat sótt Amy var Jón duglegur að láta mig vita hvernig henni leið.

Loksins kom 30. mars dagurinn þegar ég fékk Amy afhenta. Jón kom með hana upp á Dýraspítalann í Víðidal því það þurfti að skipta um spelku á Amy og taka röntgenmynd. Brotið var vel gróið og allt leit vel út.

Í dag hleypur Amy um, leikur sér, fer með mér í heimsóknir og er rosalega ánægð með lífið.

Eftir rúmar tveir vikur verður spelkan tekin endanlega af henni og þá munum við vinna í því að fá löppina í gott form aftur.

  1. 12931058_10154854741344896_1365216372586748367_n        12494699_10154822523674896_7624140901189016806_n