Er hægt að lækna sig af ofsahræðslu við hunda?

Jórunn Sörensen skrifar:

Á langri ævi hef ég lengstum verið í sambýli við hunda og það hefur ekki farið hjá því að ég hef hitt fólk sem heldur því fram að það sé hrætt við hunda. Ástæðurnar eru af ýmsum toga. Amma eins var bitin af hundi. Langamma annars var með sull. Hundur glefsaði í þann þriðja þegar hann var barn og svo framvegis. Stundum er engin ástæða gefin upp. Viðkomandi er bara ofsalega hræddur við hunda.

Eitt þessara atvika líður mér aldrei úr minni þótt hátt í hálf öld sé liðin. Fjölskyldan var búin að bæta við fjölskyldumeðlim. Það var Snati íslenskur fjárhundur sem var á fyrsta ári þegar þessi saga gerist – ljúfur og kátur hvolpur. Þetta var á þeim árum þegar flestar giftar konur unnu ekki úti en dunduðu sér gjarnan við að heimsækja hver aðra og þennan dag átti ég von á góðri skólasystur minni með litlu telpuna sína. Þegar hún gekk inn í stofuna með barnið í fanginu kom Snati skondrandi til þess að heilsa. Það er bara til ein lýsing á viðbrögðum minnar góðu vinkonu – hún trylltist og munaði engu að hún henti barninu sínu frá sér.

Síðdegið leið síðan við kaffidrykkju og notalegt spjall þar sem vinkona mín var króuð af uppi í sófa og með djúpum stólum og sófaborði.

Stuttu síðar flutti vinkona mín með fjölskyldu sinni til Þýsklands og við skrifuðumst á. Ég trúði vart mínum eigin augum þegar ég las í nýju bréfi að nú væri þau búin að fá sér hund – íslenskan fjárhund. Hún gerði sér grein fyrir hve undrandi ég yrði og gaf skýringu sem var eitthvað á þessa leið: Ef ég hefði ætlað mér að vera hrædd við hunda í Þýskalandi hefði ég ekki getað gengið á gangstéttinni en orðið að sveifla mér á milli ljósastauranna.

Það er auðvitað alls ekki svo að það henti öllum sem hræðast hunda að fá sér hund til þess að losna við óttann. Sumt fólk kærir sig bara ekkert um að eiga hund. En hræðsla við hunda er læknanleg eins og hræðsla við köngulær, að fljúga í flugvél sem og aðrar fóbíur.

Ef þú sem lest þessar línur ert hrædd(ur) við hunda vil ég segja við þig að þú átt það ekki skilið. Við eigum öll skilið að kynnast hundi þessum góða vini og félaga mannsins.

Ef þú vilt gera athugasemd við þennan pistil sendu mér þá línu á netfangið vorverk@simnet.is