HUNDURINN MINN

Rósa Björk Halldórsdóttir svarar spurningum Hundalífspóstsins:

Hvað heitir hundurinn þinn/hundarnir þínir/teg og aldur?

Mascalzone Latíno / Síberían Husky / 14 ára

Af hverju valdir þú þetta kyn?

Vegna áhuga á útivisst, vetraríþóttum, Norðurslóðum og vegna þess að ég vildi innleiða sleðahundasport á Íslandi en ég var fyrsti ræktandinn á Íslandi sem flutti inn Síberían Husky hundategundina.

Hversu lengi hefur þú átt hund/hunda?

Í nánast samfleytt síðastliðin 25 ár

Hvernig lýsir þú samskiptum þínum/fjölskyldunnar og hundsins?

Ef ég á að rekja það á þessum langa tíma sem ég hef átt hunda yrði það langt mál en ég ætla að halda mig við tímabilið eftir að ég flutti inn fyrstu Síberían Husky hundana þá var ég og dóttir mín einar á heimilinu ásamt íslenskum karlhundi. Ætlaði aldrei að fá mér íslenskan hund enda hafði lengi unnið að því að flytja inn Síberían Husky og hefja ræktun á tegundinni Íslandi en ég lét tilleiðast að taka við hvolpi sem hafði lent hjá eiganda sem ræktandanum leyst ekki á eftir á að hyggja.

En vinkona mín hafði dregið mig austur fyrir fjall að kíkja á hvolpinn sem ég hefði aldrei átt að gera en auðvitað féll ég fyrir litla greyinu. Leit minni að rétta ræktandanum á Síberían Husky endaði með því að ég flutti fyrst inn tvær tíkur og síðan karlhund ári síðar en hann er eini hundurinn sem ég á eftir og er orðinn 14 ára.
Sambúðin hundanna gekk vel til þess að byrja með en eftir fyrsta lóðarí hjá tíkunum eftir að Latíno bættist í fjölskylduna var samkomulagið ekki gott milli karlhundanna.

Ástandið versnaði stöðugt þangað til að ég þurfti að stía þeim í sundur því íslenski hundurinn réðst á karlhundinn Latíno þó svo að sá fyrrnefndi væri miklu minni. Um tíma þá brá ég til þess ráðs að hafa þá í sitthvorum hluta heimilisins sem var náttúrulega ekki hægt til lengdar og endaði með því að ég varð að koma íslenska hundinum fyrir annarsstaðar sem var mér þungbært því ég tek ábyrgðinni á því að taka að sér hund alvarlega og finnst það mikil skuldbinding. Mæli ekki með að hafa tvo karlhunda á heimilinu enda var það aldrei planið. Ástæðan fyrir því að ég deili þessu hér er að ég við sýna að maður á að fylgja hjarta sínu og velja sér hund eftir lífstíl og búsetu sem ég gerði með Síberían Husky tegundina en ég átti ekki að láta hafa áhrif á mig og taka íslenska hundinn að mér.

Var mjög dugleg að hreyfa þá. Við dóttir mín fórum á gönguskíði og ég fjárfesti í tveimur hundasleðum. Flutti inn erlendan þjálfara og hélt námskeið í ski-kjöring og hvernig eigi að þjálfa hundana í að draga hundasleða. Við dóttir mín, foreldrar mínir og systir mín nutum samvista við hundanna og endalausrar útivistar með þeim þannig að hundarnir hafa alltaf verið stór hluti af okkar lífi.

Dóttir mín hefur alltaf átt hunda þó hún hafi flutt að heiman og þeir eru hluti af hennar lífstíl. Framan af lá áhugi hennar á hundasýningum og keppni en hún var tvisvar sinnum valinn besti ungi sýnandinn á Íslandi og við fórum á Cruft sýninguna í tvígang þar sem hún keppti fyrir Íslands hönd. Hún og fjölskyldan hennar eiga tvo hunda í dag af tegundinni Flat coated retriever og ég á bara hann Latíno eftir sem er bara hraustur miðað við aldur. Þar sem ég bý ein, vinn oft langan vinnudag og ferðast mikið þá hefur hann verið mikið hjá vinkonu okkar síðan að tíkurnar dóu. Hann hefur alltaf verið hluti af hópi 3-4 hunda og mér finnst ekki hægt að skilja hann eftir heima á meðan ég sæki vinnu. Vinkona mín sinnir honum vel og ég tek hann þegar ég hef tækifæri til.

Er lífið betra með hundum?

Það fer auðvitað eftir lífstíl og aðstæðum hverju sinni. Ég lét ósætti milli karlhundanna ganga allt of langt, aðallega vegna þrjósku í mér en hefði átt að finna annað heimili fyrir íslenska hundinn miklu fyrr. Lengst af naut ég þess að eiga hundanna en síðustu árin sem tíkurnar lifðu var þetta erfiðara, sérstaklega þegar ég flutti útá á landsbyggðina með hundana og bjó í dreifbýli með þá. Síberían Husky tegundin er vandmeðfarinn og þeir eiga ekki heima í sveit þó svo að margir íslendingar af gömlu kynslóðinni haldi því fram að allir hundar eigi bara heima í sveit. Allt of margir fá sér Síberían Husky af því þeir eru fallegir en gera sér enga grein fyrir því að þeir eru miklir vinnuhundar, þurfa hreyfingu og eru flokksdýr. Njóta samvista með fjölskyldu eins og allir hundar og það ætti að vera gagnkvæmt, öll árin sem hundurinn lifir.

Er eitthvað annað sem þú vilt koma á framfæri?

Að fá sér hund er mikil skuldbinding og því þarf að skoða vel hvort maður sé tilbúin að skuldbinda sig næstu 10 – 15 árin sem hundurinn verður hluti af fjölskyldunni.
Einnig þarf að hafa góða aðstöðu,úti sem inni og að mínu mati er nauðsynlegt að vera með góða lóð eða garð sem hægt er að hleypa hundinum út í.

Mikilvægt er að velja tegund eftir lífstíl og kenna börnum að það er ekki hægt að skipta um hund eins og sokka. Við þurfum að vera ábyrg og skapa sjálfum okkur og hundinum gott líf. Hundurinn á að veita okkur ánægju, auðga líf okkar með samveru, útivisst og hjálpa okkur að skapa rólega stemmningu og aflappað andrúmsloft þegar við njótum samveru heima fyrir en ekki verða til þess að auka á streitu og samviskubit.
Þegar hann Latíno minn er allur mun ég ekki fá mér annan hund allavega ekki á meðan ég vinn og ferðast eins mikið og ég geri.

Með von um betra samfélag með hundunum okkar

Rósa Björk Halldórsdóttirrosa og latino