Hundurinn minn

Jóhanna Harðardóttir, Kjalnesingagoði og blaðamaður svarar spurningum Hundalífspóstsins:

Hvað heitir hundurinn þinn/hundarnir þínir/teg og aldur?

Í dag er bara einn hundur á heimilinu, en það er hún Kirkjufells Urður, mín gamla og góða vinkona sem er fædd 2003. Hléseyjar Krummi sonur hennar býr á næsta bæ og er hér líka daglegur gestur, enda fæddur hér á torfunni og þetta er nánast hans annað heimili.

Venjulega hef ég verið með tvo hunda og jafnvel fleiri um skamman tíma, en okkar heittelskaða Hléseyjar Spá dó um jólin í fyrra alltof ung og er enn mjög sárt saknað.

Af hverju valdir þú þetta kyn?

Ég hef alltaf verið ástangin af íslenska fjárhundinum. Hann er mannelskur og skynsamur alltaf svo glaður og skemmtilegur og gefur margfalt til baka alla þá umhyggju og athygli sem hann fær. Hann bókstaflega talar við mann, er blíður og lagar sig fullkomlega að lífsstíl eigandans.

Það er aldrei neitt vandamál að hafa íslenska fjárhundinn með öðrum dýrum og hér hafa bæði verið kettir, hænur og ýmis smádýr með hundunum og aldrei verið vandamál með sambýlið. Hundarnir okkar hafa alltaf lifað í friði með öllum öðrum lífverum á staðnum þótt þeir hafi gaman af að stríða bæjarhröfnunum,- en það er líka gagnkvæmt og flokkast undir íþróttir.

Hersu lengi hefur þú átt hund/hunda?

Sjálf eignaðist ég minn eigin hund árið 1988 og mátti ekki seinna vera. Mér fannst ég ekki hafa tíma og aðstöðu fyrir hund áður en hann kom, en um leið og Lagsi var kominn inn í líf okkar fannst okkur tilvalið að fá fleiri, bæði honum og okkur til gamans. Það munar voða lítið um hund númer tvö svo fremi sem það eru ekki tík og ógeltur hundur,- það fyrirkomulag var erfið reynsla á stundum.  Síðan fyrsti hundurinn kom á heimilið er ég búin að eiga ansi marga íslenska fjárhunda, vera með fullt af hvolpum og “gestahundum”,- og stundum fundist ég hafa lifað í hundaþvögu.

Hvernig lýsir þú samskiptum þínum/fjölskyldunnar og hundsins?

Hundarnir mínir hafa alltaf verið fjölskyldumeðlimir, vinir, leikfélagar, ferðafélagar og oftar en ekki miðpunkturinn í hópnum.

Þeir hafa alltaf verið eins og “hinir krakkarnir” hjá okkur hjónunum. Það er kannski vegna þess að við höfum alltaf átt svo yndislega hunda þótt þeir hafi verið að mörgu leiti mjög ólíkir karakterar. En það er einmitt svoleiðis sem þetta á að vera, það væri ekkert gaman ef allir væru eins.

Er lífið betra með hundum?

Já, það er auðvitað engin spurning að mínu mati að lífið er betra með hundum. Það væri eiginlega nær að spyrja hvort sé eitthvert líf án hunds?

Reyndar veit ég að það er hægt að lifa hundlausu lífi og ef fólki finnst lífið ekki betra með hundunum sínum þá ætti það að sleppa því að eiga hund.

Fólk verður að gera sér grein fyrir að um leið og maður fær sér hund er maður bundinn eins og yfir börnunum sínum og jafnvel enn fastar. En í staðinn fær góður hundeigandi ómældar ánægjustundir.

Ég hef alltaf verið “hundakerling” og sé ekki eftir einni einustu mínútu sem ég hef eytt í umstang við hundana mína. Að vísu hef ég ekkert gaman af sýningarstússi og forðast það, en leikur og starf með hundunum er það sem hundalífið hér á bæ hefur alltaf snúist um.

Að eiga hund /hunda hefur gefið mér vissa lífsfyllingu sem aðeins aðrir hundaeigendur þekkja. Sá sem á hund upplifir allan tilfinningaskalann í samskiptum við hundinn sinn ekki síður en fólkið sem hann elskar.

Það er ekki alltaf leikur einn að gefa hluta af lífi sínu og þurfa jafnvel að upplifa vin sinn hverfa á eilífðarbrautina alltof fljótt, en það er partur af því að þroskast og að vera manneskja. Það er ekki bara hundaeigandinn sjálfur sem þroskast heldur einnig þeir sem hann umgengst og ekki hvað síst börn sem fá að alast upp með hundum (og öðrum gæludýrum). Það kennir þeim ekki bara að þekkja lífið heldur læra þau líka að þekkja sig sjálf og bera ábyrgð – það er ómetanleg lífreynsla sem enginn getur tekið frá þeim.

mæðgin J.H.

Hléseyjar Krummi, Hléseyjar Spá og Kirkjufells Urður nýkomin upp úr tjörninni í hitabylgju

Jóhanna Harðardóttir

Kjalnesingagoði og blaðamaður