Hundurinn minn

Drífa Gestsdóttir, leiðsöguhundaþjálfari svarar spurningum Hundalífspóstsins:

 

Hvað heitir hundurinn þinn/hundarnir þínir/teg og aldur?

Hundarnir mínir heita Casey 5 ára Hollenskur fjárhundur (Dutch Shepherd)  og Lenny 11 mánaða svartur Labrador.

1375200_10151911216231210_1541491498_n11053477_10153282638841210_77128096627471739_n

Af hverju valdir þú þetta kyn?

Hollenski fjárhundurinn heillaði mig mikið þegar ég var í námi í Svíþjóð, ég vann mikið með Hollenska, Belgíska og þýska fjárhunda hjá lögreglunni og var rosalega hrifin af þeim öllum og var ákveðin í að eignast einn sjálf einhvern daginn.

Þegar ég kynntist mömmu Caseyar var ég ákveðin í að fá mér Hollendara og þá undan þeirri tík. Ég beið í 4 ár eftir rétta hvolpinum og varð ekki fyrir vonbrigðum.

Canineforeuse Casey  er stór hundur í meðalstórum líkama  með mikinn vinnuvilja, mikið skap og gríðarlegan eigin vilja sem mikilvægt er að hemja og móta á meðan hundurinn er ungur.

Hollenski og Belgíski fjárhundurinn eru náskildar tegundir og eru með svipaða skapgerð, þeir krefjast þjálfunar frá unga aldri og þurfa aðhald alla ævi.

Casey er af sterkum vinnulínum, pabbi hennar IPOIII Spike starfaði sem lögregluhundur /óeirðahundur  í Þýskalandi og Belgíu. Spike var mikilsmetin ræktunarhundur, hann hefur einstaka skapgerð og hann var ekki skyldur neinum hundum á norðurlöndunum sem var mjög gott fyrir stofnin sem er mjög lítill, IPOIII, SB(IPO/BHP)CH, KORAD, LPI, SUCH, NUCH, SV-05, NV-07, NORDV-07 SvCh LP2 Havrevingens Maxa  mamma hennar Casey var að mínu mati gersamlega frábær tík og skilur eftir sig mjög flotta einstaklinga víðsvegar um heimin.

Vinsældir tegundarinnar hafa aukist mjög mikið á undanförnum árum og er hún að verða eftirsótt í keppni og er mjög vinsæl sem vinnuhundur innan hers og lögreglu.

Hollenski fjárhundurinn er hundur sem hentar mér vel og ég hef oft heyrt að við séum með svipaða skapgerð, ákveðnar, örar  og vitum hvað við viljum.

Casey er þjálfaður björgunarhundur hjá BHSI en er akkurat þessa stundina í fríi frá vinnu vegna anna hjá mér.

Labradorin virðist alltaf hafa fylgt mér, ég eignaðist minn fyrsta labba þegar ég var 13 ára og hef verið með labrador síðan. Ég hef ekki alltaf átt Labrador sjálf en þeir hafa  verið í þjálfun hjá mér undanfarin ár vegna leiðsöguhundaþjálfunar.

Vel ræktaður Labrador er gulls ígildi þeir eru magnaðir hundar með ljúfa skapgerð, samstarfsfúsir, öruggir í umhverfi og með vel þróaðan vinnuvilja.

Labbin er fjölhæf tegund sem passar í ótal verkefni það er bara mikilvægt að skoða vel hvernig einstakling maður vill og í hvaða vinnu hann á að fara þegar maður íhugar að fá sér Labrador.

 

Hersu lengi hefur þú átt hund/hunda?

Ég var 6 ára þegar ég eignaðist minn fyrsta hund, íslenskan fjárhund sem hét Trýna.

Trýna var alveg mögnuð  hún þvældist með mér hvert sem ég fór og ég hef ekki getað verið hundlaus síðan.

10376277_10152422845126210_5578358196153843002_n

Hvernig lýsir þú samskiptum þínum/fjölskyldunnar og hundsins?

Samskipti mín við hundana eru að ég held ósköp eðlileg, mér þykir svakalega vænt um hundana mína og geri allt til að þeim líði vel.

Mér finnst hundar einfaldlega bara frábærir og verð alltaf meira og meira heilluð af því hvað þeir eru einstakir félagar og ekki síst sem vinnufélagar.

Hundarnir okkar eru hluti af okkar fjölskyldu, þau þvælast með okkur um allt og fara með okkur þangað sem við förum, það á líka við um vinnuhundana þeir búa hjá okkur og eru hluti af okkar lífi á meðan þeir eru í þjálfun.

1239719_10151837452531210_663588897_n

Er lífið betra með hundum?

Ekki spurning, held að lífið væri tómlegt án hunda og mér finnst það forréttindi að fá þann heiður að vera hundeigandi.

 

 

Drífa Gestsdóttir

GDMI – Guide Dog Mobility Instructors

Leiðsöguhundaþjálfari  hjá Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.