Hundurinn minn

Viðar Eggertsson svarar spurningum Hundalífspóstsins:

Hvað heitir hundurinn þinn/hundarnir þínir/teg og aldur?

Af hverju valdir þú þetta kyn?

Hersu lengi hefur þú átt hund/hunda?

Hvernig lýsir þú samskiptum þínum/fjölskyldunnar og hundsins?

Er lífið betra með hundum?

Hundurinn minn heitir Drakúla og er orðinn 9 ára síðan í ágúst (hvað tíminn flýgur hratt!) Hann er oft kallaður Drakúla litli, en oftast Kúli… og stundum Kúli Cool!

Það má eiginlega segja að hann Drakúla litli hafið valið okkur frekar en við hann. Þannig var að þegar hann var ca 6 vikna úr þriggja hvolpa goti komu fósturforeldrar foreldra hans til okkar í matarboð. Venjulega kemur fólk með sér einhvern lítinn glaðning í slík boð. Þau komu með þennan agnarlitla hvolp og héldu á honum í lófanum, réttu hann fram og kynntu hann með þessum orðum: „Þetta er hann Drakúla litli”. Við horfðum í forundran á þennan litla, fallega og umkomulausa hvolp sem horfði á okkur með stórum brúnum og sakleysislegum augum . Auðvitað bræddi hann okkur.

Það hafði ekki staðið til að eignast hund. Raunar aldrei verið einu sinni rætt. En þarna lék sér á gólfinu þessi ómótstæðilegi hvolpur í matarboðinu og maður gat ekki annað en horft á hann hugfanginn.

Fósturmóðir hans, Sigrún Edda Björnsdóttir leikkona, vissi alveg hvað hún var að gera. Henni fannst alveg tilvalið að við tækjum að okkur þennan hund og hún notaði þessa stund til að kynna hann fyrir okkur og meira en það, hún var svo „útsmogin” að höfða til hégóma míns með því að kalla hann Drakúla. En ég hafði leikið þá persónu í tvígang á leiksviði, annars vegar á Akureyri og hins vegar í Dublin, og hún vissi að persónan væri mér kær.

Síðan gerðist það að við kolféllum fyrir Drakúla litla og tókum hann að okkur. Við höfum ekki séð eftir því eina sekúndu. Þvert á móti, hefur maður oft spurt sig: „Af hverju eignaðist ég ekki hund fyrr?!”.

2

Auðvitað gerðum við allskonar byrjendamistök við uppeldi hans, þó að ég haldi að hann hafi náð að leiðrétta þau flest. Það var okkur afar mikilvægt að lesa okkur vel til um eðli hans og hvernig væri best að ala hann upp svo hann yrði góður og hamingjusamur hundur. Og ég leyfi mér að segja að við höfum í sameiningu allir þrír, Drakúla, ég og maðurinn minn, Sveinn Kjartansson, tekist nokkuð vel upp þar. Eins var það algjört grundvallaratriði að fara á námskeið allir þrír.  Það verður aldrei of oft brýnt fyrir þeim sem eru að taka að sér hunda.

Drakúla er einkar ljúfur og skemmtilegur hundur. Hann er alveg laus við gelt og unir sér vel með öllum og er fljótur að vingast við fólk og aðra hunda.

Við settum hann stundum á hundaleikskólann Voffaborg þegar hann var ungur. Þar var hann fljótt settur í það hlutverk að vera með nýjum hundum sem þangað komu og voru hræddir og litlir í sér, því Drakúla var góður í að vingast við aðra hunda. Hann var eiginlega í fullu starfi þegar hann var á Voffaborg… og ég var stundum alvarlega að hugsa um að krefjast launa fyrir hann!

Sigrún Edda og maður hennar, Axel Hallkell, eiga foreldra Drakúla. Pabbi hans er hreinrætaður Yorkshire Terrier og mamma hans er hálfur Yorki og hálfur Silki Terrier. Drakúla hefur erft það besta frá foreldrum sínum og er fullkomin blanda. Við erum nýlega fluttir í nágrenni við þau svo það kemur nú fyrir að Drakúla litli hittir foreldra sína úti á gönguferðum. Það leikur enginn vafi á því að hann þekkir þau vel, þó hann hafi ekki séð þau árum saman.

Nú ganga Sigrún Edda og Axel Hallkell undir nöfnunum Amma Drakúla og Afi Drakúla heima hjá okkur. Þau láta sér það vel líka, því hver vill ekki vera kenndur við Drakúla litla?

drakúla og fiskurinnSvo er hér mynd sem ég tók af Drakúla með Mána gullfiski sem við pössuðum einu sinni fyrir nágranna okkar

 

viðar og drakúlaHér er mynd af okkur Drakúla þegar við vorum mættir fyrir sýningu á óperunni La Boheme, þar sem Drakúla fór með hlutverk…. kjölturakka!

 

Óperuhundurinn Drakúla!