Fréttaljós úr fortíð

Þórhildur Bjartmarz:

Þessa dagana er ég að taka saman heimildir um merkismanninn Mark Watson sem meðal annars gaf þjóðinni fyrsta dýraspítalann fyrir rúmum 40 árum síðan. Fréttin var skrifuð 1994 en húsið sem var sérsmíðað sem dýraspítali kom til landsins 1973. Það er sérstaklega þessi frábæra teikning eftir Halldór Pétursson sem mig langar til að sýna lesendum Hundalífspóstsins.

Morgunblaðið febrúar 1994

FRÉTTALJÓS ÚR FORTÍÐ

Það eru nú rétt rösklega tuttugu ár síðan, Íslandsvinurinn Mark Watson afhenti gjafabréf til þeirra aðila sem þá höfðu ákveðið að stofna með sér samtök um rekstur dýraspítala þess, sem Watson hafði þá gefið Íslendingum. Gjafabréfið hljóðaði uppá dýraspítalann, þ.e. húsið eins og það stóð á hafnarbakkanum í Reykjavík, ýmsan útbúnað, sem hann hafði útvegað til spítalans og svo útvegun á sérlærðri dýrahjúkrunarkonu, sem starfa átti við dýraspítalann í 1 ár. Það var borgarstjórinn Birgir Ísleifur Gunnarsson sem tók við gjafabréfinu úr hendi Watsons að viðstöddum þeim aðilum sem standa áttu að rekstri dýraspítalans.

Húsið sem Watson gaf var svo reist í Víðdal og ber enn hans nafn en starfsemin sem þar fer fram heitir Dýraspítalinn í Víðdal. Þar starfa nú fjórir dýralæknar, þar á meðal dýralæknir Gullbringu-og Kjósarsýslu, engin sérmenntuð dýrahjúkrunarkona vinnur þar en fjórir ófaglærðir starfsmenn hafa hlotið þar starfsþjálfun og starfa þar.

Það voru Reykjavíkurborg, Samtök sveitarfélaga á Reykjanesi, Hestamannafélagið Fákur, Dýraverndunarsambandið og Hundavinafélagið sem stofnuðu á sínum tíma sjálfseignarstofun sem reka átti dýraspítalann, að því er segir í frétt sem birtist í Morgunblaðinu þann 12.febrúar1974.

Þremur dögum síðar, þann15. febrúar 1974, birtist í Morgunblaðinu mynd sú sem hér birtist. Hana teiknaði Halldór Pétursson. Undir henni stóð: Dýravinir hér á landi þakka Mark Watson fjálgum orðum fyrir rausn hans dýraspítalann, sem hann ætlar að gefa okkur.

En ekki væri ólíklegt, að til hans streymdu líka hlýjar hugsanir og blíðlegt viðmót dýranna, ef þau vissu um framlag hans til heilbrigðismála þeirra. Teikningin sýnir, hvernig Halldór Pétursson hugsar sér viðbrögð þeirra.

Watson með dýrunum