Hundalíf hugsjónakonu

Þetta viðtal við Sigríði Pétursdóttur  var birt í Bændablaðinu 29. janúar 2008.  

Í upphafi ársins (2008) var Sigríður Pétursdóttir, bóndi á Ólafsvöllum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, sæmd hinni íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum fyrir störf sín að ræktun íslenska fjárhundsins. Þegar Sigríður hóf ræktun íslenska fjárhundsins á sjöunda áratug síðustu aldar var ræktunarstofninn mjög fátæklegur en með hugsjónastarfi sínu tókst henni ásamt örfáum öðrum ræktendum að bjarga kyninu.

„Þetta er mikil ánægja í raun og veru að fá þessa viðurkenningu fyrir það starf sem ég hef unnið. Þetta tók mörg ár og var ekki einfalt. Ég fékk eiginlega sjokk þegar mér var tilkynnt um orðuna, þetta var algjörlega óvænt og ég átti ekki von á neinu,“ segir Sigríður aðspurð um viðbrögð hennar við orðuveitingunni á Bessastöðum í byrjun árs.

Ævintýri í fyrstu

Það má segja að upphafið að ræktun Sigríðar á íslenska hundinum megi rekja aftur til ársins 1959 þegar hún og maður hennar, Kjartan Georgsson, fluttu úr Reykjavík og hófu búskap á Ólafsvöllum. „Þetta jaðraði við að vera ævintýri í fyrstu því það var álitið að ekki væri hægt að bjarga hundinum. Við vorum að litast um eftir jörð árið 1959 og þegar við heimsóttum bónda einn í Flóanum þá sá ég hund á hlaðinu sem var gamall og feitur og ég spurði hvaða hundategund þetta væri. Mér var sagt að þetta væri íslenskur fjárhundur og ég féll alveg fyrir þessum hundi. Mér var bent á að Páll Agnar Pálsson, yfirdýralæknir, gæti hjálpað mér,“ útskýrir Sigríður og segir jafnframt: „Maðurinn minn talaði við Pál Agnar en það liðu nokkur ár þar til ég fékk hundana. Árið 1965 fékk ég fyrstu hundana hjá Páli Agnari með því skilyrði að ég yrði að rækta. Það var búið að reyna áður að rækta en það tókst ekki að koma á skipulagðri ræktun. Ég hélt að ég fengi hund og tík en ég fékk hvolpana Kol og Snotru, gotsystkin, síðan fékk ég Kát frá Keldum og Tátu og einnig eina tík til viðbótar, hana Pílu. Ég var því komin með fimm hunda á stuttum tíma og varð að hefjast handa.“

Yfir 25 hundar þegar mest var

Sigríður ákvað að setja sig í samband við Bretann, aðalsmanninn og Íslandsvininn Mark Watson sem var mikill áhugamaður um land og þjóð og átti sinn þátt í því að íslenski hundurinn varð ekki aldauða.

„Mark hafði flutt út með sér nokkra hunda til Kaliforníu þar sem hann bjó á tímabili og hafði Pál Agnar aðstoðað hann við það. Þegar hann flutti seinna til Englands tók hann líka með sér lítinn ræktunarstofn. Ég hafði samband við Mark og hann tók mig upp á sína arma og hjálpaði mér að komast í samband við breska hundaræktarfélagið. Ég fór út á árunum 1965 og 1966 og félagsmenn þar hjálpuðu mér mikið að læra um ræktun á svona litlum stofni. Þeir höfðu nærri misst stofna eins og til dæmis írska úlfhundinn. Ég fékk þarna tvo íslenska hvolpa hjá Mark Watson, Brönu og Vask of Wensum en þar sem enginn innflutningur var þá leyfður á hundum veitti Páll Agnar undanþágu til þessa innflutnings með því skilyrði að ég setti þá í sóttkví í fjóra mánuði sem stofnuð var og kostuð af mér á Stór Reykjavíkursvæðinu. Þá gat ég hafist handa um skipulega ræktun íslenska fjárhundsins og nýtt mér þessa kunnáttu sem ég var búin að afla mér. Það er ekki einfalt að rækta þannig að vit sé í þegar hundarnir eru náskyldir. Þegar mest var voru hér yfir 25 hundar en þá var ég með starfsmann hjá mér,“ segir Sigríður og brosir að endurminningunni.

Sigríður stundar ekki ræktun á íslenska hundinum í dag, enda komin á aldur að eigin sögn en líklegt þykir henni að sonur hennar og tengdadóttir, sem búa á Ólafsvöllum, muni rækta íslenska hundinn áfram samhliða öðrum bústörfum.

Stofnun Hundaræktarfélags Íslands

Þegar Sigríður var í Englandi bentu ráðamenn í breska hundaræktarfélaginu henni á að rétt væri að stofna slíkt félag á Íslandi. Það myndi gefa tækifæri til að áhugasamir menn og konur gætu ræðst við og staðið saman um ræktun íslenska hundsins og ef til vill á fleiri hundategundum seinna.

„Þegar heim kom talaði ég um þetta við Pál Agnar Pálsson sem leist vel á hugmyndina. Nokkru seinna eftir að hafa náð sambandi við lítinn hóp áhugamanna um varðveislu menningararfs, eins og íslenski hundurinn er hluti af, kom hópur manna til okkar að Ólafsvöllum og þar var ákveðið að stofna félag sem svo fékk nafnið Hundaræktarfélag Íslands (HRFÍ). Eftir nokkra undirbúningsfundi var haldinn stofnfundur HRFÍ þann 4. september 1969 á Hótel Sögu í Reykjavík. Í fyrstu stjórn félagsins voru kosin Gunnlaugur Skúlason, dýralæknir, formaður, Jón Guðmundsson, Fjalli, gjaldkeri, Sigríður Pétursdóttir, ritari. Meðstjórnendur voru Ólafur Stefánsson og Magnús Þorleifsson.

Á fyrsta stjórnarfundinum 15.september og í fyrstu stjórnarsamþykktinni var undirbúin skráning á séreinkennum íslenska fjárhundsins. Fyrsta hundasýningin var svo haldin 25. ágúst árið 1973 í Eden í Hveragerði í ævintýralegu umhverfi blóma og kaffihúss. Dómari var Jean Lanning frá Englandi sem þurfti að fá undanþágu til að dæma á sýningunni þar sem sýningin var ekki alþjóðlega viðurkennd og gaf The Kennel Club í Bretlandi greiðlega leyfi til þess. Skráðir voru 60 hundar á sýninguna af ýmsum tegundum en þó flestir íslenskir fjárhundar, eða 23. Sýningin var mjög vel sótt og komust færri að en vildu og beið stór hópur utanhúss í von um að komast inn. Hennar var getið í annál ársins 1973 í íslenska sjónvarpinu,“ útskýrir Sigríður.

Næstu árin fóru í að skapa innra starf félagsins, kynna íslenska hundinn og félagið út á við, hér innanlands og einnig að komast í samband við hundaræktarfélög á hinum Norðurlöndunum.

„Árið 1979 óskaði félagið eftir inngöngu í FCI, alþjóðleg samtök hundafélaga, og vorum við boðuð á fund í Bern í Sviss um sumarið. Ég var þá formaður HRFÍ og sat fundinn þar sem HRFÍ fékk aukaaðild að FCI eins og venja var með ný félög. Þarna voru formenn allra Norðurlandafélaganna og stóðu þétt með HRFÍ. Formaður sænska hundaræktarfélagsins var þá formaður Norrænna samtaka hundaræktarfélaga (NKU) og kallaði hann saman fund hinna formanna Norðurlandafélaganna þarna á staðnum og var Íslandi boðin þáttaka í NKU og samþykkt samhljóða.

Ég kom því sæl og ánægð heim til Íslands með góðar fréttir að HRFÍ væri alþjóðlega samþykkt sem eina félagið á Íslandi sem hefði alþjóðlega viðurkennd ræktunarskírteini og er svo enn í dag,“ segir Sigríður glöð í bragði.

Nákvæm og úthugsuð ræktun

Sigríður segir ræktun á íslenska hundinum hérlendis og víðar vera á góðri leið því margir ræktendur séu fullkomlega meðvitaðir um ræktun.

Hún vonar að fólk rækti á sem breiðustum grundvelli. „Það sem mér fannst erfiðast var þegar ég þurfti að velja undaneldisdýrin og þurfti að láta lóga eða svæfa hluta því ekki var hægt að láta frá sér nema takmarkað af dýrum sem ekki voru ætluð til undaneldis. Þetta var engin „framleiðsla“, heldur nákvæm og ákaflega úthugsuð ræktun og því þurfti að velja og vera passasamur um hvað maður var að gera. Það var ekki endanlega hægt að velja undaneldisdýr fyrr en þau voru orðin ákveðið gömul og þegar hægt var að sjá eðli, skapferli, vöxt og feld. Það varð allt að koma heim og saman, eða svo nærri sem hægt var, við það sem ég var að leitast við að ná fram. Hundarnir urðu að vera orðnir upp undir sex mánaða þegar hægt var að meta þá og þá voru þeir orðnir hændir að manni.

Þetta var mikil vinna en það er alltaf mikil vinna að vera með dýr,” útskýrir Sigríður.

Nú á Sigríður einn íslenskan hund, sem tilheyrir tengdadóttur hennar og dvergschnauzer-hunda sem eru minni en þeir íslensku, en mjög skapgóðir eins og þeir. Þó að hún sé að mestu hætt að rækta sjálf er hún viðloðandi heim hundaræktenda þar sem hún er alþjóðlegur hundadómari í mörgum tegundum og er því eftirsóttur dómari hérlendis sem erlendis.

HRFI sýning 27.feb. 11 585

„Það sem mér finnst ánægjulegast við ræktunina mína á sínum tíma er að hún skyldi takast. Það sem ég harma pínulítið eftir að þeir urðu svona vinsælir er að þeir hafa fengið orð á sig fyrir að vera geltnir og hvimleiðir að ýmsu leyti en þeir voru það ekki og það er kúnstin að velja í ræktun. Það var enginn þeirra svoleiðis hjá okkur því þeir voru vinnusamir og geltu aðeins við vinnu og til að láta vita ef gestir komu en þá mjög í hófi.

Samt er ánægjulegt að segja frá að í dag finnur maður fleiri og fleiri fallega hunda með góða eiginleika og margir þeirra eru eins og þeir voru í gamla daga. Það er hægt að nota þá mjög vel til vinnu og fólk gerir sér meira og meira grein fyrir því.

Hér áður voru þeir notaðir til margs annars en vinnu, svo sem við smölun og rekstur á búfé, eins til að leita að og finna fólk og fé, til dæmis í snjóskriðum og þeir eru vel sporrekjandi, sem sagt upplagðir björgunarhundar,“ segir Sigríður og viðurkennir að hún sé stolt af því starfi sem hún hefur lagt til með ræktun íslenska fjárhundsins og þannig orðið leiðandi í byrjun í því starfi að koma í veg fyrir að íslenska fjárhundakynið myndi deyja út.

Ehg

ATH Þórhildur Bjartmarz: Þessi ágæta grein hér á Hundalífspóstinum er birt með góðfúslegu leyfi ritstjóra Bændablaðsins. Þó að greinin hafi verið birt fyrir tæpum 8 árum í Bændablaðinu á hún fullt erindi við okkur í dag og kemur í skemmtilegu framhaldi af greininni um Mark Watson. Ég vil taka það sérstaklega fram að greinin hafði sömu yfirskrift í Bændablaðinu þ.e.a.s. Hundalíf hugsjónakonu.

http://www.bondi.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=4130