Segja hunda skilja eigendur sína

visir.is:

Vísindamenn hafa fundið vísbendingar sem styðja það sem margir eigendur hunda kannast líklega við. Niðurstöður nýrrar rannsóknar benda til þess að hundar skilji í raun og og veru sumt af því sem sagt er við þá.

Ungverskir vísindamenn skönnuðu heila hunda á meðan hundarnir hlýddu á þjálfara sína tala til þess að ákvarða hvaða hluti heilans væri virkur á meðan.

Niðurstöðurnar, sem gefnar voru út í vísindatímaritinu Science, gefa til kynna að hundar vinni úr orðum með vinstra heilahvelinu en það hægra vinni úr hljómfalli orðanna líkt og hjá manninum.

Enn fremur benda niðurstöðurnar til þess að hundar meðtaki aðeins þegar þeim er hrósað ef bæði orðið sem notað er og hljómfallið er jákvætt. Merkingarlaus orð sögð á hvetjandi hátt höfðu ekki sömu áhrif.

„Heilar hunda skynja bæði það sem við segjum og hvernig við segjum það,“ sagði Attila Andics, taugavísindamaður við Lorand-háskólann í Budapest og einn af þeim sem stóð að rannsókninni. „Hrós virkar sem umbun aðeins þegar merking og hljómfall orðanna stemmir.“

Andics bætir því við að niðurstöðurnar bendi til þess að hæfileiki dýrategunda til þess að meðtaka tungumál hafi þróast mun fyrr en áður var talið. Það sem skilji mannkynið frá öðrum dýrategundum sé uppfinning orða.

„Getan til þess að meðtaka orð var áður talið einskorðast við mannkynið en nú höfum komist að því að við deilum þessum hæfileika með öðrum dýrum,“ sagði Andics sem bætir við að líklegt sé að önnur dýr hafi hæfileikann til þess að skilja menn en erfitt sé að rannsaka það vegna þess að fá dýr sýni tungumáli mannkynsins jafn mikinn áhuga og hundar.

visir.is / Tryggvi Páll Tryggvason