Jórunn Sörensen:
Trölli heitir köttur. Hann flutti inn hjá okkur fyrir tæpum 17 árum þá nokkurra vikna gamall. Frá fyrstu stundu hagaði hann sér eins og sönnum ketti sæmir – hann stjórnaði því sem hann vildi og við hjónin vorum hans auðmjúkir þjónar.
Ári seinna kom flækingkattarskinn inn á heimilið. Það var Púki. Trölli var ekki hrifinn og hefur alla tíð síðan notað hvert tækifæri til þess að segja Púka að hann sé óvelkominn. Hvert tækifæri í 16 ár.
Árin liðu og það hélt áfram að fjölga í fjölskyldunni. Það bættist við hvolpur og fleiri kettir. Trölli sýndi vanþóknun sína á þessari fjölgun en lét sig hafa það.
Svo var það sl. haust að enn nýr hvolpur kom á heimilið, Spói. Þá var þar aðeins einn hundur fyrir, Spesía og svo auðvitað kettirnir. En nú brá svo við að Trölla var algjörlega nóg boðið. Þetta var orðið ágætt. Bara Spesía eftir af hundum og hún orðin gömul sem og manneskjurnar sem hugsuðu um hann og hinum köttunum hafði hann fulla stjórn á. En er þá ekki fjögurra mánaða hvolpi bætt við fjölskylduna svo fullum lífsgleði og kátínu að það hálfa hefði verið nóg.
Trölli gat ekki stillt sig. Hann hvæsti ógurlega að hvolpinum og belgdi sig út og var svo ógnvekjandi að litli, saklausi hvolpurinn sem aldrei hafði kynnst grimmd af neinu tagi, skrækti eins og hnífurinn stæði í belgnum á honum og flúði í ofboði.
Þetta gekk svona í nokkur skipti. En þá tók Spesía til sinna ráða. Hún sem aldrei nokkru sinni hafði sýnt Trölla annað en þá virðingu sem hann krafðist, réðst að kettinum þegar hann enn einu sinni tók á móti hvolpinum með þessum ofstopa. Nú var komið nóg. Heimilisfriði skyldi ekki spillt frekar.
Þetta dugði. Friður hefur haldist. Spói tekur á sig krók fram hjá Trölla – eins og önnur dýr heimilisins – en fær að vera í friði.