Bókarkynning Hekla skilur hundamál

Bókarkynning

Hekla skilur hundamál

Jórunn Sörensen:

Tvær ungar konur, Hulda Jóns Tölgyes og Allie Doersch sem titla sig „mikla hundavini“ hafa nýlega sent frá sér bókina: „Hekla skilur hundamál“. Vaka-Helgafell gefur bókina út. Hún er rétt rúmar 30 blaðsíður og þannig uppbyggð að hver opna er mynd og textinn er ýmist í litlum kössum eða talbólum. Ekki er þess getið að höfundar hafi neina sérþekkingu á hundum og atferli þeirra.

Bókin segir frá lítilli stúlku, Heklu, sem fer út að ganga með stóra hundinn sinn, Huga. Þeim þykir báðum gaman að því en eins og segir í einu textaboxinu: „En þau eru samt ekki alltaf sammála um hvert eigi að fara.“ Í gönguferðinni hitta þau önnur börn og aðra hunda. Hekla bendir börnunum á ýmislegt sem betur má fara í samskiptum þeirra og framkomu við hunda. Það á ekki að skamma hunda; ekki að klæða þá í föt; ekki stríða þeim eða hrekkja þá; ekki trufla sofandi hund og það á ekki að skamma hvolp fyrir að pissa á gólfið. Allt satt og rétt en titill bókarinnar byggir upp væntingar sem standast ekki þegar bókin er skoðuð. Þegar ég heyrði fyrst af bókinni varð ég harla glöð og hlakkaði til að fá bók í hendur um táknmál hunda. Táknmál hundsins er margslungið og flókið og það væri sannarlega mikilvægt að kenna hinum almenna hundaeiganda sem og börnum hvernig við getum lært að skilja þessi tákn. Þessi litla bók gerir það ekki.

Bókin sendir hins vegar út þau skilaboð að það sé barna að hugsa um hund, viðra hund og vera ein úti á leikvelli með hund/hunda. Eina fullorðna fólkið sem kemur við sögu eru foreldrar Heklu litlu sem taka á móti henni og stóra hundinum þegar þau koma heim. Ég efast um að það sé tilgangur höfunda að halda því fram að það sé verkefni fyrir börn að ala upp hvolp og sjá um hund en það sýnir bókin engu að síður.

Aftan á bókarkápu er vitnað í Heiðrúnu Klöru hundaþjálfara sem fagnar bókinni og segir m.a.: „Bókin er góð leið til að opna umræðu foreldra við börnin um hvernig á að umgangast hunda.“ Ég tek undir þau orð að því tilskyldu að foreldrar viti þá sjálfir hvernig á að umgangast hunda.

 

14963344_920688561396466_1677875453440439188_n-1