Kolla Arna dýrahjúkrunarfræðingur svarar spurningum um sprungur í þófum

Eftir góða útiveru hundana mína um síðustu helgi tók ég eftir því að ungu tíkurnar voru með sprungur í þófum. Það var búið að vera mikið frost og hjarn yfir öllu.  En hvað er til ráða? Ég ákvað að leita til Kolbrúnar Örnu dýrahjúkrunarfræðings og Siberian husky ræktanda og biðja hana að gefa mér og lesendum Hundalífspóstsins góð ráð.

Hvernig á að meðhöndla sprungna þófa og hvaða fyrirbyggjandi aðferðir á að hafa í huga þegar svona aðstæður myndast?

Kolla tók erindi mínu góðfúslega og sendi eftirfarandi svar um hæl:

Sprungnir þófar er ansi hvimleitt vandamál sem getur auðveldlega undið uppá sig og því er mikilvægt að bregðast strax við.
Þegar þófarnir springa er mikilvægt að bera eitthvað græðandi og mýkjandi á þá og mæli ég með þófasmyrsli frá Dr. Clauders sem inniheldur hungang ( fæst hjá Dýralæknastofunni í Garðabæ) eða Sáragaldur frá Villimey, takið góðan tíma í að nudda smyrslinu vel inn í þófana því það á að smjúga inn í þófana.
Ef hundurinn sleikjir smyrslið af er ráðlagt að setja hann í sokka í ca 30 mín eftir að smyrslið er borið á svo það fái frið til að virka.
Ef þófarnir eru mjög sárir og sprungnir er ráðlagt að hafa hundinn í hlífðarsokkum í göngutúr á meðan þeir eru að jafna sig (fáanlegir frá Non-stop á fb). Ef sárin eru mjög slæm eða þófarnir bólgna upp og verða þrútnir og heitir er ráðlagt að leita til dýralæknis til að fá viðeigandi meðhöndlun. Það tekur um 2-3 vikur fyrir þófana að jafna sig og því er mikilvægt að hlífa hundinum og stilla
hreyfingu í hóf og velja vel undirlag í þann tíma. Hér reynir mikið á þolinmæði eiganda og það er einna helst á þeim punkti sem meðhöndlunin misheppnast.

Fyrirbyggjandi : Venja þófana nr 1, 2 og 3. Það er mikilvægt að venja þófana hægt og bítandi við gróft undirlag. Þú hefur kanski tekið eftir því ef þú hefur gengið um berfætt/ur utandyra í einhvern tíma að eftir smá tíma venjast fætur þínir áreitinu og verða “harðari af sér” . Það sama gildir um hundana og þess vegna er svo mikilvægt að taka sér tíma í að venja þófana við gróft undirlag, ef þú stefnir á fjallgöngur þarftu að fara nokkra styttri test túra á utanvega slóða og möl áður en þú leggur í fjallgönguna, ef þú vilt hjóla með hundinn þinn 5-10 km þá þarftu að byrja  á því að fara 1-2 km og svo 2-3 km og svo koll af kolli. Mundu að skoða alltaf þófana og klærnar vel bæði fyrir og eftir hreyfingu til að vera viss um að allt sé eins og það eigi að vera, þá þekkir þú líka betur breytingar og getur strax brugðist við.
Það er gott að bera á mýkjandi smyrslin sem ég nefndi áðan eftir túra annarslagið en ekki alltaf, þú vilt nefnilega ekki heldur að þófarnir verði of mjúkir, til að standast áreiti þurfa þeir að hafa ákveðinn grófleika og mega ekki verða of mjúkir.
Margir hundar eru með þófa sem þola illa kulda, klaka og harðfenni og þar sem það er ástand sem skapast mjög snögglega á Íslandi og því oft lítill tími til að venja þá við slíkt undirlag, þá mæli ég með að nota hlífðarsokka og/eða passa sig að fara ekki alveg eins langa túra og vanalega í slíkri færð. 

          non stop sokkar

Ég mæli almennt með því að forðast sokka sem eru með þykkum gúmísóla því það er mikilvægt að hundarnir missi ekki tengingu og tilfinningu fyrir undirlaginu. Ef hundurinn hefur mjög skerta tilfinningu fyrir undirlaginu er líklegra að hundurinn skaði sig á annan máta, t.d. getur hundurinn runnið til og tognað illa.
Ég mæli því með að fólk verði sér út um sokka sem eru léttir og þunnir en slitsterkir og þægilegir fyrir hundinn. Sokkarnir ættu að vera með frönskum rennilási með teyju í til að festa sokkana fyrir neðan úlnliðinn.


þurrar loppur

  húðin af

 

Myndir Kolla Arna. Hundalífspósturinn þakkar Kollu fyrir góðar ráðleggingar. Njótið útivistar með hundunum ykkar