Hundalíf í Söðulsholti

Þórhildur Bjartmarz

Það var skemmtileg stemming meðal þeirra sem mættu á námskeið hjá Line Sandstedt sl laugardag og sunnudag í Söðulsholti á Snæfellsnesi. Á tilsettum tíma sátu allir tvíþættu þátttakendurnir í stól vel undirbúnir til vinnu. Þetta er fyrsta reglan sem allir læra hjá norska hundaþjálfaranum, allir verða að vera á sínum stað og tilbúnir til starfa á þeim tíma sem námskeiðið byrjar. Alls voru 10 þátttakendur með 17 hunda, flestir æfðu báða dagana frá kl 10 – 17. Hundarnir voru á öllum aldri sá yngsti 5 mán en sá elsti 9 ára. Hvað er það sem þátttakendur æfa á svona námskeiði? Það er mismunandi, hver og einn kemur með fyrirfram ákveðnar hugmyndir um hvað þeir ætla að æfa. Line byrjar daginn á því að fá áætlun allra. Sjálf mætti ég með íslenska fjárhundinn Þór með þessa áætlun; a) innkall með standandi stoppi á miðri leið b) bæta sitjandi stöðu hundsins þegar ég stoppa á göngu c) fá hundinn til að leita að þvottaklemmu með minni lykt d) hundurinn fylgi mér úr sitjandi stöðu í hliðarskref til hægri. Þetta voru sem sagt þau 4 meginatriði sem ég ætlaði að æfa á laugardaginn. En til hvers? Ekkert af þessum æfingum nota ég í daglegu lífi. Jú ég vill gera eitthvað skemmtilegt með hundunum mínum, bjóða þeim ný og krefjandi verkefni. Ég æfi hundana mína í alls kyns vinnu því það finnst mér og þeim skemmtilegt. Þetta er sportið mitt og nú tekur heimavinnan við þar til Line kemur aftur í haust, æfingar a.m.k. 4-5 daga vikunar.  Kveðjuorð Line að þessu sinni voru; allir þátttakendur þurfa að fara í próf áður en ég kem næst.  Ég tek undir með orðum Line, tökum þátt í hlýðniprófum Vinnuhundadeildar. Æfum okkur og gerum okkar besta.