Ungur Hornfirðingur stundar hundatamningar og skipuleggur smalahundakeppni:

Þetta skemmtilega viðtal við Agnar Ólafsson birtist í síðustu viku í Bændablaðinu

Áhugi á ræktun fjárhunda fer ört vaxandi Agnar Ólafsson er tvítugur Hornfirðingur sem býr á Tjörn á Mýrum. Hann hefur síðustu ár sinnt aðaláhugamáli sínu sem er tamning fjárhunda. Agnar fór í vist til Wales þar sem hann nam listirnar af einum þekktasta hundaþjálfara Bretlandseyja. Nú temur hann hunda heima á Tjörn í hjáverkum auk þess sem hann býr með sauðfé og starfar á kúabúinu í Flatey. Hann hefur aðstoðað bændur í göngum þar sem góðir smalahundar nýtast vel. Þessa dagana er Agnar að skipuleggja smalahundakeppni á Mýrunum sem ráðgert er að fari fram 29. og 30. Ágúst

„Þetta byrjaði þegar ég fékk minn fyrsta hund fyrir um fimm árum. Ég sá það hérna í sveitinni hvað góður hundur gat gert mikið og ég varð gjörsamlega heillaður. Frá þeirri stundu hefur þetta verið áhugamál númer eitt. Ég fór á tvö námskeið hérna heima og eignaðist ég minn fyrsta alvöru Border Collie hund, hann Kát frá Eyrarlandi, sem hefur tekið þátt í keppnum með mér. Ég reyni að stunda tamningarnar mikið og hef gaman af því að keppa. Í raun nýti ég allar lausar stundir til þess að sinna hundunum. Mér bauðst síðasta haust að fara til Wales og vinna með einum besta hundaþjálfara í heimi, Kevin Evans, en hann hefur unnið margar keppnir með sínum hundum. Ég fékk vinnu hjá honum við að hugsa um hundana og stunda tamningar. Hann kenndi mér aðferðirnar en ég var með allt að 10–12 unghunda í tamningu á dag. Í heild var þessi reynsla mjög lærdómsrík og ég kom tvíefldur til baka til Íslands.“

Hvernig gengur tamning á Border Collie hundi fyrir sig?

„Maður byrjar á að vinna með hvolpa þegar þeir hafa aldur og þroska til, oft í kringum sjö mánaða aldurinn. Þá kennir maður undirstöðuatriðin og í kjölfarið gerir maður meiri kröfur til þeirra, hvað þeir eiga að gera og hvernig þeir eiga að gera það. 95% af tamningunni felst í að hafa hundinn nálægt sér en smám saman kennir maður flóknari hluti, t.d. að tæta hópa ekki í sundur, fara til hægri og vinstri og stoppa eftir skipunum. Í raun eru þetta einungis fimm skipanir – mjög einfalt en vefst fyrir öllum! Þetta er annars mjög einstaklingsbundið. Sumir hundar verða jafnvel aldrei að gagni þó þeir séu vel ræktaðir,“ segir Agnar. Agnar notar röddina við að stjórna hundinum en líka flautu. „Það er tvöfalt skipunarkerfi sem hundarnir læra. Flaut og skipun þýðir það sama og er samtvinnað. Ég nota oft flautuna þegar hundurinn er kominn fjær því hljóðið í henni berst betur en röddin. Það eru meiri líkur á að hundurinn heyri í flautunni en mannsröddinni þegar skilyrðin eru erfiðari.

Er hægt að kenna gömlum hundi að sitja?

Eftir að tamning hefst þá reynir maður að vinna markvisst með hundana. Það getur verið einstaklingsbundið hvað er hægt að temja hvern hund mikið. Sumir þola ekki mikla tamningu í einu á meðan aðrir þola meira. Eins eru hundarnir misjafnlega lengi að ná tamningunni. Það er öll flóran í því. Suma hunda er hægt að temja á ótrúlega skömmum tíma á meðan aðrir þurfa lengri tíma. Það þurfa að vera ákveðin undirstöðuatriði fyrir í hundinum, t.d. rétta eðlið,“ segir Agnar sem telur jafnframt að það sé hægt að kenna gömlum hundi að sitja. „Já, það er hægt. Ég er með einn fjögurra ára núna í tamningu. Eða ég held að það sé hægt!“

Góðir fjárhundar geta gert mikið gagn

Áhugi á hundarækt hefur aukist á síðustu árum og vel þjálfaðir hundar eru gulls ígildi. Oft var það þannig fyrr á tímum að bændur voru öfundaðir í göngum sem áttu góða smalahunda. Agnar segist skynja að áhuginn fari vaxandi. „Það er mín tilfinning að hundamenning á Íslandi fari ört batnandi. Góðir hundar smita líka út frá sér. Ég hef aðeins stundað það hér á svæðinu að fara með hund í göngur á haustin fyrir bændur. Það er eftirsóknarvert að hafa góðan hund til að smala og menn sjá hvaða gagn hundarnir geta gert. Það eykur áhugann hjá mönnum.“

Smalahundakeppni á Mýrunum

Í lok mánaðarins verður haldin tveggja daga smalahundakeppni á Mýrunum. Agnar segir að hérlendis séu alltof fáar keppnir á ári en þar sem hann var úti í Wales voru keppnir haldnar um hverja helgi. Smalahundakeppnir ýta undir áhugann sem verður til þess að fleiri sjá verðmætin í góðum smalahundi að mati Agnars.

Vill sjá fleiri spreyta sig í keppni

„Það verður keppt í þremur flokkum. Unghundaflokkur, hundar yngri en þriggja ára og svo er B-flokkur þar sem eru óreyndari hund ar. Hundar í A-flokki fara lengstu brautina sem hentar vel fyrir reyndustu hundana. B-flokkurinn er prýðilegur fyrir byrjendur,“ segir Agnar og bætir því við að hann vilji sjá fleiri keppendur spreyta sig. „Það fer aldrei ver en illa!“ Fyrirkomulagið er þannig að hver hundur hefur 15 mínútur til þess að smala fimm kindum um brautina. Hér á Íslandi eru yfirleitt notaðar fullorðnar kindur að sögn Agnars. „Þær íslensku eru frekar harðsnúnar í samanburði við það sem maður hefur séð annars staðar í heiminum. Keppnin byrjar þannig að smalinn stendur við staur og síðan sendir hann hundinn annaðhvort á vinstri eða hægri hönd. Það eru hlið á leiðinni sem hundurinn þarf að fara í gegnum. Hann á að fara í vítt „perulaga“ úthlaup, koma kindunum rólega af stað og í átt að hliði sem er í beinni línu við smalann. Þegar hundur inn er búinn að því þá á hann að reka féð aftur fyrir smalann og í þríhyrning. Þetta er kallað rekstur.“ Síðan eru ýmis tilbrigði inni í braut inni sem hundarnir glíma við. T.d. getur hundurinn þurft að skipta fjárhópnum og gera flóknari æfingar. Hundakúnstunum lýkur síðan á því að smalinn opnar hlið inn í rétt og hundurinn skilar hópnum þangað. Sá vinnur sem leysir þrautina með bestum árangri samkvæmt stigagjöf dómara.

Mótsstaðurinn í landi Einholts á Mýrum

Agnar segist vona að keppendur verði á annan tuginn og að áhorfendur komi víða að. Keppnin er haldin í landi Einholts á Mýrum í AusturSkafta fellssýslu. Keppnisstaðurinn er um 30 km vestan við Höfn. Keppnin sjálf hefst klukkan 10.00 á laugardagsmorgninum 29. ágúst og stendur til sunnudags. Nánari upplýsingar um keppnina má nálgast hjá Agnari í síma 845- 8199, eða agnarolafs@gmail.com. /TB

Bændablaðið 15 tölublað 2015