Hjálparhundar eru ómetanlegir

Auður Björnsdóttir heiti ég og er hundaþjálfari.

Ég er fædd og uppalin á Ísafirði og voru hundar á heimilinu á mínum uppvaxtar árum.  Mín fyrstu kynni af hundaþjálfun var þegar ég þjálfaði hundinn minn Tuma sem leitarhund á vegum Björgunarhundarsveitar Íslands. Ég þjálfaði hann og tók próf í víðavangsleit og snjóflóðaleit og var hann á útkallslista í nokkur ár.

En ég fluttist til Noregs árið 1995 og lærði að þjálfa leiðsöguhunda fyrir blinda. Fór til Skotlands 1998 og kynnti mér hvernin bretar þjálfa leiðsöguhunda.   1999 þjálfaði ég  fyrsta íslenska leiðsöguhundinn fyrir blinda, hann Erró.

Þegar ég er að klára það verkefni greinist sonur minn með vöðvarýrnunarsjúkdóm og ég ákveð að þjálfa fyrir hann hjálparhund.  Ég fór aftur til Noregs og kynnti mér þjálfun á hjálparhundum og þjálfaði svo hann Trygg sem var dyggur félagi sonar míns í 13 ár.

Það vafði svo upp á sig og hef  ég verið  beðin um að þjálfa hunda fyrir ýmsar fatlanir eftir það.

Ég ætla að skrifa hérna nokkrar línur um hjálparhunda. Ég hef verið svo heppin  að hafa fengið að þjálfa þá í gegnum tíðina mér og eigendum þeirra til ánægju.

Það eru ansi mörg hlutverk sem hjálparhundar hafa.  Þeir eru eigendum sínum til stuðnings í hinu daglega lífi, eru vinir og sálusorgarar og eru oft tenging milli eiganda sinna og annars fólks.

En hvað er hjálparhundur?

Hjálparhundur er þjónustuhundur sem er þjálfaður til að aðstoða fatlaða með athafnir daglegs lífs.  Þeir eru þjálfaðir til þess að leiða blinda, heyra fyrir heyrnalausa, aðstoða fólk í hjólastól með því að sækja, opna hurðar, kveikja ljós, hjálpa til við að draga föt af fólki og draga hjólastólinn og margt fleira.  Einnig eru þjálfaðir hundar til þess að skynja og láta vita af flogaköstum áður en þau verða, aðstoða fólk með kvíðaraskanir, einhverfu og margt fleira.

Aušur,Višar,Tryggur og Hrafntófta Töfri 002

Helstu hundategundirnar sem notaðar eru í þessi störf eru Labrador og golden retriever en þó er það einstaklingurinn sem skiptir máli og eru allar hundategundir gjaldgengar svo framarlega sem þær uppfylla þær kröfur sem eru settar til hjálparhunda.   Ég hef séð allt frá papilion til st.bernards í þessu starfi þó svo að það séu kanski ekki algengustu tegundirnar.

Hjálparhundar þurfa að vera yfirvegaðir og rólegir og þola mikið áreyti.  T.d. fólksfjölda, umferð og hávaða og önnur dýr.  Þeir þurfa að vera blíðir og mannelskir og auðveldir í þjálfun  s.s samstarfs og námsfúsir.  Líkamlega þurfa þeir að standast heilbrigðisskoðun sem innifelur mjaðmamyndatöku og olnbogamyndatöku auk almenns heilbrigðis.

Á þeim 20 árum sem ég hef þjálfað hjálparhunda hefur mér fundist, þrátt fyrir gagnsemi hundsins við að hjálpa fólki með athafnir daglegs lífs, standi þó uppúr sambandið og sú tenging sem fólk fær við hundinn sinn og sú vinátta sem skapast þar á milli.  Það er ómetanlegt!

Hundalíf þakkar Auði fyrir pistilinn og vonandi fáum við fleiri pistla þar sem við fáum að fylgjast með þjálfun hjálparhunda