Sif og Sunna á ferðalagi – Ísland kvatt

Sif Traustadóttir dýralæknir ætlar að senda okkur pistla um ferðalag þeirra Sunnu á ferðalagi um Evrópu

Sunna í ferðabúrinu

 

Ég lagði af stað frá Íslandi 6. mai 2015 án þess að hafa nákvæma ferðaáætlun, það eina sem ég vissi var að ég vissi að ég myndi ferðast um Evrópu næstu mánuði með litlu havanese tíkinni minni, Sunnu.

 

Þessi hugmynd hafði verið að gerjast með mér í nokkur ár en það var ekki fyrr en núna sem ég hafði möguleika, að mér fannst, til að láta það verða að veruleika. Fyrir tveimur árum lenti ég í bílslysi þar sem ég hélt í nokkur augnablik að þetta yrði mitt síðasta. Örfáum mánuðum síðar þurfti móðir mín að undirgangast stóra hjartaaðgerð og það var ljóst að um er að ræða arfgengann sjúkdóm og að ég myndi mögulega ekki sleppa við að undirgangast það sama síðar á ævinni. Þessir tveir atburðir voru kannski það sem raunverulega hratt mér af stað út úr þægindahringnum og fékk mig til að takast á við hið óþekkta. Nú erum við ekki að tala um ævintýraferð í frumskógum Asíu eða um stríðshrjáð svæði, heldur lúxusferðalag um Evrópu í húsbíl með öllum nútímaþægindum. Engu að síður var það stórt skref að ákveða að taka frí frá vinnu og eyða stórum fjárhæðum í þetta ferðalag í stað þess að geyma peningana til ellinnar eins og skynsamlegra hefði kannski verið.

 

Þar sem ég ákvað að vera í burtu frá Íslandi í að minnsta kosti 7 mánuði gat ég ekki hugsað mér að skilja litla félagann minn eftir allan þennan tíma. Ég sá fyrir mér að hún yrði góður ferðafélagi og myndi forða mér frá því að verða einmana á leiðinni. Það reyndist svo sannarlega rétt. Við höfum líka komist að því saman hvernig er að ferðast með hund um Evrópu og mig langar með þessum pistlum að segja frá þessu ferðalagi og deila reynslu minni með þeim sem gætu haft áhuga.

 

Ferðalagið mitt var í raun tvíþætt. Fyrst færi ég um miðjan apríl til Bandaríkjanna og Kanada í tvær vikur til að fara á ráðstefnu og heimsækja vini. Á meðan yrði Sunna í pössun hjá vinafólki. Síðan kæmi ég til Íslands í nokkra daga til að sækja Sunnu og við myndum fljúga út til Kaupmannahafnar þann 6. mai og hefja ferðalagið sem myndi standa fram að áramótum. Eins og vanalega fór ekki allt eftir áætlun…

 

Það reyndist ekki þrautalaust að komast frá Íslandi. Bæði gjaldeyrishöft og verkföll settu strik í reikninginn vorið 2015. Vegna gjaldeyrishaftanna þurfti ég að sækja um leyfi frá seðlabankanum til að kaupa nægan gjaldeyri til að geta borgað fyrir húsbílinn sem ég keypti frá bílasala í Þýskalandi. Ég hafði reiknað út að það borgaði sig frekar að kaupa húsbíl og selja hann að ferðinni lokinni en að leigja bíl í svo langan tíma. Vegna rangra upplýsinga frá bankanum mínum áttaði ég mig ekki á þessu fyrr en um mánuði áður en ég lagði af stað en hjólin snúast hægt í seðlabankanum og það mátti varla tæpara standa, umsóknin var náðarsamlega afgreidd daginn áður en ég fór úr landi og tókst því naumlega að borga bílinn í tæka tíð.

 

Næsta hindrun var verkfall dýralækna hjá Matvælastofunun sem stóð mun lengur en nokkur bjóst við. Það var sýnu erfiðara mál en peningar. Þar sem ég er sjálf dýralæknir hafði ég að sjálfsögðu í tæka tíð bólusett Sunnu við hundaæði eins og reglur gera ráð fyrir en samkvæmt reglunum verður að útfylla útflutningsvottorð nokkrum dögum fyrir brottför og láta stimpla þau af opinberum dýralæknum. Það var ekki mikið mál að útbúa vottorðin en stimpilinn góða gat ég ekki fengið þar sem opinberir dýralæknar voru allir í verkfalli. Nú voru góð ráð dýr. Ég fékk að vita það að engar undanþágur yrðu gerðar frá verkfallinu nema um væri að ræða dýraverndarmál.  Ég velti fyrir mér ýmsum möguleikum, að setja Sunnu í pössun þar til verkfallinu yrði lokið og láta svo senda hana þangað sem ég væri stödd þá stundina eða jafnvel að sætta mig við að fara ein í ferðalagið og koma Sunnu fyrir í nokkra mánuði. Hvorugur kosturinn virtist góður.

 

Ég ákvað að það gæti ekki sakað að senda neyðarkall til kollega í Danmörku og kanna hvort einhverjir möguleikar væru á því að fá undanþágu frá stimpilreglunni. Pósturinn minn var áframsendur á réttan aðila hjá dönsku matvælastofnuninni og þá kom í ljós að til var undanþága frá þessarri reglu sem beita mætti í neyðartilvikum. Það væri hægt að flytja inn dýr án gildra innflutningspappíra ef hægt væri að koma því fyrir á dönsku heimili í heimasóttkví, bólusetja upp á nýtt við hundaæði og bíða svo í þrjár vikur þar til aflétta mætti sóttkvínni. Ég sótti strax um og hóf leit að fjölskyldu í Danmörku sem gæti hugsað sér að passa lítinn og krúttlegan hund í þrjár vikur. Nokkrir dagar liðu í algeru stresskasti þar sem ég var auðvitað löngu búin að kaupa flugmiðann og hafði bara nokkra daga til að ganga frá þessu öllu saman. Ég setti mynd af Sunnu á facebook, sagði söguna okkar og bað fólk að deila til þeirra sem það þekkti í Danmörku. Viðbrögðin voru vægast sagt ótrúleg og hlýjuðu mér um hjartarætur. Strax eftir tvo daga voru komin nokkur tilboð um pössun frá íslenskum fjölskyldum í Danmörku sem buðust til að passa Sunnu. Á endanum var það íslensk/dönsk fjölskylda og vinafólk mitt sem reyndist hafa réttu aðstöðuna og buðust til að hafa hana hjá sér. Þetta reyndist fullkomið og við gátum á sama tíma rifjað upp gömul kynni. Þessi hjón eru miklir dýravinir og höfðu reyndar áður passað dýr fyrir mig á námsárum mínum í Kaupmannahöfn og við grínuðumst með það að gæludýraeign þeirra hefði í gegnum tíðina oft falist í því að passa dýrin mín…

 

Þegar búið var að ganga frá þessu öllu saman gátum við loksins farið saman út á flugvöll og ferðalagið gekk í raun eins og í sögu eftir þetta. Sunna er fremur lítil í sér að eðlisfari og fékk því vægan skammt af kvíðastillandi lyfi fyrir flugið og bar sig vel þegar hún komst loksins í gegnum tollafgreiðsluna á Kastrup flugvelli. Í næsta pistli verður fjallað um Danmerkurævintýrið.