Aðalfundur FÁH 2017

Jórunn Sörensen:

2logo-svart95pxgratt  Aðalfundur Félags ábyrgra hundaeigenda – FÁH – var haldinn 25. júní 2017 að Skemmuvegi 40 Kópavogi. Á fundinum rakti formaður félagsins Rakel Linda Kristjánsdóttir skýrslu yfir störf félagsins. Skýrslan er yfirgripsmikil og hefur stjórnin verið látlaust á hundavaktinni og gert athugasemdir og komið með tillögur til úrbóta er varða samskipti yfirvalda við hundaeigendur og hunda þeirra. Skýrsluna má lesa í heild á síðu félagsins www.fah.is

Miklar umræður urðu um helstu vandamál sem eigendur hunda geta staðið frammi fyrir. Ekki síst þegar hundaeftirlitsmenn fara ekki eftir reglugerð um velferð gæludýra og leggja allt kapp á að koma óskilahundum til eigenda sinna en fara í stað þess með hundinn í þá aðstöðu sem bæjarfélagið notar fyrir óskiladýr ef hundurinn finnst utan skrifstofutíma. Það er gífurlega áríðandi að allir sem halda gæludýr kynni sér reglugerðina vel. Slóðina má finna hér fyrir neðan.

Einnig var mikið rætt um það einstaka sjónarhorn sem ríkir hér á landi varðandi hunda og hundaeigendur og það er hvernig heildin líður fyrir undantekningarnar. Látlaust er hamrað á þeim tilfellum þegar einhver sér eitthvað athugavert við hundaeiganda og hundinn hans og það síðan yfirfært á allan þann mikla fjölda hundaeigenda sem gætir sinna hunda vel og hefur þá umhverfisþjálfaða.

Í lokin var rætt um næstu verkefni félagsins og samþykkt að efna til málþings í nóvember n.k. og bjóða fulltrúum frá hundaeftirliti og bæjarstjórnum á Höfðuborgarsvæðinu. Einnig var rætt um að fá samantekt um hundahald á Íslandi. Hvernig sjónarhornið á hundinn breyttist með tilkomu sullaveikinnar sem Íslendingum gekk illa að ráða niðurlögum á sakir vanþekkingar og sóðaskapar og hvaða afleiðingar þetta sjónarhorn hefur haft á hundahald í þéttbýli hér á landi.

http://hundalifspostur.is/?s=regluger%C3%B0+um+velfer%C3%B0+g%C3%A6lud%C3%BDra

french-bulldog-summer-smile-joy-160846