Skráning hvolpa

Þórhildur Bjartmarz: 

Samþykkt um hundahald í Reykjavík útg 2012 –

Þekkir þú samþykkt um hundahald í Reykjavík? Þeir sem sækja hvolpanámskeið taka próf úr samþykktinni. Ýmislegt kemur þar á óvart t.d. hvað merkir það að vera valinkunnur?

  1. gr. d. Umsókn skal fylgja staðfesting um að umsækjandi hafi sótt námskeið um hundahald, viðurkennt af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur eða meðmæli tveggja valinkunnra manna um hæfi hans til að halda hund. Í 8. gr segir að sækja skuli um leyfi innan mánaðar frá því að hundurinn sé tekinn á heimili.

Ef nýr hvolpaeigandi sem fær hvolp 2 mánaða gamlan ætlar að uppfylla þessi skilyrði getur hann ekki nýtt sér ákvæðið um námskeið því hvolpar eru ekki fullbólusóttir fyrr en þriggja mánaða sem er mánaðafresturinn sem Heilbrigðiseftirlitið setur sem skilyrði sbr. 8. grein. Hvolpar fara ekki á námskeið fyrr en eftir þriggja mánaða aldur þegar þeir eru fullbólusettir og þessum námskeiðum lýkur oft þegar hvolpurinn er u.þ.b. 5 mánaða. Þeir sem ætla að hlíta reglugerðinni geta því ekki nýtt sér þetta ákvæði.

DSC_9705

Þá er að leita að tveimur valinkunnum mönnum sem telja umsækjandann hæfan til að halda hund. En hvað er eiginlega að vera valinkunnur? Samkvæt orðabók Máls og menningar er það sá sem er réttlátur eða þekktur að góðu einu. Vonandi eru einhverjir í vinahóp umsækjandans sem uppfylla þessi skilyrði. En spurningin er hvort viðkomandi vinir séu valinkunnir að áliti Heilbrigðiseftirlitsins? Önnur spurning kemur þá á eftir hvernig geta valinkunnir vinir gefið nýjum hvolpakaupanda meðmæli um að hann sé hæfur til að halda hund. Þessir valinkunnu vinir vita etv. ekkert um þarfir og meðferð hvolpa eða hunda. Hver er yfirleitt hæfur til að gefa svona meðmæli? Ég þarf endilega að hringja í Heilbrigðiseftirlitið og leita nánari upplýsinga um valinkunna vini – eða er kominn tími til að breyta?

Þórhildur Bjartmarz