UMFJÖLLUN UM MÁLÞING FÁH Í RÁÐHÚSINU 10. FEBRÚAR 2018

Jórunn Sörensen:

Hér verður fjallað um málþing sem Félag ábyrgra hundaeigenda hélt í Ráðhúsi Reykjavíkur laugardaginn 10. febrúar 2018. Tvær stórar og metnaðarfullar spurningar voru yfirskrift ráðstefnunnar: Hvert stefnum við í hundahaldi á Íslandi? Hver er stefna Reykjavíkurborgar?

Dagskrá:

Setning málþings

Rakel Linda Kristjánsdóttir formaður FÁH

 

Saga hundahalds á Íslandi

Þórhildur Bjartmarz hundaþjálfari

 

Framtíðarsýn Reykjavíkur

Sabine Leskopf formaður Heilbrigðisnefndar Reykjavíkur

 

Hvað er Dýraauðkenni

Agnes Helga Martin dýralæknir og stjórnarmaður Dýraauðkennis

 

Pólitísk barátta fyrir hunda er eins og pólitísk barátta fyrir fólk – það er barátta fyrir frelsi

Helgi Hjörvar fyrrverandi alþingismaður

 

Hundaborgin Reykjavík. Hvar stöndum við í samanburði við nágrannalöndin

Freyja Kristinsdóttir dýralæknir og stjórnarmaður FÁH

 

Panelumræður

    

Fundarstjóri: Ragnheiður Elín Clausen

 

 

Áskorun til borgaryfirvalda

Eftir að Rakel Linda hafði ávarpað gesti las hún upp áskorun stjórnar FÁH til yfirvalda Reykjavíkur sem hún afhenti síðan Sabine Leskopf fyrir hönd borgarstjórnar. Síðan rétti hún keflið til Ragnheiðar Elínar  fundarstjórna sem gaf fyrsta fyrirlesara orðið. Áskorunin er birt sérstaklega á Hundalífspóstinum.

 

Hundalíf í Reykjavík

Í Reykjavík var besti vinur mannsis ofsóttur og réttdræpur í 60 ár

Þórhildur skýrði í upphafi máls síns frá því að hún hefði tekið saman heimildir um hundahald á Íslandi frá upphafi búsetu í landinu fram á okkar daga en valið að taka þennan hluta samantektar sinnar til flutnings nú. Glærur og flutningur Þórhildar hafði mikil áhrif á gesti sem fæstir þekktu til þess  ofbeldis sem hundar og hundaeigendur bjuggu við af hálfu yfirvalda í allan þennan tíma. Lögreglunni var miskunnarlaust beitt í viðleitni stjórnvalda til þess að útrýma hundum í Reykjavík – og reyndar í þéttbýli á Íslandi almennt. Þetta hatur yfirvalda sem birtist í algjöru banni við hundahaldi kom fram í gífurlegri fjölmiðlaumfjöllun. Bæði greinum, fréttum og ekki síst lesendabréfum. Það vakti sérstaka athygli Þórhildar hve mikil hin neikvæða og hatursfulla umræða um hunda var á þessum tíma þegar mörg stór mál voru áberandi, ss. Kalda stríðið, Víetnamsstríðið, landhelgisdeilan og bjórbannið.

 

    

 

Framtíðarsýn Reykjavíkur

Þá var komið að formanni heilbrigðisnefndar borgarinnar Sabine sem sagði í upphafi að engin stefna um hundahald væri til hjá Reykjavík. Svo reyndar þyrfti hún ekki að segja neitt meira. Það gerði hún þó og ræddi í löngu máli hvað hefði áunnist í hundahaldi borgarinnar í gegnum árin. Hún útskýrði einnig sína skoðun á því af hverju Reykvíkingar hefðu verið og væru jafnvel enn á móti hundahaldi í borginni – það væri vegna þess að þegar bændafólk flutti í þéttbýlið vildi það verða fínt fólk sem ekki héldi hunda. Sabine margítrekaði að hundaeftirlit borgarinnar væri ekki vondur hlutur. Hundaeftirlitið færi eftir þeim reglum sem því væru settar. Sabine var sannarlega vorkunn að hafa úr engu að spila með áætlanir Reykjavíkur um eðlilegt hundahald í borginni.

 

Hvað er Dýraauðkenni?

Agnes Helga sagði frá því hvenær byrjað var að auðkenna gæludýr með örmerki. Það voru dýralæknar sem stofnuðu Dýraauðkenni og nú væru um 60 þúsund dýr auðkennd hér á landi. Hún útskýrði, hið augljósa, hve gífurlegt gagn væri í því að auðkenna dýr. Nú væri það skylda dýralækna að skrá öll dýr inn í gagnagrunni sem þeir örmerktu en því miður væru einhverjir dýralæknar sem gerðu það ekki. Erindi Agnesar Helgu var afar upplýsandi.

 

 

Pólitísk barátta fyrir hunda er eins og pólitísk barátta fyrir fólk – það er barátta fyrir frelsi

Helgi Hjörvar var næstur á dagskrá og var flutt upptaka með erindi hans. Þar sagði hann frá leiðsöguhundinum sínum sem nú væri kominn á eftirlaun. Helgi lýsti því hvernig hann hefði í fyrstu verið ragur að hafa hundinn með sér á alla þá staði sem hann þurfti að fara. Það sagði okkur, sem á hann hlustuðu, hve gífurleg áhrif hin neikvæða umfjöllun yfirvalda og miklu boð og bönn hafa á fólk. Jafnvel mann sem hefur leiðsöguhund sem samkvæmt reglugerð má fara með honum hvert sem er. Helgi sagði að það hefði verið algjörlega vandalaust að hafa hundinn með sér hvert sem var – jafnvel inn á gjögæsludeild Landspítalans í Fossvogi. Helgi orðaði það vel þegar hann sagði: MEGINREGLAN ÆTTI AÐ VERA AÐ HUNDAR MEGI VERA EN EKKI AÐ ÞEIR SÉU BANNAÐIR.

 

Hundaborgin Reykjavík – hvar stöndum við í samanburði við nágrannalöndin

Freyja hefur numið og starfað bæði í Danmörku og Bretlandi og lýsti því hve gífurlegur munur er í nágrannalöndum okkar á aðstöðu þeirra fjölskyldna þar sem einn úr fjölskyldunni er hundur og okkur hér á Íslandi. Munurinn væri svo gífurlegur að henni fannst fyrst þetta ekki geta verið satt hve sjálfsagt og eðlilegt það er að hafa hundinn sinn með sér nánast hvar sem var. Hvergi væri hundaskattur. Stór og vel útbúin hundagerði væru víða – og í íbúðahverfum ólíkt hér á landi. Og til samanburðar sýndi hún á korti hvar hin þrjú agnarsmáu reykvísku „hundagerði“ væri að finna og hvernig þau eru – lítil ferköntuð girt svæði með ónýtum hliðum og einsleitu og vondu undirlagi. Ekkert væri við að vera fyrir hundinn í þessum girðingum, svo lítil eru þau. Ekki einu sinni bekkur fyrir hundaeigendur ef þeir vildu tylla sér niður. Freyja bar saman aðstöðu hundaeigenda og þeirra sem eiga hesta í borginni – en þar er vægast sagt ólíku saman að jafna.

Það var afar margt annað áhugavert sem kom fram í máli Freyju eins og t.d. að enginn væri hundaskatturinn í nágrannalöndum okkar. Í lokin ræddi Freyja örustutt um það sem FÁH hefur verið að vinna að frá stofnum félagsins fyrir örfáum árum og hvað væri framundan. Það nefndi hún helst að vinna í því að fólk í leiguíbúðum gæti haft heimilisdýr og að hundaleyfisgjaldið yrði lækkað og rynni til uppbyggingar svæða fyrir hunda. Freyja benti á að hér væri tvöföld skráning hunda –  fyrst af dýralækni hjá Dýraauðkenni og síðan hjá sveitarfélaginu. Það ætti að samræma þetta – hafa eina skráningu.

 

              

 

Pallborðsumræðurnar

Eftir að framsöguerindum lauk var stutt hlé og síðan settust þær í pallborð Þórhildur, Sabine, Agnes Helga og Freyja. Ragnheiður Elín stjórnaði umræðum og Rakel Linda gekk um með hljóðnema. Umræðurnar voru afar fróðlegur og í þeim kom enn betur í ljós hve illa Reykjavíkurborg stendur sig í því að hafa reglur í kringum hundahald þannig að eitthvert vit sé í.

Því miður hef ég ekki nöfn allra þeirra sem báru fram spurningar eða gerðu athugasemdir og sleppi því öllum nöfnum.

Sá fyrsti sem bað um orðið beindi spurningum til Þórhildar en leiðrétti fyrst eitt sem kom fram í máli Sabine sem sagði það skoðun sína að andstaða borgarbúa við hunda og hundahald væri vegna þess fólk hefði viljað vera svo fínt fólk þegar það flutti til bæjarins úr sveitinni. Sabine var bent á að ástæðan hefði komið skýrt fram í máli Þórhildar sem rakti gegndarlausan hræðsluáróður í fjölmiðlum gegnum hundum í áratugi þar sem ótrúlegustu ástæður voru tilgreindar gegn hundahaldi – jafnvel sullaveiki og hundaæði. En smitleiðir sullaveikinnar voru kunnar 60 árum áður en hundabann var sett á í Reykjavík.

Í einni glæru Þórhildar var vitnað í lesandabréf þar sem sagði: „Í stórborgum þar sem hundahald er enn leyft…“ og hún spurð hvort hún héldi að bréfritari hefði í alvöru álitið að borgir Norðurlandanna og Evrópu myndu taka Reykjavík sér til fyrirmyndar og banna hundahald og svaraði hún því játandi.

Þórhildur sagði m.a. frá því í fyrirlestri sínum að 1983 hefði lögreglan mætt að heimili á Framnesvegi, dregið heimilishundinn út á stétt og skotið. Hún var spurð að því hvað hundurinn hefði gert af sér og hvernig henni hefði liðið sem bjó þá í Reykjavík og átti hunda. Þórhildur sagði að hundurinn hefði lent í áflogum við annan hund og kona meiðst lítils háttar á hendi við að aðskilja þá. Hringt hefði verið í lögregluna með þessum afleiðingum. Síðan lýsti Þórhildur því hve óttaslegin hún hefði verið ef upp kæmist að hundurinn var undan hennar hundum og henni yrði gert að fjarlægja hundana úr borginni. Þetta er tilfinning sem ótal margir sem bjuggu á Höfuðborgarsvæðinu á þessum tíma, þekkja vel. Nagandi kvíði og ótti yfir því að fjölskylduhundurinn yrði tekinn og drepinn.

Fram kom mikil óánægja yfir þeim gífurlega mun sem er á aðstöðu hestaeigenda og hundaeigenda. Hestamannafélögin fá tugi hektara fyrir sig sem og fleiri og fleiri reiðvegi.

Mikil gagnrýni kom fram á skorti hundagerðum. Gerðum sem væru þar sem fólk byggi og boðleg bæði hundum og eigendum þeirra. Sabine hafði lausn á því. Þegar kosið væri um verkefni í borginni væri bara að hringja í alla vini sína og þeir myndu síðan hringja í sína vini og kjósa um hundagerði. Þegar 150 óskuðu eftir verkefni yrði Borgin að taka það upp. Henni var þá bent á reynslu þeirra sem reynt hafa að beita þessari aðferð. Ýmist eru það svokölluð hverfisráð sem breyta staðsetningu hundagerðisins eða verkefninu er breytt á annan hátt af stjórn borgarinnar.

Í fyrirlestri sínum lýsti Sabine mikilli óanægju með það embættisverk fráfarandi umhverfisráðherra að breyta reglugerð um hollustuhætti þannig að það væri veitingahúsaeigendum í sjálfsvald sett hvort þeir leyfðu að hundar kæmu þar inn með eiganda sínum. Það var skoðun Sabina – eins og fulltrúa Sjálfstæðisflokkins á sínum tíma – að slík leyfi ættu að vera í höndum hvers sveitarfélags. Sem sagt að það verði alltaf eitthvert yfirvald sem setji eigendum veitingahúsa skorður. Í nýju reglugerðinni er sagt að þar sem matvæli væru frammi mættu hundar ekki vera. Sabina tók plastflösku með vatni sem hún var með og sagði: „Þetta eru matvæli.“ Mikil þversögn kom hins vegar fram í máli hennar síðar í umræðunni þegar hún sagði að veitingahúsi væri neitað um leyfi þar sem væri opinn salatbar.

Mikið var rætt um hlutverk hundaeftirlitsins í borginni og það gagnrýnt harkalega. Til dæmis hefur borgin engan stað til vistunar á óskilahundum. Þegar Sabine var spurð út í þetta tók hún því létt og skýrði frá því að sjálfboðasamtökin Dýrahjálp hlypu gjarnan undir bagga. Það er fáheyrt að borgin skuli koma sér undan ábyrgð með því að láta sjálfboðasamtök leysa málin. Ekki hafa þau neina aðstöðu fyrir hunda en koma þeim fyrir hjá einhverjum sem vill taka við þeim. Síðan bætti Sabine um betur og sagði að í athugun væri að tekið yrði á móti óskilahundum í Húsdýragarðinum.

Það er þetta með hunda sem sleppa. Árið 2010 voru teknir 210 hundar sem voru á flakki. Árið 2016 voru þeir 62. En á þessum sex árum fjölgaði hundum mikið í borginni. Ástæða fyrir þessari miklu fækkun á lausum hundum er að nethópurinn Hundasamfélagið á Facebook – sem að sjálfsögðu er rekið í sjálfboðavinnu – kemur hundunum til skila.

Þá var vakin athygli á því að borgin birtir lista yfir skráða hunda og hvar þeir eiga heima. Þetta á sér þann eina tilgang að nágranni geti athugað hvort hundur í næsta húsi sé skráður. Fram komu efasemdir um að þetta væri löglegt. Fjölskylduhundur er eign þess sem skráður er fyrir honum og það getur ekki verið rétt að það megi birta lista yfir eigur manna eftir heimilisföngum.

Eins og von er finnst hundaeigendum það óskiljanlegt hve hundaleyfisgjöldin eru há og mjög óljóst í hvað hluti þeirra er notaður. Það kom m.a. fram að þau eru notuð til þess að kosta bannskilti á umferð hunda víðsvegar í borginni, ss. í Gufunesi og á Laugarnesi.

Einnig var rætt um það hve stofnanir eru lokaðar hundum – af hverju mætti t.d. ekki fara með hund inn í Ráðhúsið? Spurningunni var beint til Sabine sem fannst auðsjáanlega ekkert athugavert við að banna að hundar fengju að koma inn í Ráðhúsið og sagðist einnig telja að hennar hundur vildi ekkert endilega koma þangað. Sabine var vinsamlega bent á það að hundur vill fylgja eiganda sínum. Ef manneskja væri á gangi um miðbæinn með hundinn sinn og dytti allt í einu í hug að koma við í Ráðhúsinu væri það eðlilegasta hlutur í heimi að hundurinn fylgdi með.

    

 

Ragnheiður Elína stjórnaði málþinginu af hlýju og skörungsskap eins og henni einni er lagið.

LOKAORÐ

Það er Félagi ábyrgra hundaeigenda til mikils sóma að hafa staðið fyrir málþingi um hundahald í Reykjavík. Málþingi sem sýnir að þótt ýmislegt hafi áunnist síðan hundar voru réttdræpir í borginni er enn afar langt í land með að við þéttbýlisbúar, sem eigum hund, njótum frelsis á við þá sem ekki eiga hund.