Opið bréf til borgarstjóra Reykjavíkur

Freyja Kristinsdóttir:

Þessi pistil er birtur á fb síðu FÁH

Laugardagur, 20. maí 2017

Fyrr á árinu skrifaði ég nokkrar greinar þar sem ég gagnrýndi hundaeftirlit Reykjavíkur.

Þær vöktu nokkra athygli og fjölmiðlaumfjöllun. Ég tók fram í einni greininni að ég ætlaði ekki að greiða hundaleyfisgjöldin fyrr en tryggt væri að Reykjavíkurborg væri að nýta peningana aðeins í hundaeftirlit, líkt lög segja til um. En ég gat auðvitað sagt mér það sjálf að það gengi ekki upp lengi að koma með svona opinbera yfirlýsingu. Hundaeftirlitið brást auðvitað skjótt við og hótaði að taka af mér hundinn.

Ég fór því í gær og skráði hundinn minn hjá Reykjavíkurborg. Ég lét eftirfarandi bréf fylgja með skráningarblaðinu – frumrit sent á borgarstjóra, afrit á alla borgarfulltrúa, heilbrigðiseftirlit og heilbrigðisnefnd.

 

B.T. Borgarstjóra Reykjavíkur

Reykjavík 19.maí 2017

Kvörtun vegna ólöglegrar skattheimtu Reykjavíkurborgar

Ég, undirrituð, vil koma á framfæri kvörtun yfir hundaleyfisgjaldi Reykjavíkurborgar, sem ég tel vera hærra en nemi þeim kostnaði sem borgin hefur af hundahaldi. Sá kostnaður við hundaeftirlitið sem tiltekinn er í bókhaldi, er órökstuddur og óeðlilegur miðað við umfang verkefna hundaeftirlits. Þar með tel ég að hagnaður borgarinnar vegna hundaleyfisgjalda sé í raun skattheimta, og með umræddri gjaldtöku er því brotið í bága við 40. og 77. gr. stjórnarskráarinnar.

Reykjavíkurborg hefur vissulega leyfi til innheimtu þjónustugjalda samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, en í 25.gr. laga nr. 7/1998 stendur: „Gjöld mega aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum.“ Hundaeigendur hafa aldrei fengið að sjá ásættanlegan rökstuðning við kostnað borgarinnar við hundahaldið. Dæmi um þetta er órökstuddur og óeðlilega hár launakostnaður.

Óeðlilegur launakostnaður

Í bókhaldi hundaeftirlits kemur fram að tekjur af hundaleyfisgjöldum árið 2015 hafi verið 35 milljónir króna. Meðal útgjalda kemur fram að launakostnaður hafi verið 23,5 milljónir króna.

Samkvæmt svörum frá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, eru starfsmenn hundaeftirlits þrír talsins í 100% starfi. Tveir hundaeftirlitsmenn og einn ritari. Samt sem áður virðist ekki vera starfsmaður hjá Reykjavíkurborg með starfstitilinn ritari hundaeftirlits, og ef hringt er inn með einfaldar fyrirspurnir varðandi hundahald, t.d. er varðar skráningu á hundum, þá er ávallt bent á símatíma hundaeftirlitsmanna. Það lítur því allt út fyrir það að ritarar Heilbrigðiseftirlits sinni mögulega einhverjum ritarastörfum fyrir hundaeftirlitið í hjáverkum. En hversu stór partur það er af þeirra starfi virðist hvergi vera skráð. Sú staðreynd að hundaeigendur eigi að greiða fyrir 100% af launum ritara hundaeftirlits er því ekki rökstudd með nokkru móti.

Auk launa þessara þriggja starfsmanna, þá greiða hundaeigendur fyrir 30% af launum framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits. Starfsemi Hundaeftirlits getur vart verið svo viðamikil að framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar þurfi að verja tæpum tveimur vinnudögum í hverri viku til stjórnunarstarfa í þessum afmarkaða þætti starfsemi Heilbrigðiseftirlitsins. Verður að telja það óeðlilega háan kostnað við yfirstjórn, einkum þegar litið er til þess að heildarfjöldi starfsmanna Heilbrigðiseftirlits er 25, þar af 3 hjá hundaeftirliti.

Fjöldi starfsmanna á 100% launum hefur verið óbreyttur í yfir 20 ár. Þrátt fyrir fjölgun skráðra hunda hefur kvörtunum vegna hunda og handsömun lausra hunda aftur á móti fækkað gríðarlega eins á sjá má af eftirfarandi töflu:

Ártal Fjöldi kvartana Fjöldi hunda vistaðra í hundageymslu
1993 1037 173
2016 200 11

 

Það er er því nokkuð ljóst að verkefnum hundaeftirlits hefur fækkað í áranna rás. Hundaeigendur eru að standa sig betur og borgarbúar mun jákvæðari í garð hundahalds en áður.

Þar sem verkefnum hundaeftirlits hefur fækkað, sinna hundaeftirlitsmenn ýmsum öðrum störfum fyrir Reykjavíkurborg ótengdu hundahaldi. Slíkt er þó að fullu fært sem kostnaður við hundaeftirlit og hvergi kemur fram í ársskýrslum hversu stór partur af starfi hundeftirlitsmanna fer raunverulega í hundaeftirlit.

 

Hundum er líkt við morðvopn

Ég vil gera athugasemd við viðhorf Reykjavíkurborgar til hundahalds sem birtist m.a. í refsiviðurlögum hundasamþykktarinnar. Þar kemur fram að brot á hundasamþykktinni varða fangelsi allt að fjórum árum. Það sama á við í refsiviðurlögum í reglugerð um skotvopn. Við skráningu hunds þarf meðmæli tveggja valinkunnra manna. Það sama á við í skráningu á námskeið í meðferð skotvopna.

Munurinn er þó sá að eigendur skotvopna þurfa ekki leyfi frá nágrönnum til að vera með skotvopn á heimilinu, það þurfa hundaeigendur hinsvegar.

Skráning hunds

Ég hef fyrr á þessu ári gefið það opinberlega út að ég ætlaði ekki að skrá hundinn minn og greiða hundaleyfisgjöldin fyrr en fram væri kominn rökstuðningur fyrir kostnaði hundaeftirlits. Þar sem hundaeftirlitið hefur nú hótað því að fjarlægja hundinn minn og koma honum fyrir í hundageymslu, sé ég ekki aðra úrkosti en að skrá hundinn og greiða gjaldið. Ég er almennt löghlýðinn borgari, en ég tók upp á borgarlegri óhlýðni til að vekja athygli almennings á lögbroti Reykjavíkurborgar og þeim órétti sem hundaeigendur eru beittir. Ég tel eftir sem áður að lögbrot Reykjavíkurborgar sé mun alvarlegra en brot mitt gegn hundasamþykkt Reykjavíkurborgar.

Ég skrái hundinn minn hér með hjá hundaeftirliti Reykjavíkur, og greiði skráningargjaldið, með þeim fyrirvara að gjaldtakan sé lögleg. Ef annað kemur í ljós, krefst ég þess að ég, sem og aðrir hundaeigendur í Reykjavík, fái endurgreitt í samræmi við ofrukkun síðastliðinna ára.

Eins hvet ég borgarstjórn til þess að endurskoða regluverk Reykjavíkurborgar varðandi dýrahald og færa það til nútímans í takt við nágrannalöndin.

 

Virðingarfyllst,

Freyja Kristinsdóttir, dýralæknir

Kjalarlandi 7, 108 Reykjavík