Gunnhildur Jakobsdóttir:
Þekkingarmiðstöð Sjálfsbjargar (ÞMS) stóð fyrir hjálpartækjasýningu í Laugardalshöll dagana 5.-6. maí sem bar yfirskriftina Tækni-Lífstíll-Heilsa. Á sýningunni kynntu aðilar, sem bjóða upp á hjálpartæki og aðrar tæknilegar nýjungar fyrir fólki með hreyfihömlun, vörur sínar. Á sýningunni var auk þess kynning á hjálparhundum og íhlutun með aðstoð dýra.
Auður Björnsdóttir hjálparhundaþjálfari lærði hjálparhunda- og leiðsöguhundaþjálfun í Noregi fyrir um 20 árum síðan. Hún hefur komið að þjálfun hjálparhunda fyrir fólk með ólíkar þarfir. Fólk með hreyfhömlun notar hundinn t.d. sem líkamlegan stuðning, í að sækja og skila hlutum, draga af sér föt, kveikja og slökkva ljós og opna og loka dyrum. Einstaklingar með heyrnarskerðingu nota hund til þess að láta vita af umhverfishljóðum sem bregðast þarf við s.s. eins og síma, brunaboða eða dyrabjöllu. Auður hefur þjálfað marga hunda fyrir flogaveika, sem láta vita af væntanlegu flogi og einnig leiðsöguhunda fyrir Blindrafélagið. Hún sagði frá reynslu sinni af þjálfun og notkun hjálparhunda. Þrír hjálparhundar sem Auður hefur þjálfað voru viðstaddir með eigendum sínum og fengu gestir sýningarinnar að sjá hvernig þeir drógu hjólastóla og Arndís Hrund Guðmarsdóttir sýndi hvernig hún nýtur aðstoðar Ísars við að fara úr sokkum og sækja fyrir sig hluti.
Þá kynntu Gunnhildur Jakobsdóttir og Valgerður Stefánsdóttir fjölbreyttar leiðir við að nota hunda til þess að örva nám og efla líkamlega og andlega heilsu fólks. Gunnhildur og Valgerður stunda nám í Landbúnaðarháskólanum í Noregi um íhlutun með aðstoð dýra sem hefur á síðustu árum fest sig í sessi á Norðurlöndunum og Bandaríkunum. Á undanförnum árum hefur komið fram fjöldi rannsókna sem sýna fram á að umgengni við dýr og náttúru getur bætt heilsu fólks og að hundar séu sérstaklega vel til þess fallnir.
Líflegar og skemmtilegar umræður spunnust í kjölfar kynninganna. T.d. var rætt um réttindastöðu hjálparhunda og eigenda þeirra, lög og reglugerðir sem varða í hvaða rými og samgöngutækum hundar mega og mega ekki fara um í. Hér á landi er eru leiðsöguhundar skilgreindir sem hjálpartæki samkvæmt lögum og eru því undanskildir banni um aðgengi hunda að almenningssamgöngum og íbúðarhúsnæði. Hins vegar eru hjálparhundar ekki skilgreindir sem hjálpartæki og þurfa því að lúta almennum reglum um hundahald og hollustuhætti. Meðferðahundar á Norðurlöndunum og Bandaríkjunum fá leyfi til aðgengis að sjúkrastofnunum og er náið samstarf við astma og ofnæmissamtökin í hverju landi við að útbúa verklagsreglur og reglugerðir um slíkt starf.
Fólk var afar áhugasamt um að fá þessa viðbót í „verkfærakassann“ og lýstu margir sig tilbúna til samstarfs um að vinna að því að það mætti verða.