Félagsskapurinn mikilvægastur

Auður Björnsdóttir menntaði sig sem hjálparhundaþjálfari eftir að hafa eignast barn sem greindist með fötlun. Hundarnir sinna ótrúlega fjölbreyttum verkefnum.

Starri Freyr Jónsson starri@365.is skrifar í Fréttablaðið:

Hjálparhundar eru sérstaklega þjálfaðir hundar sem aðstoða fólk með ýmiss konar fötlun, t.d. blint og heyrnarlaust fólk, fatlað fólk og þá sem eru í hjólastól auk annars fólks sem hefur gagn af þeirri aðstoð sem hundurinn veitir segir Auður Björnsdóttir hjálparhundaþjálfari. Auður menntaði sig sem leið- söguhundaþjálfari í Noregi. Eftir að hún var flutt heim eignaðist hún sitt fyrsta barn sem greindist með fötlun. Í kjölfarið ákvað hún að þjálfa hund fyrir strákinn sinn. „Ég fór aftur til Noregs og fékk að fylgjast með hvernig þjálfun hjálparhunda fór fram og kom svo heim og fullþjálfaði hund fyrir son minn. Það er nauðsynlegt að hafa menntun í hundaþjálfun ef fólk ætlar að þjálfa þjónustuhunda auk þess sem það þarf þjálfun í að lesa hundana og fólkið og velja saman réttu einstaklingana.“

Fjölbreytt verkefni Þjálfun hjálparhunda tekur tíma að sögn Auðar, allt frá þremur mánuðum upp í eitt og hálft ár. „Tíminn fer mikið eftir því hvert verkefnið er og hvernig hundurinn er undirbúinn fyrir vinnuna áður er hann kemur til mín. Mikilvægt er að hlýðniþjálfa hundana vel, þeir þurfa að vera góðir í taumi og geta legið kyrrir þar sem þeim er sagt.“ Auk þess þurfa þeir að vera mjög vel umhverfisþjálfaðir og þola ýmislegt áreiti, s.s bílaumferð, fólk, önnur dýr og aðra hunda, hávaða og eril án þess að stressast upp og verða að halda einbeitingu og vinna þrátt fyrir truflun. „Þegar þessi atriði eru í lagi er hægt að byrja að þjálfa hundinn sérstaklega fyrir það verkefni sem honum er ætlað.“ Hún segir alls konar hunda notaða sem hjálparhunda en þeir sem eru algengastir séu Labrador og Golden og blöndur af þeim tegundum. Hundar af þessum tegundum eru af hentugri stærð, eru vingjarnlegir og duglegir til vinnu. Verkefnin sem hundarnir sinna eru fjölbreytt að sögn Auðar. „Um er að ræða alls konar verkefni sem hjálpa fólki í daglegu lífi, t.d. að sækja allt mögulegt, kveikja og slökkva ljós, opna dyr og loka og draga föt af fólki. Fyrir þá sem eru heyrnarskertir eru þeir þjálfaðir til þess að láta vita af síma, dyrabjöllu og reykskynjurum og fleiri við- vörunarhljóðum. Hundarnir leiða blinda fram hjá hindrunum og hjálpa þeim að komast örugglega sína leið.“

Eru til staðar Einnig eru þjálfaðir hundar sem Auður kallar þjónustuhunda sem eru þjálfaðir fyrir fólk sem glímir við flogaveiki, sykursýki, kvíða og þunglyndi. Auk þess er byrjað að þjálfa hunda fyrir einhverfu, ADHD og fólk með áfallastreituröskun. „En það sem er mikilvægast af öllu er sá félagsskapur sem þessir hundar veita eigendum sínum með því að vera til staðar, alltaf glaðir og ánægðir með hvert klapp á kollinn og treysta og elska skilyrðislaust fólkið sitt.“ Á hjálpartækjasýningunni Tækni – lífsstíll – heilsa sem haldin er í Laugardalshöll í dag og á morgun mun Auður halda fyrirlestur um þjálfun hjálparhunda og mikilvægi þeirra. Henni til aðstoðar verða nokkrir af nemendum hennar og eigendur þeirra auk þess sem Gunnhildur Jakobsdóttir og Valgerður Stefánsdóttir munu kynna hvernig nota má hunda sem úrræði til þess að örva nám og bæta líkamlega og andlega heilsu. „Á undanförnum árum hefur komið fram fjöldi rannsókna sem sýna fram á að umgengni við dýr og náttúru bætir heilsu fólks og að hundar eru sérstaklega vel til þess fallnir.“

http://www.visir.is/paper/fbl/170505.pdf

http://hundalifspostur.is/2015/04/20/hjalparhundar-eru-ometanlegir