LESIÐ FYRIR SPÓA

Jórunn Sörensen:

Á vorönn 2017 hlustaði Spói á börn lesa fyrir sig. Þetta verkefni er kallað „Lesið fyrir hund“ og er á vegum Vigdísar (Vinir gæludýra á Íslandi) sjá hlekk hér fyrir neðan. Vigdís sér einnig um verkefnið „Yndislestur“ sem fer fram í Borgarbóksafninu í Grófinni en þar hóf Spói sinn feril sem lestrarhundur.

Tveir hundar tóku þátt í verkefninu og mættu með eiganda sínum á ákveðnum tíma einu sinni í viku í félagsmiðstöð úti á Seltjarnarnesi. Spói er ungur íslenskur fjárhundur. Hinn hundurinn er roskin labradortík. Þau urðu strax afar samrýmdir vinnufélagar. Börnin sem tóku þátt í verkefninu eru í grunnskóla. Fjögur börn mættu – tvö í einu og lesa fyrir sitt hvorn hundinn.

Áður en við Spói mættum fórum við alltaf í góða gönguferð. Það fannst honum skemmtilegt þá gat hann „lesið dagbók“ hundanna á Nesinu og kynnst öðru umhverfi en því sem hann er vanur. Eftir hvern vinnudag Spóa ók ég að fjörunni við Gróttu og við gengum eftir henni – eða réttara sagt, ég gekk en hann hljóp. Hann hefur alltaf haft mjög gaman af því að fara í þessa fjöru, ekki síst ef hann finnur dautt hrognkelsi sem hann getur draslast með eða litla krabba sem hann hakkar í sig. Einnig finnst honum gaman að þvælast um með langa þarastöngla.

Fyrir Spóa las stúlka og drengur. Stúlkan er vön hundum svo hún og Spói náðu strax vel saman. Við sátum í notalegum sófa og Spói lá á milli okkar. Hún faðmaði hundinn oft að sér eða lét hendina sem ekki hélt á bókinni liggja á honum og strauk.

Drengurinn, aftur á móti, er með ofnæmi fyrir hundum og ekki vanur þeim. Engu að síður var hann valinn, í samráði við fjölskyldu sína, til þess að taka þátt í verkefninu. Aðeins var tekið fram að ef hann klappaði hundinum ætti hann að þvo sér hendurnar á eftir. Því höfðum við það þannig í okkar lestrarstund að ég sat í miðjunni, Spói öðru megin en drengurinn hinum megin. Þannig gekk þetta mjög vel og drengurinn teygði bókina til Spóa til þess að sýna honum myndirnar þegar hann var búinn að lesa blaðsíðuna. Einnig vildi hann finna hve hundurinn er mjúkur og þvoði sér bara um hendur á eftir. Drengurinn varð sífellt glaðari að hitta Spóa eftir því sem vikurnar liðu. Umsjónarmaður verkefnisins á vegum skólans var í góðu sambandi við fjölskyldu drengsins og það komu sem betur fer aldrei fram nein ofnæmiseinkenni hvorki í eða á eftir lestrarstund.

Vikurnar liður og þar kom að þessi börn kvöddu lestrarhundana sína og önnur fjögur börn tóku við – tvö fyrir hvorn hund. Þau sem komu í hlut Spóa í þetta sinn, drengur og stúlka, voru bæði vön hundum og fengu ekki nóg af því að sýna honum ástúð.

Í lok annar var haldinn mikill útskriftar- og hátíðisdagur. Þá mættu öll átta börnin sem höfðu lesið fyrir hundana tvo. Fyrst var haldið upp á Valhúsahæð. Hundarnir voru í taumi og skiptust börnin á að halda í tauminn. Hann var ekki síður áhugasamur, drengurinn með hundaofnæmið, að fá að halda í taum Spóa. Þegar komið var upp á hæðina fengu börnin að leika við hundana. Ég tók með mér eitt uppáhaldsleikfang Spóa – óskemmanlegan frisbídisk frá Kong og börnin skiptist á að þeyta honum upp í loft. Síðan var haldið til baka og þar beið okkar veisla. Samverustundinni lauk með því að hvert og eitt barn var kallað upp og því afhent stór innrömmuð mynd af sér að lesa fyrir „sinn“ hund. Hundarnir fengu nammigjafir. Síðan kvöddumst við og einstaklega ánægjulegt var að sjá hve mikils virði þessi samvera með hundunum hafði verið börnunum.

Fyrir mig var alveg sérstaklega lærdómsríkt og gefandi að upplifa hvernig börnin nutu þess að lesa fyrir hund. Og ekki síður hve hundur og barn nutu samvistanna. Það er ekki nokkur vafi á því að slík lestrarstund barns fyrir hund er því mikils virði – enda sýna rannsóknir það.

 

http://hundalifspostur.is/2016/05/26/lesid-fyrir-hund-3/