Gagnrýna sinnuleysi

Gagnrýna sinnuleysi gagnvart kvalinni tík á flótta

visir.is/ Garðar Örn Úlfarsson

,, Af fyrirliggjandi gögnum máls má ráða sem svo að dýrið hafi verið á flótta frá kvalarstað og verið að leita sér skjóls og matar,“ segir í bréfi um rottweiler-tík sem tvær stúlkur fundu í Kópavogi um miðjan júní.

Ofangreind tilvitnun er úr bréfi heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis til atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins um aðstæður tíkurinnar og viðbrögð annarra stofnana í málinu.

Maður á leið úr vinnu á Smiðjuvegi ræddi við stúlkurnar sem fundu tíkina. Þær sögðu hana veika og ekki geta gengið.

„Stúlkurnar höfðu reynt að fá aðstoð lögreglu við að sinna tíkinni en munu ekki hafa fengið nein viðbrögð við þeirri bón,“ segir í bréfinu. „Úr varð að borgarinn tók tíkina með sér heim þar sem hann sinnti henni næstu daga. Tíkin var í fyrstu mjög lasburða, með blóðugar hægðir og þvag.“

Þá segir að „borgarinn“ hafi farið með tíkina á dýraspítala og reynt að hafa upp á eigandanum en ekki tekist. Tíkin var þó örmerkt. Að fjórum dögum liðnum hafi hann snúið sér til heilbrigðiseftirlitsins sem hafi komið skepnunni fyrir í hundaathvarfi. Sérfræðingar Matvælastofnunar hafi skoðað dýrið og talið það vanrækt og ekki eiga að fara til eiganda síns. Tíkin var grindhoruð.

Heilbrigðisnefndin segir ýmislegt athugavert við atburðarásina og segist vilja koma á framfæri við ráðuneytið athugasemdum um „viðbrögð og vinnubrögð lögreglu“ og um þá ákvörðun Matvælstofnunar að beita eiganda hundsins ekki vörslusviptingu.

„Ungar stúlkur finna sjúkt dýrið og reyna, að sögn, að ná sambandi við lögreglu. Aðstoð er neitað samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja. Fyrir hönd sveitarfélagsins er lýst alvarlegum áhyggjum vegna þessa,“ segir í bréfi heilbrigðisnefndar sem bað ráðuneytið að skoða meðferð málsins og beita sér fyrir úrbótum. „Verður að telja það sérstaklega ámælisvert að tilkynning um sært dýr sem berst lögreglu frá börnum sem eru langt undir átján ára aldri skuli hafa verið látin afskiptalaus.“

Þá segir að eini möguleiki sveitarfélagsins sé að afhenda dýrið þeim sem telji sig umráðamann og gefi sig fram. Til þess kom þó ekki.

„Dýrið var svo sjúkt að því varð ekki bjargað þrátt fyrir að því hefði verið komið í fóstur,“ svarar Guðmundur H. Einarsson, framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlitsins, aðspurður um afdrif tíkurinnar.

Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið segist í bréfi til heilbrigðisnefndar ekki vilja svara um þetta mál sérstaklega en kveður hlutverk stofnana skýr í lögum. Lögregla eigi að taka við tilkynningum um dýr sem eru sjúk, særð, í sjálfheldu eða bjargarlaus. „Lögreglu er þá skylt að kalla til dýralækni ef ástæða er til,“ segir ráðuneytið. Matvælastofnun eigi að hafa eftirlit og grípa til ráðstafana.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.

http://www.visir.is/gagnryna-sinnuleysi-gagnvart-kvalinni-tik-a-flotta/article/2016160919540