Hjartahlýr afrekshundur

Morgunblaðið 16. nóvember, Anna Lilja Þórisdóttir annalilja@mbl.is
Hann Skrúður er fjölhæfur og kemur víða við
Voff voff Elma situr á milli feðganna Tinds og Skrúðs sem er henni á vinstri hönd. Á borðinu fyrir framan þau er hluti verðlaunanna sem feðgunum áskotnuðust á hundasýningu Hundaræktunarfélags Íslands um helgina.
Þetta er hann Stefsstells-Skrúður, 10 ára gamall íslenskur fjárhundur, sem kom, sá og sigraði á hundasýningu Hundaræktunarfélags Íslands um síðustu helgi þar sem hann fékk sjö verðlaun, þeirra á meðal fyrir að vera besti hundur og besti öldungur sýningarinnar. Eigandi Skrúðs, Elma Cates, segir hundinn í algerum sérflokki.  “Frá upphafi hefur hann náð mjög sterkri tengingu við fólk, sér í lagi börn með sérþarfir. Hann passar vel upp á þau, það er eins og hann myndi sérstakt samband við þau, þar sem börn og hundur tjá sig án orða,” segir Elma.
Þau skilja hvort annað
Eitt þeirra barna sem hafa notið góðs af þessum eiginleikum Skrúðs er Elsa Lind, barnabarn Elmu. Hún er með ódæmigerða einhverfu og tjáði sig lítið framan af. Frá því að fundum þeirra bar fyrst saman fylgdi Skrúður henni við hvert fótmál og svaf hjá henni um nætur. Í byrjun skólagöngu Elsu Lindar nutu kennararnir liðsinnis Skrúðs til að ná til hennar og hann var henni stoð og stytta í lestrarnáminu, þar sem hann lagðist hjá henni og hlustaði á hana lesa. Krakkarnir í bekknum hrifust af þessum mektarhundi, hann styrkti Elsu Lind félagslega og Elma segir að hann hafi átt stóran þátt í því að hún byrjaði að tala níu ára gömul.  “Þessi vinátta er alveg einstök,” segir Elma. “Þau skilja hvort annað fullkomlega.” Gerð var stutt heimildarmynd um vináttu Elsu Lindar og Skrúðs sem heitir: Hún, hundurinn og heimurinn og hana má sjá á YouTube.
Vinur í raun
Fleiri börn eru svo lánsöm að njóta vináttu Skrúðs, því á heimili Elmu eru nú sex fósturbörn, þar af fjögur með sérþarfir, sem Skrúður lætur sér ákaflega annt um.  “Hann örvar þau þegar það á við og róar þegar þau þurfa á því að halda,”  segir Elma.Skrúður hefur eignast um 60 afkvæmi. Eitt þeirra, Ístjarnar-Tindur, var á áðurnefndri sýningu um helgina og var ekki síður sigursæll en faðirinn.  “Hann Skrúður minn er ennþá á rakkalista og er enn býsna eftirsóttur,” segir Elma og hlær.Skrúður hefur fengist við fleira en sýningahald, að eignast hvolpa og vinna með börnum, því líklega er hann með menntaðri hundum á landinu. Auk þess að hafa farið á fjölmörg hlýðninámskeið er hann með ýmiskonar sérnám á ferilskránni eins og t.d. spora- og hlutaleit. Hann hefur undirgengist ströng próf til að mega hampa nafnbótinni Íslenskur hlýðnimeistari, hann hefur unnið til fjölmargra verðlauna í gegnum tíðina og að sögn Elmu er heimilið nánast undirlagt af ýmsum verðlaunagripum. “Hann á þetta allt saman svo sannarlega skilið. En það sem okkur þykir einna vænst um eru verðlaunin Afrekshundur ársins
2014 sem hann fékk eftir að myndin um hann og Elsu Lind var gerð,” segir Elma.
http://pappir.mbl.is/index.php?alias=IS-MBL&s=8520&p=195495
15078999_10154117472586794_6427746738563219646_n  Skrúður, ljósmynd: Ágúst Ágústsson 13. nóv 2016