Brynhildur Inga skrifar fyrir yngstu lesendur Hundalífspóstsins
Hænurnar gátu labbað út og inn um glugga á turninum sem fóstra opnaði á morgnana og lokaði á kvöldin þegar hún var búin að ganga úr skugga um að allar væru komnar inn. Hænurnar voru ekkert hræddar við okkur hundana og þeim var alveg sama þó við værum stundum að stelast í matinn hjá þeim þegar fóstra gaf þeim afganga af brauði, kartöflum, baunum og öllu mögulegu. En þeim var ekki alveg sama um kindurnar og kálfana því kindurnar og sérstaklega kálfarnir áttu það til að hlaupa á eftir þeim.
Einu sinni kom það fyrir að nágranni okkar kom til okkar með eina hænu sem hafði hlaupið inn í fjárhús hjá honum.
Hænan varð ákaflega fegin að komast í hænsnahópinn sinn aftur. Hænur geta ekki flogið mikið en þó kom það einu sinni fyrir að ein hænan flaug uppá þak á fjósinu. Hún hefur líklega verið að flýja undan kálfunum og einhvernvegin komist upp á þakið.
Við hundarnir fengum oft að fara með fóstru í hænsnakofann til þess að sækja eggin.
Einu sinni hoppaði Móri uppí einn varpkassann og sat þar dágóða stund eins og hann héldi að hann gæti verpt eggi ef hann sæti þar nógu lengi. Hænurnar voru nú ekki ánægðar með þetta uppátæki hans og fóstra gat ekki annað en hlegið og sagði honum að hundar gætu ekki verpt eggjum alveg sama hvað þeir sætu lengi í varpkassa.
Haninn var nú ekki alltaf hress með það að við kæmum þangað inn og gerði sig oft líklegan til þess að ráðast á okkur. Fóstra fylgdist alltaf vel með okkur og ef hún sá að það stefni í læti þá bað hún okkur vinsamlegast um að fara út úr hænsnahúsinu.
Einu sinni voru voðalega mikil læti inni hjá hænunum og kom þá í ljós að það var lítil mús þar inni. Hænurnar eltu hana út um allt og hættu ekki fyrr en þær náðu að reka hana út.