Korpur segir börnum sögur úr sveitinni – 4

Brynhildur Inga skrifar fyrir yngstu lesendur Hundalífspóstsins.

Eitt sumarið fékk fóstra nýja tík hjá vinkonu sinni. Þetta var voðalega lítil og krúttleg tík sem hét Hrifla. Hún sagði við okkur hin þegar hún kom að hún ætlaði að eiga heima hjá okkur og ráða öllu á heimilinu en Snögg sagði henni að það gengi nú ekki. Kara og hún sjálf væru þær sem réðu öllu. Kara var nú orðin ansi gömul og þreytt og vildi bara fá að sofa. Henni fannst mjög gott að liggja úti í garði við steinana og sofa þar þegar veðrið var gott. Þegar hún var sofandi úti vorum við hin alltaf að kíkja til hennar til að sjá hvort það væri ekki allt í lagi með hana. Kara var með krabbamein svo það þurfti að passa vel uppá hana. Kara var alltaf svo kát og hress og góð við allar skepnurnar á bænum. Hún var líka alltaf svo góð við mig og lék stundum við mig og kenndi mér góða hundasiði.

En svo einn góðann sumardag  dó hún. Það var mikil sorg hjá okkur hinum og sérstaklega hjá Snögg sem var dóttir hennar og þekkti ekkert annað en að hafa mömmu sína hjá sér. Snögg var nú samt heppin að hafa syni sína og dóttir hjá sér og fleiri hunda og svo auðvitað mannfólkið á bænum sem þótti ákaflega vænt um hana.

ný tík 1

 

Núna þegar Kara var dáin var Snögg elsta tíkin og var því foringinn í hundahópnum. Hún var ákveðin en góð við okkur hin. Hún vildi passa uppá allt ungviðið á bænum og þrífa alla hvort sem það voru kálfarnir, lömbin, hænurnar eða barnabörnin hennar fóstru. Okkur þótti ákaflega gaman að hafa stelpurnar hjá okkur þær Kristínu og Bryndísi. Þær voru svo góðar við okkur og fóru stundum með okkur í langa göngutúra upp í fjall eða út á tún. Stundum fengum við einnig að fara með í berjamó og týndum þá fullt af berjum en reyndar bara upp í munninn á okkur því okkur þykja ber svo góð. Stundum komu Inga og Hildur sem eru  frænkur hennar fóstru   og fleirri ættingjar í heimsókn og tóku til hendinni, sem þýðir að hjálpa til.

Ættingjarnir hjálpuðu stundum við fóðurgjafir, þrif, kúa eða nautgriparekstur, heyskapinn og smölun.  Smaladaginn þurfti að ganga lengst upp í Ljósufjöll og dreifðu smalarnir sér út um allt. Sumir fóru uppá fjallstopp aðrir út með Laxánni, í flóann og víðar því ekki vildum við að féð rinni vitlausa leið. Það varð að hóa og láta hundana gelta og reka það áfram heim í fjárhús svo hægt væri að telja það og sjá hvort það vantaði einhverja kind. Það var líka gott að ná fénu inn áður en það kæmu vond vetrar veður.

ný tík 2

 

Á bænum voru heimalingar sem eltu okkur hundana á röndum og fóru stundum með okkur í göngutúr. Einn heimagangurinn fékk nafnið Grímur. Hann var afskaplega blíður og góður og setti aldrei hornin í okkur né börnin, síðan var það  Búri sem vildi gjarnan fá að elta okkur og láta klappa sér og að lokum hún Skíma litla.

 

ný tík 3

Ég held bara að hún hafi haldið að hún væri hundur því hún elti okkur um allt og svaf á tröppunum á bænum. Það var ekki nokkur leið að fá hana til þess að vera með hinum kindunum eða sofa í fárhúsinu því hún vildi bara vera með okkur hundunum. Ekkert þýddi að reka heimalingana á fjall því þá myndu þeir vera í vandræðum með að ná sér í mjólk þó svo þeim takist nú einstaka sinnum að stela sér sopa hjá kindunum. Kindurnar eru fljótar að setja hausinn í heimalingana og skutla þeim í burtu þegar þær taka eftir því að það er ekki þeirra eigin afkvæmi sem er að drekka, þeim er nefnilega ekkert um það gefið að annarra kinda börn (lömb) séu að fara á spena hjá þeim og stela mjólkursopa.

Þess vegna verður alltaf að gefa þeim pela heima við. Stelpurnar voru voðalega duglegar við að hjálpa til við að gefa pelana.

ný tík 4

 

Einu sinni kom fólk upp á hlað til okkar og vildi gefa fóstru einhverja bæklinga. Um leið og heimalingarnir sáu fólkið hlupu þeir í áttina að fólkinu því þeir vildu fá að heilsa öllum sem komu í heimsókn. En fólkið var víst ofboðslega hrætt við allar skepnur og ekki bætti úr skák að Snögg sem brosti alltaf sínu blíðasta þegar hún heilsaði fólki hljóp einnig á eftir fólkinu sem hljóp eins hratt og það gat hringinn í kringum vélaskemmuna með heimalingana og Snögg hlaupandi á eftir sér og síðan hljóp fólkið á bak við fóstru sem gat varla hamið hláturinn. Þetta var víst ansi skondin sjón. En það endaði með því að fólkið hljóp að bílnum sínum og henti sér inn í hann og svo brunuðu þau í burtu. Þeim leist ekkert á það af hafa brosandi hund og skoppandi lömb nálægt sér. En, þau gleymdu alveg að láta fóstru hafa þessa bæklinga. Það er þannig með suma hunda að þeir brosa svo mikið að það skín í allar tennurnar á þeim en um leið þá setja þeir eyrun aftur og dillla rófunni sem þýðir að þeir séu voðalega góðir.

 

ný tík 5

 

Með kveðju
Brynhildur Inga Einarsdóttir, hundaþjálfari
borg1@centrum.is
www.reykjadals.is