HRFÍ og heimssýningin í Kína

Jórunn Sörensen:

HRFÍ hélt almennan félagsfund 9. september sl. til þess að ræða málefni varðandi FCI og heimssýninguna í Kína. Á aðalfundi FCÍ í júní sl. var Kína meðal þeirra landa sem sóttust eftir því að halda sýninguna og var kosið. Eins og þeir vita sem fylgst hafa með umræðunni mótmæltu bæði norski og sænski kennelklúbburinn því harðlega að sýningin yrði haldin í Kína vegna hundaáts og illrar meðferðar á hundum sem viðgengst þar í landi. Danski kennelklúbburinn mótmælti hins vegar ekki og ákvað að standa með þeirri ákvörðun sem tekin var á aðalfundi FCI.

Herdís Hallmarsdóttir formaður HRFÍ rakti atburðarásina frá því að hún tók við formennsku og sagði frá harðorðum mótmælum sem félagið sendi frá sér í tengslum við hina árlegu hundaátshátíð í Kína. Einnig sagði hún frá þeirri miklu ólgu og spennu sem hún og Fríður Esther Pétursdóttir framkvæmdastjóri félagsins fundu fyrir þegar þær sátu aðafund FCI í tengslum við ágalla í regluverki sambandsins og ógegnsæi.

Spurt var um hin margumæddu „gullkort“ sem Kínverski kennelklúbburinn dreifði á fundinum og hvort á þau mætti líta sem mútur. Herdís taldi svo ekki vera þar sem þeim var dreift eftir að kosið var um land fyrir heimssýninguna.

Í umræðum um málið kom m.a. fram að hundar frá ákveðnum löndum sem koma á sýninguna í Kína þurfa að fara í viku sóttkví. Einnig þurfa hundaeigendur sem fara á sýninguna með hunda að hafa það í huga að mörg lönd banna innflutning á hundum frá Kína.

Það kom einnig fram að HRFÍ mun ekki senda neina fulltrúa frá félaginu til Kína, hvorki á hundasýninguna né aðalfundinn sem haldinn er um leið – það væri einfaldlega of dýrt. Þá var gerð athugasemd um að HRFÍ hefði eitt atkvæði á aðalfundi FCI og hvað yrði um það atkvæði. Herdís upplýsti að Svíar myndu hafa okkar umboð.

Eins og fram kemur hér í upphafi er mikil óánægja innan FCI og á fundi Evrópuhluta samtakanna var samþykkt yfirlýsing. Sjá tengilinn hér sem tekinn er af heimasíðu HRFÍ:

http://www.hrfi.is/freacutettir/yfirlysing-aalfundar-evropuhluta-fci-um-framti-fci

Aðspurð hvort HRFÍ hefði tekið afstöðu í málinu, eins og kennelklúbbar Noregs og Svíþjóðar og mótmælt því að umrædd hundasýning yrði haldin í Kína, svaraði Herdís því til það væri ekki þörf á því.

Það er okkur félagsmönnum mikið gleðiefni ef ný stjórn HRFÍ ætlar að halda opna fundi um hin ýmsu málefni er varða hundahald.