Hvatning frá formanni Hundaræktarfélags Íslands

Herdís Hallmarsdóttir, formaður Hundaræktarfélags Íslands:

Kæru félagar,

Miðvikudaginn 17. maí verður haldinn aðalfundur hjá félaginu okkar. Fundurinn verður haldinn á Hótel Cabin í Borgartúni.

Þarna hittist grasrót félagsins og skiptist á skoðunum um starf félagsins og tekur ákvarðanir sem skipta miklu fyrir áframhaldandi starf innan félagsins. 

Á aðalfundinum mun stjórn félagsins gera grein fyrir starfinu síðasta ár. Þá koma til umfjöllunar tillögur að breytingum á lögum félagsins sem skipta miklu um starf félagsins. Þannig hefur staðið yfir endurskoðun á reglum um starf ræktunardeilda í samræmi við stefnuskrá félagsins.  Eins leggur stjórn að fengnu áliti laganefndar til nýbreytingar, annars vegar stofnun úrskurðarnefndar til að fjalla um ágreining vegna viðskipta með hunda og hins vegar skipun umboðsmanns félagsmanna sem ætlað er að vera hagsmunagæsluaðili allra félagsmanna.

Þá er á fundinum kosið í stjórn félagsins.  Þetta árið er kosið um formann félagsins til næstu tveggja ára.  Þá er kosið um tvo meðstjórnendur og varamenn þeirra til sama tíma. Þetta árið gefa sex aðilar kost á sér að taka þátt í stjórn félagsins. Það er svo sannarlega ánægjulegt að svo margir skuli vilja starfa í stjórn félagsins okkar.

Það er von mín að sem flestir sjái sér fært að mæta á fundinn og taka þátt enda mikilvægt að sem flestir félagsmenn komi að lykilákvörðunum félagsins okkar.

Með góðri kveðju,

Herdís.