Málþing FÁH

Jórunn Sörensen:

 

Málþing FÁH

Félag ábyrgra hundaeigenda FÁH hélt málþing „Hvernig getum við gert Ísland að betra hundasamfélagi“ 19. nóvember 2016. Rakel Linda Kristjánsdóttir formaður félagsins setti málþingið klukkan 12 og síðan var gengið til dagskrár. Dagskráin hefur áður verið birt á Hundalífspóstinum en byrjað var á fjórum stuttum kynningum áður en sjálft málþingið hófst með málstofum.

 

KYNNINGAR

„Lesið fyrir hund“

Ragnheiður Elín Clausen kynnti félagið VIGDÍS – Vinir gæludýra á Íslandi og hvernig það starfar í samstarfi við erlend samtök en verkefni þeirra er að hundar hjálpa börnum við lestur á þann hátt að barn les fyrir hund. Þetta verkefni hefur áður verið kynnt hér á Hundalífspóstinum og er slóð á þá kynningu hér fyrir neðan.

 

„Er þörf á dýraathvarfi á Íslandi?“

Þóra Sif Sigurðardóttir sagði söguna af Gordon, einum þeirra hunda sem í júlí sl. var bjargað ásamt mörgum köttum og öðrum hundum úr hræðilegum aðstæðum. Hún tók þennan hund að sér og lýsti því hve illa hann var farinn andlega og líkamlega en hve sterkt hann tengdist henni. Hann var orðinn 10-12 ára, mikið veikur og lifði ekki nema í tvær vikur eftir að honum var bjargað. Þóra Sif útskýrði hve mikilvægt það væri að til væri net sem gæti tekið við hundum sem bjargað væri úr álíka aðstæðum.

 

„Rauða kross hundar“

Aðalheiður Jónsdóttir hjá Rauða krossinum í Kópavogi sem sér um hundaverkefni samtakanna sagði frá því mikla gagni sem hundar gera í því að rjúfa félagslega einangrun fólks. Hundarnir fara á einkaheimili, hjúkrunarheimili, sambýli og fleiri staði og nærveru þeirra njóta bæði ungir jafnt sem aldnir. Einnig útskýrði Aðalheiður undanfara þess að hundur geti orðið heimsóknarhundur – bæði gagnvart eiganda hundsins og hundinum. Nú eru 50 heimsóknarhundar skráðir en 40 fara í vikulegar heimsóknir. Hún hvatti þátttaendur að íhuga málið – það væri ævinlega þörf á heimsóknarhundum.

 

„Hekla skilur hundamál“

Hulda Jóns Tölgyes höfundur bókarinnar sagði því hvernig hugmyndin að bókinni varð til fyrir þremur árum þegar hún, hundaeigandinn, kynntist með manni sem átti dreng sem aldrei hafði kynnst hundum. Þá tók hún eftir hve mikið skorti á að drengurinn skyldi hundinn og gæti umgengist hann á réttan hátt.

Bókin segir frá lítill stúlku sem fer ein í langa gönguferð með stóra hundinn sinn og lendir í alls kyns ævintýrum og uppákomum á leiðinni. Bókin hefur nýlega verið kynnt á Hundalífspóstinum og er slóð á þá kynningu hér fyrir neðan.

Hulda lagði áherslu á að bókin væri ekki fræðirit heldur ævintýri og ætluð 4-7 ára börnum. Það kemur hins vegar ekki fram í bókinni – hvorki sem aðfararorð né á baksíðu en það hefði verið nauðsynlegt.

 

MÁLSTOFUR

Gert var ráð fyrir að málstofur yrðu fimm:

  1. Hundagerði/svæði
  2. Hundagjöldin og tengd þjónusta
  3. Áhrif hunda á heilsu manna
  4. Hundar og samgöngur
  5. Hundamenning á Íslandi

Þátttakendur völdu hvaða málstofu þeir vildu taka þátt í og í ljós kom að ekki var næg þátttaka í málefnin: „Hundagjöldin og tengd þjónusta“ og „Hundar og samgöngur“ því var þeim atriðum bætt við málstofu númer fimm: „Hundamenning á Íslandi“ sem undirrituð tók þátt í. Því er sagt ítarlegar frá þeim umræðum en aðeins samantekt um hinar tvær.

 

 „Hundar og samgöngur“

Sigurlaug Kristjánsdóttir reið á vaðið og sagði frá „Verkefnishandbók – Gæludýr í Strætó?“ Hún sagði frá því hvernig hún hefði fundið það á eigin skinni hve þarft og gott það væri ef hægt væri að taka hundinn sinn með sér í Strætó. Það var eftir að hún eignaðist barn og fór þá að nota strætó meira – gott að skella sér í strætó og skreppa niður í bæ með barnið en þá kom þessi spurning: „Hvað með hundinn – ég vil taka hann með en má það ekki!“ Verkefnishandbókin hefur verið birt á Hundalífspóstinum og er slóðin birt fyrir neðan.

Það urðu miklar umræður um þetta mikilvæga mál og margir sem búið hafa í öðrum löndum, lýstu jákvæðri reynslu sinni af hundum í almenningsfarartækjum, hvort sem um var að ræða strætisvagn eða lest.

Sigurlaug sagði einnig frá samtökunum IPATA – International Pet and Animal Transportation Association – Samtök vegna dýra á ferðalagi. (www.ipata.org). Þessi samtök voru stofnuð 1979 og hafa nú 350 skrifstofur í 80 löndum. Markmið þeirra er að dýr séu flutt á mannúðlegan hátt þannig að dýrunum líði sem best.

Inn í þessa umræðu fléttaðist umræðan um hina löngu einangrun sem við, Íslendingar, krefjumst þegar hundar og kettir eru fluttir til landsins. Í umræðum kom fram að í ákveðnum löndum er tímalengd undirbúningsins er látin ganga „í hina áttina“ þ.e.a.s., krafist er svo og svo margra heimsókna til dýralæknis og rannsókna áður en dýrið er sent úr landi og einangrun í landinu sem dýrið fer til styttist þá til muna.

Það fór auðvitað ekki hjá því að rætt væri um hina gífurlega háu tíðni ofnæmis sem hrjáir Íslendinga miðað við íbúa annrra landa. Einn þátttenda sagði frá því að eitt sinn er hundarnir hennar voru úti í garði gekk telpa fram hjá. Þegar hún kom auga á hundana öskraði hún upp: „Ofnæmið“ og hljóp burt í hendingskasti. Það voru að minnsta kosti fimm metrar frá hundunum og til barnsins. Ég játa að ég fyllist skelfingu ef ég hugsa til þess að börn séu alin upp við slíkt ofstæki – þótt þau hafi hugsanlega ofnæmi fyrir einhverju. Í þessu sambandi er gott að velta fyrir sér hvernig þessir alvarlega veiku ofnæmissjúklingar fara að þegar þeir ferðast til annarra landa.

Í lok umræðunnar velti fólk því fyrir sér hvað gerist næst? Í verkefnahandbókinni kemur fram að samþykkt var að gera tilraun í eitt ár en síðan hefur ekkert gerst. Það er ljóst að Strætó mun ekki taka fyrsta skrefið – það er hundaeigenda sjálfra.

 

Hundagjöldin og tengd þjónusta

Jóhanna Svala Rafnsdóttir stjórnaði umræðum um þennan lið. Í stuttu máli sagt voru þátttakendur máþingsins afar ósáttir við hið háa leyfisgjald en á misjöfnum forsendum. Sumum finnst gjaldið of hátt og ekki í nokkru samræmi við þjónustuna sem hundaeigendur fá. En öðrum finnst það að leggja skatt – eða hvaða nafni sem þetta er kallað – á hundaeigendur alls ekki réttlátt. Sem almennur borgari í landinu áttu rétt á þjónustu sem hundaeigandi.

 

Hundamenning á Íslandi

Guðfinna Kristinsdóttir fór yfir nokkur ártöl sem varða hundahald í Reykjavík – allt frá árinu 1924 þegar hundahald var bannað í borginni að 1984 þegar fólk gat sótt um undanþágu frá banninu og til ársins 2006 þegar fyrstu málgrein samþykktar um hundahald var breytt frá því að hundahald væri bannað en hægt að sækja um undanþágu, í að hundahald væri leyft og hægt væri að sækja um slíkt leyfi. Fram kom það sjónarmið að í raun væri enginn munur frá því að fá undanþágu frá banni og þessum þessum ströngu skilyrðum sem fylgja því að fá leyfi að eiga hund. Það væri fyrst og fremst orðalagið sem væri jákvæðara.

Skráðir hundar á landinu árið 2006 voru 6000 og þar af 3.300 í Reykjavík. Skráðir hundar í Reykjavík árið 2014 voru 4900 og áætla yfirvöld að um helmingur hunda í borginni séu skráðir. Á það var bent að samkvæmt seldu hundafóðri stenst það engan veginn og nær sannleikanum sé að hundar hér á landi skipti tugum þúsunda og eru nefndar tölur allt að 60.000. Samkvæmt því eru aðeins 10% hunda skráðir. Stóra spurningin er hvort svokallað hundaleyfisgjald er ekki fallið um sjálft sig?

 

SAMANTEKT FRÁ HINUM MÁLSTOFUNUM

Hundagerði/svæði

Freyja Kristinsdóttir skýrði í stuttu máli frá því sem fram kom í málstofu 1. Opin svæði þar sem vera má með lausa hunda eru of langt í burtu frá byggð og gerðin eru bæði of lítil og of fá en t.d. eru aðeins þrjú hundagerði í Reykjavík. Einnig er staðsetning þeirra ekki góð, undirlagið ekki gott og í raun ekkert við að vera í þessum gerðum. Fram komu tvö dæmi þar sem hundaeigendi sagði frá því að þegar hann fór með hundinn sinn inn í eitt af þessum gerðum hefði hann aðeins horft í kringum sig og svo á eigandann. Hundurinn áttaði sig engan veginn á því að þarna átti hann að hlaupa um og hafa gaman.

 

Áhrif hunda á heilsu manna

Síðast kynnti Stefán H. Kristinsson samantekt umræðna um jákvæð áhrif hunda á heilsu manna. Í málstofunni kom fram það sem við öll sem eigum hund, vitum að hundurinn okkar hefur afar góð áhrif á bæði andlega og líkamlega heilsu okkar. Jafnvel er talið að hundar eigi þátt í að mörgum mannslífum er bjargað á ári hverju.

 

LOKAORÐ

Það voru um 20 manns sem mættu á málþingið sem var haldið í notalegri kennslustofu í einni af byggingum Norðlingaskóla. Tekið var á móti fólki með góðum veitingum og prentaðri dagskrá ásamt yfirliti yfir málstofur.  Í lok málþingsins var dregið í happdrætti úr nöfnum þeirra sem höfðu skráð sig.

Málþingið er stjórn FÁH til mikils sóma. Að efna til almennra umræða um mál okkar hundaeigenda er ákaflega þarft og nú er aðeins að óska þess að það brýni þátttakendur í aðgerðir til bóta á hundahaldi í þéttbýli á Íslandi.

myndir frá málþinginu:

 

http://hundalifspostur.is/2016/05/26/lesid-fyrir-hund-3/

http://hundalifspostur.is/2016/11/04/bokarkynning-hekla-skilur-hundamal