Bréf frá FÁH til Umhverfisráðuneytisins

FÁH

Félag ábyrgra hundaeigenda

fah.is fah@fah.is

 

Umhverfisráðuneytið

Skuggasundi 1

150 Reykjavík

 

Reykjavík 8. júní 2015

 

  1. maí sl. samþykkti borgarstjórn Reykjavíkur eftirfarandi tillögu:

Borgarstjórn samþykkir að beina þeim tilmælum til ríkisvaldsins að rýmka reglur um hollustuhætti og matvæli svo það sé hverju sveitarfélagi í sjálfsvald sett hvernig það kýs að haga reglum um á hvaða stöðum sé leyfilegt að hafa dýr, svo sem á kaffihúsum, veitingastöðum, líkamsræktarstöðvum, samkomuhúsum o.s.frv. Það er réttlætismál að sveitarfélög hafi svigrúm gagnvart eigendum slíkra staða að leyfa dýrahald ef þeir óska.

 

Hér er átt við 19. gr. Hreinlæti og dýr í reglugerð um hollustuhætti nr. 941/2002 en hún hefst á þessari setningu:  Ekki má hleypa hundum, köttum eða öðrum dýrum inn í húsrými eða á lóðir sem fjallað er um í fylgskjali 3.

Í fylgiskjali 3 er síðan eftirfarandi upptalning: Heilbrigðis- og meðferðarstofnanir; Skólar; Lækna- og tannlæknastofur; Sjúkrahús og aðgerðarstofur; Vistarverur handtekinna manna; Heilsuræktarstöðvar; Íþróttastöðvar og íþróttahús; Gæsluvellir; Snyrtistofur; Nuddstofur og sjúkraþjálfun; Sólbaðsstofur; Húðflúrstofur; Samkomuhús s.s. kirkjur, leikhús, hljómleikasalir, söfn og kvikmyndahús; Gististaðir; Veitingastaðir; Sumarbúðir fyrir börn.

Reglugerðin veitir síðan undarþágu fyrir hjálparhunda fólks með fötlun.

Stjórn Félags ábyrgra hundaeigenda, FÁH, fagnar því að borgarstjórn Reykjavíkur skuli vilja rýmka reglur um hundahald í borginni og gefa eigendum staða sem taldir eru upp í fylgiskjali 3 í fyrrgreindri reglugerð svigrúm til þess að ákveða sjálfir hvort þeir leyfa dýrahald á staðnum eins og tíðkast í nágrannalöndum okkar. En í samanburði við hundahald í þeim löndum eru reglur hér á landi um hundahald í þéttbýli verulega íþyngjandi fyrir almenning.

Stjórn FÁH bendir hins vegar á hve skammt tillagan gengur gagnvart eigendum staða annars staðar á landinu sem og hundaeigendum á landinu. Með samþykkt þessara tilmæla lendir það nú á öllum sveitarfélögum að ákveða hvort þeir vilja að eigendur staða sem taldir eru upp í fylgiskjali 3 fái svigrúm til þess að ákveða sjálfir hvort þeir vilja leyfa dýrahald eða ekki. Það segir sig sjálft að ástandið verður óviðunandi ef sum sveitarfélög gefa eigendum umræddra staða þetta svigrúm en önnur ekki.

Því beinir stjórnin þeim eindregnu tilmælum til Umhverfisráðneytisins að fella niður umrætt ákvæði 19. greinar úr reglugerð um hollustuhætti nr. 941/2002. Það er réttlætismál að allir eigendur staða sem nefndir eru í fylgiskjali 3 í umræddri reglugerð sitji við sama borð. Það er einnig réttlætismál gagnvart hundaeigendum um allt land að þeir geti flust á milli staða, sem og ferðast um landið sitt og að sömu reglur gildi í öllum sveitarfélögum.

Virðingarfyllst

f.h. stjórnar FÁH

 

Jórunn Sörensen