FÁH sendi bréf til borgaryfirvalda vegna Geirsnefs

Félag ábyrgra hundaeigenda (FÁH) hefur sent borgaryfirvöldum eftirfarandi bréf vegna fréttar um niðurstöðu hugmyndasamkeppni um Geirsnef og svæðið í kringum það.  Ekkert samráð var haft við FÁH né önnur hundafélög í aðdraganda þessarar tillögugerðar,  þrátt fyrir að hagsmunir hundaeigenda séu ríkir þegar kemur að Geirsnefi þar sem það er eitt af örfáum hundasvæðum innan borgarmarkanna.Góðan dag,

Nýlega sigraði tillaga Arkís, Landslag og Verkís að breyttu skipulagi á Vogabyggð, í hugmyndasamkeppni á vegum borgarinnar. Ég las yfir tillöguna spennt að sjá hið nýja Geirsnef, þar sem það stóð í fréttinni að því yrði “umbreytt í fjölbreytt og skjólgott útivistarsvæði”. Ég hlakkaði til að sjá nýja fallega hundavæna útivistarsvæðið, sem ætti að koma í stað þessa gamla og úrelta svæðis sem hefur í áraraðir verið beðið um úrbætur á. Undanfarin ár eru mestu úrbæturnar sláttur á grasi, sem náðist eftir mikla eftirfylgni seint í júlí á síðasta ári, þegar hundar í labrador stærð voru farnir að týnast þar.

Ég verð að viðurkenna að ég varð fyrir vonbrigðum með verðlaunatillöguna. Tillagan sýnir fallegt gróið Geirsnef, með tjörnum, smálest og fótboltavöllum, en svo las ég hvað verða átti um mest notaða og eina almennilega hundasvæðið sem er opið allan ársins hring inni í Reykjavík: “Núverandi hundaaðstöðu verði fundinn nýr staður t.d. á Hólmsheiði”.

Þetta er verðlaunatillaga, sem ákveður ekki nýjan stað fyrir núverandi notkun svæðisins, en bendir á möguleikann að færa svæðið upp á Hólmsheiði, sem margir hundaeigendur nýta sér nú þegar, þar sem það er utan bæjarmarkanna. Ef þarna hefði verið skóli, þá hefði væntanlega þurft að finna skólanum nýtt svæði ?Það hefði líklegast verið rætt við skólann, séð hvaða skoðun stjórnin hefur á málinu og hvert skólinn væri tilbúinn að flytja eða hvað væri í boði.
Af hverju hefur borgin ekki samráð við hundaeigendur, um breytingar/afnám á eina hundasvæðinu sem er miðsvæðis í Reykjavík? Hundaeigendur hljóta að hafa einhvern rétt á því að hafa áhrif á slíkar ákvarðanir, ekki síst í ljósi þess að hundaeigendur í Reykjavík greiða um 35 milljónir í hundaleyfisgjöld árlega.

Einnig stuðlar tillagan að bíllausum lífstíl, sem er gott og blessað, en það þarf þá að stuðla að bíllausum lífstíl fyrir alla, einnig þá sem eiga hund. Munu hundar verða leyfðir í bátana eða sporlestina? Í erlendum stórborgum eru oft ákveðnir vagnar sporlestarinnar eða ákveðin sæti, eingöngu fyrir fólk með ofnæmi. Svipað væri hægt að útfæra hér á landi.

Þetta svæði, ásamt Geldinganesi og Paradísardalsins ofan Rauðavatns, eru einu stóru svæðin innan borgarinnar, þar sem hægt er að sleppa hundum og láta þá hlaupa um frjálsa. Gerðin sem eru hér nú þegar henta mjög takmörkuðum hópi hundaeigenda, og það er hreinlega ekki nægilega vel að þeim staðið.
Samkvæmt nýlegri könnun Gallup eru hundaeigendur tæp 20% íbúa höfuðborgarsvæðisins. Þetta er stórt hlutfall íbúa, og hunda þarf að hreyfa almennilega og reglulega, án taums, t.d. við Geirsnef, Geldingarnes, fyrir ofan Rauðavatn, eða annars staðar utan bæjarmarka. Það tíðkast í mörgum helstu stórborgum heimsins að hafa almenningsgarða með innbyggð hundasvæði eins og Central Park í New York, Golden Gardens í Seattle, Peter’s Park í Boston og Fælledparken og Søndermarken í Kaupmannahöfn. Í Grunawald skóginum í Berlín er allt útivistarfólk velkomið, hvort sem það er hjólandi, labbandi eða í göngutúr með hundana sína lausa, þeir fá að synda í tjörnum og leika sér í sátt og samlyndi við alla. Einnig tíðkast svokallað “offleash” án taums, í sumum almenningsgörðum, snemma á morgnana, eða á einhverjum öðrum tímum, sem sveitarfélög ákveða, tilgreina hvaða svæði og á hvaða tíma, lausaganga innan garðanna er leyfileg.

Við óskum eftir að borgin kynni sér hvernig tekið er á hundamálum á útivistarsvæðum og í almenningsgörðum í stærri borgum. Stjórn FÁH er ávallt reiðubúin í uppbyggilegt spjall varðandi allt sem tengist hundahaldi í Reykjavík, og því tilvalið fyrir starfsmenn Reykjavíkurborgar að hafa samband við Félag ábyrgra hundaeigenda þegar til skoðunar eru breytingar á hundasvæðum. Athugasemdir F.Á.H. voru ekki virtar þegar farið var í framkvæmdir á hundagerðunum þremur innan bæjarmarkanna og óskum við eftir að tekið verði til skoðunar ábendingar okkar núna því gerðin eru flest ónothæf í dag nema fyrir mjög takmarkaðan hóp hundaeiganda.

Fögnum margbreytileikanum og bjóðum hunda velkomna í almenningsgarða.

Fyrir hönd F.Á.H.,
Guðfinna Kristinsdóttir, stjórnarmaður