Jórunn Söresen:
Atvik sem gerðist nýlega þegar við Spói vorum í gönguferð í Kópavogsdalnum líður mér ekki úr minni. Ég var bíllaus svo við komumst ekki á okkar uppáhaldsslóðir en Spóa finnst einnig afar gaman að fara í taumgöngu í Dalnum og „lesa“ dagbók síðustu daga – hitta aðra hunda og fullt af fólki, gangandi og hjólandi, sem hann fær nammi fyrir „að-láta-það-ekki-koma-sér-við“ og ganga stilltur við hæl. Ég hef gjarnan með mér dót því við stíginn eru ákveðnir staðir þar sem við tökum gjarnan léttar æfingar og leikum okkur á eftir. Einn slíkur staður er rétt fyrir neðan Digraneskirkju. Þar hafa verið reistir einhvers konar stöplar og þar eru bekkir. Þarna æfum við oft og á leiðinni ákvað ég að það skyldum við einnig gera núna.
Þegar ég nálgaðist staðinn sá ég að þar var hópur lítilla barna með hjólin sín og hugsaði að það væri bara fínt – Spói er vanur að æfa þótt eitthvað annað sé í gangi og börnin hefðu kannski gaman af að sjá hvað hann er duglegur. Um leið og ég beygði niður stiginn sem liggur að þessum stað kom drengur þjótandi á móti mér og hrópaðir: „Hann er með ofnæmi!“ og benti á dreng sem stóð fyrir aftan. Ég leit á umræddan dreng og hvílíkan angistarsvip hef ég vart séð á barni áður. Ég sagði glaðlega að þetta væri allt í lagi og gekk áfram. Litli hræddi drengurinn horfði á okkur Spóa skelfingu lostinn, hörfaði og hélt krampataki í hjólið sitt og sagði:
– Ég fór í blóðprufu.
– Og kom þá í ljós að þú ert með ofnæmi fyrir hundum, spurði ég.
– Já, svaraði hann.
– Mikið er það leiðinglegt, sagði ég.
– Já, svaraði hann.
Síðan flýtti hann sér í burtu og hinir drengirnir á eftir honum. Síðastar voru tvær telpur sem komu til okkar Spóa og spurðu hvort þær mættu klappa honum. Það var auðvitað sjálfsagt og þær klöppðu honum góða stund og dáðust að því hvað hann væri sætur og mjúkur. Svo fóru þær á eftir drengjunum.
Hvað erum við að gera börnum í þessu landi? Þetta er ekki eina dæmið sem ég hef um að foreldrar/forráðamenn barns koma inn hjá því ofsahræðslu við hunda því barnið þeirra hefur greinst með ofnæmi. Svo miklum ótta að barnið þorir ekki að vera í nokkurra metra fjarlægð frá hundi sem er rólegur við hlið eiganda síns. Hvergi á byggðu bóli – öðru en hér á Íslandi – gæti slíkt gerst.
Við verðum að fara að hugsa okkar gang.
Hér fyrir neðan er slóð á pistil sem birtist í Hundalífspóstinum ( www.hundalifspostur.is ) og ég hvet alla til þess að lesa hann.
http://hundalifspostur.is/2015/04/14/ofnaemid-og-ottinn-lifsreynslusogur-sem-enda-vel/