Varðandi tölvukerfið Lukku

Þorsteinn Kristinsson:

Í ljósi þess að tölvukerfi félagsins hefur verið nefnt til sögunnar í aðdraganda aðalfundar þá tel ég rétt að koma á framfæri bréfi sem var sent til stjórnar HRFÍ um síðastliðin mánaðarmót:

 

Til stjórnar HRFÍ
Kópavogur, 28.4.2017

Varðandi tölvukerfið Lukku.

Núna eru liðin 12 ár frá því að tölvukerfið Lukka var tekið í notkun í mars 2005 en ég hafði þá unnið að þróun og forritun á kerfinu frá sumrinu 2004. Kerfið tók við af þáverandi skráningarkerfi sem samanstóð af Access gagnagrunni sem var mjög óþjáll í notkun, sérstaklega varðandi sýningar.
Frá árinu 2007 hefur verið rætt um að skipta Lukku  út og ég hef alla tíð verið tilbúinn að aðstoða við það. En að sama skapi hefur sú umræða orsakað ákveðna stöðnun í þróun á Lukku. Það er enginn að fara að leggja vinnu í að bæta og breyta kerfi sem stendur til að skipta út. En svo líður heill áratugur.
Ég hef þjónustað kerfið frá upphafi. Síðstu árin hef ég gert það í sjálfboðavinnu þar sem það hafa bara verið örfá skipti á ári sem eitthvað hefur þurft að gera. Núna eru framundan breytingar hjá mér þar sem ég er að fara í háskólanám meðfram vinnu í haust. Ég vil ekki eiga það á hættu að hafa of mikið á minni könnu og því vil ég frekar gera  fáa hluti vel heldur en marga hluti illa. Ég sé því ekkert annað í stöðunni en að tilkynna stjórn HRFÍ að frá og með 1. september 2017 þá mun ég hætta alfarið að þjónusta tölvukerfið Lukku að óbreyttu.
Það er mikilvægt að vandað sé til verka þegar nýtt tölvukerfi verður valið. Það þarf yfirgripsmikla þekkingu þeirra sem búa til kerfið á öllu hundatengdu til að það nýtist sem best. Jafnframt er mjög mikilvægt að velja kerfi sem hefur sterkt bakland og því er mikilvægt að skoða vel samstarf við hin Norðurlöndin. Þróunar- og nýsmíðakostnaður á glænýju kerfi getur hlaupið á tugum milljóna ef ekki er að gætt og viðbætur og breytingar í framtíðinni geta verið álíka kostnaðarsamar. Í rauninni er HRFÍ allt of lítið félag til að standa eitt að svona kerfi sem þarf að þróast jafnt og þétt með breyttri hundamenningu og geta staðið undir þeim kröfum sem gerðar eru til þess í nútímasamfélagi.
Að lokum vil ég þakka fyrir ánægjulegt samstarf við starfsfólk skrifstofunnar sem hefur verið með besta móti frá fyrsta degi.

Virðingarfyllst,
Þorsteinn Kristinsson