Borgarstjórn tekur slaginn við ríkið um gæludýrahald á veitingastöðum

Visir.is

Borgarstjórn Reykjavíkur hefur sammælst um að beina því til ríkisvaldsins að sveitarfélögum verði í sjálfsvald sett hvernig þau vilja haga reglum um hollustuhætti og matvæli.

Tillaga Hildar Sverrisdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um þetta var samþykkt í borgarstjórn rétt í þessu. „Ég er mjög hamingjusöm,“ segir Hildur í samtali við Vísi um málið. „Framsókn og flugvallarvinir sátu hjá en tóku ekki til máls við umræðurnar þannig að ég veit ekki hver ástæðan er á bak við það. En að öðru leyti var þessi tillaga samþykkt af meirihlutanum og ég er mjög þakklát fyrir það.“

Vísir fjallaði um tillögu Hildar í gær en þar sagði hún vilja leyfa eigendum kaffihúsa, veitingastaða og annarra samkomustaða að hafa svigrúm til að leyfa dýrahald ef þeir óska. „Allar rannsóknir sýna að það er betra að hafa gæludýr en ekki. Það lífgar uppá og gerir borgarumhverfið betra að hafa þau sem víðast. Þótt auðvitað þurfi að huga vel að hreinlæti, ofnæmisvöldum og öðrum álitamálum sem sjálfsagt er að taka tillit til,“ sagði Hildur við Vísi í gær.

Birgir Olgeirsson http://www.visir.is/borgarstjorn-tekur-slaginn-vid-rikid-um-gaeludyrahald-a-veitingastodum/article/2015150518963