Borgin vill aukið frelsi til gæludýrahalds

ruv.is

Borgarstjórn vill að sveitarfélög fái sjálf að setja reglur um gæludýr á opinberum stöðum. Tillaga um að beina þessu til ríkisins var samþykkt á borgarstjórnarfundi í dag.

Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins lagði fram tillöguna um að reglur um gæludýr á opinberum stöðum verði á forræði hvers sveitarfélags. Á Facebooksíðu sinni kallar hún þetta fyrsta skrefið í átt að sjálfsögðu valfrelsi fólks.

Tillagan var samþykkt í borgarstjórn. Fulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sátu hjá við atkvæðagreiðsluna, en fulltrúar annarra flokka samþykktu hana.

Hildur setti tillögu sína fram í kjölfar þess að leigjendum í íbúðum Brynju, hússjóðs Öryrkjabandalags Íslands, var gert að losa sig við gæludýr sín. Hún segir að málið hafi eflaust ýtt við sér.

Finnst hægt að gera betur

Tilllaga borgarstjórnarinnar nær til allra annarra staða en heimila, allt frá veitinga- og kaffihúsum til líkamsræktarstöðva, leikhúsa og hótela. Hildur telur þetta geta verið skref í þá átt að reglur um dýrahald færist alfarið yfir á sveitarfélög með tíð og tíma.

„Við eigum að geta gert betur,“ segir hún. „Það virðist oft vera auðveldara að banna heldur en að taka tillit til blæbrigða og margbreytileika fólks.“

Hildur segist vilja vægari reglur og meira frelsi fólks. „Ef eitt kaffihús leyfir gæludýr þá geta þeir sem ekki líkar það bara valið annað kaffihús,“ segir hún.

Hildur kveðst vona að með þessu aukna frelsi verði Reykjavík dýravænni borg og segir að fjöldi rannsókna sýni fram á að návist við dýr sé allra meina bót.

Dýraeigendur mótmæltu í dag

Edda Kristveig Indriðadóttir, hundaeigandi og leigjandi í íbúð á vegum Brynju, hússjóðs ÖBÍ, tók þátt í mótmælum gæludýraeigenda við skrifstofur sjóðsins í Hátúni í dag.

„Þetta voru ekki bara hundaeigendur,“ segir hún. Leigjendurnir standi þétt saman og ætli ekki að gefast upp.

KATRÍN JOHNSON http://ruv.is/frett/borgin-vill-aukid-frelsi-til-gaeludyrahalds