Námsfúsi kötturinn Gosi í Kvennó

Þessi skemmtilegi pistill í Fréttablaðinu fjallar um kött en á fullt erindi við okkur á Hundalífspóstinum. Krakkarnir elska Gosa og segja hann ómissandi hluta af lífinu í skólanum. Samvistir við dýr gera öllum gott.
Fréttablaðið:

Hann birtist í stofunni eða krakkarnir finna hann á göngunum og draga hann með sér inn í stofu. Svo liggur hann á gólfinu eða uppi á borðum og lætur fara vel um sig,“ segir Ásdís Arnalds, íslenskukennari í Kvennaskólanum í Reykjavík, um námsfúsa köttinn Gosa sem virðist halda að hann sé menntaskólanemi og mætir samviskusamlega í skólann á hverjum morgni. Gosi virðist líka meðvitaður um að Kvennó sé í þremur mismunandi húsum og töluverður spölur á milli þeirra, því hann skýtur reglulega upp kollinum í öllum þremur byggingum og þiggur klapp og knús frá kennurum og nemendum fegins hendi.

Ásdís er þó ekki ein þeirra sem láta vel að hinum kolsvarta Gosa þegar hann birtist í Kvennó, enda er hún með ofnæmi fyrir köttum. Henni er samt hlýtt til kisa og leyfir honum góðfúslega að sækja kennslustundir. „Fyrst þegar hann kom og krakkarnir fóru að klappa honum varð ég pínu stressuð út af ofnæminu, en á meðan hann truflar ekki tímana má hann alveg vera inni í stofunni. Við vitum ekki einu sinni hvar hann býr, en krakkarnir elska hann,“ segir Ásdís og bætir við að á kennarastofunni sé líka mikið rætt um Gosa og velt vöngum yfir því hvort námið sé of erfitt fyrir hann, hann sé í of mörgum einingum á yfirstandandi önn, mætingastjórinn þurfi að hafa áhyggjur af skólasókninni hjá honum og fleira í þeim dúr.

Nína Margrét Daðadóttir, nemi í Kvennó og varaformaður Fúríu, leikfélags skólans, segir Gosa ómissandi hluta af lífinu í skólanum og að hans yrði sárt saknað ef hann hætti að mæta í skólann. Kötturinn er líka tíður gestur á æfingum leikfélagsins. „Gosi er sætur og vingjarnlegur og truflar engan. Við opnum alltaf fyrir honum á æfingum, en ég hef ekki hugmynd um það hvernig hann kemst inn í hinar byggingarnar. Við köllum hann Fúríuköttinn og hann er ávallt velkominn,“ segir Nína Margrét.

http://vefblod.visir.is/index.php?s=10380&p=221529&a=486612

kjartang@frettabladid.is

20161014_084702