Fjórða sporapróf Vinnuhundadeildar HRFÍ var haldið í dag á Kjóavöllum. Þrír hundar voru skráðir í prófið.
Tveir tóku þátt í Spori I og einn í Elíte. Hundarnir sem tóku þátt í Spori I voru báðir að taka þátt í fyrsta sinn og báðir fyrstu fulltrúar sinnar tegundar í sporaprófi.
Spor I
Með 80 stig og II. einkunn var Undralands Once Upon A Time eða Tumi, Sheltland sheepdog og Erna S. Ómarsdóttir. Tumi var hægur í gang en eftir að hann markeraði fyrsta millihlutinn vann hann sig upp í einkunn . Mjög vel unnið hjá þeim Tuma og Ernu sem eru nýlega byrjuð að æfa spor.
Beglind Gunnarsdóttir tók einnig þátt í Spori I með Ístjarnar Brightest Sunshine eða Flugu. Berglind er líka nýliði aðeins búin að taka nokkrar æfingar nú í haust en ákvað að mæta í próf til að fá æfinguna. Fluga sporar frábærlega en markeraði ekki millihluti og fékk því 0 í einkunn en frábær vinna hjá Flugu og Berglindi sem eiga örugglega eftir að sýna síðar hvað í þeim býr. Gaman að fá báða þessa nýliða inn í sportið.
Spor Elite
Með 100 stig af 100 mögulegum var Sporameistarinn Ibanez white shephard Fjalladís eða Dís. Dís skilaði frábærri vinnu – fann sporið strax, lét krosspróf ekki trufla sig og skilaði 10 kubbum til prófstjóra í lok sporsins. Dís er þar með fyrsti hundurinn á Íslandi til að ná prófi í Elíte. En einungis fjórir hundar hafa núna keppnisrétt í Spor Elíte.
Ágætis aðstæður voru á Kjóavöllum á þeim tíma sem sporaprófið fór fram, hægur vindur og smá úði.
Prófstjóri var Eva Kristinsdóttir
Dómari var Kristjana Guðrún Bersteinsdóttir
Stjórn Vinnuhundadeildar þakkar þeim að komu að prófinu